Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:26:25 (5960)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég get nú ekki orða bundist vegna seinni ræðu hæstv. félmrh. en fyrirspyrjandi kom í sinni síðari ræðu inn á mjög merkilegt atriði þar sem hún vakti athygli á því hér í þinginu að það er kominn nýr misvísunarhópur, fólkið sem tapaði einni millj. af fjórum út um gluggann vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar í vaxtamálum árið 1991. Ég vil spyrja hæstv. félmrh. Hyggst hún skoða stöðu þessa fólks? Það tapaði einni milljón af fjórum og verður að bera hana næstu 25 árin eins og hv. fyrirspyrjandi spurði hér um. ( ÖS: Hún ætlar að lækka vexti.) Það er mjög mikilvægt að lækka vexti og til þess er fullur vilji alls staðar nema hjá ríkisstjórninni. Hún hækkaði þá og stendur fast á því að gera ekki þær aðgerðir sem þarf til þess að þeir lækki. En það er verða dálítið einkennilegt eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda, ef Seðlabankinn er nú orðinn stærra móðurhjarta heldur en allir ráðherrarnir hafa til að bera og þar með talinn hæstv. félmrh. sem ég hef nú haft fulla trú á. En ég tel mjög mikilvægt að hæstv. félmrh. standi við þau orð sem hún sagði hér í sinni ágætu ræðu í upphafi að skoða þessi mál af gaumgæfni.