Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:27:59 (5961)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Þessar umræður eru svolítið sérkennilegar. Veit hv. fyrirspyrjandi það ekki að Framsfl. var í stjórn í 20 ár samfellt? Er hv. fyrirspyrjandi ekki búinn að spyrja flokkssystkini sín að því, ef hún veit það ekki, hvort Framsfl. með aðild sinni að stjórn í 20 ár hafi skilað heimilunum skuldlausum að loknu því tímabili? Það væri fróðlegt ef fyrirspyrjandi mundi lesa fyrir okkur tölur um skuldsetningu heimilanna í lok þessa 20 ára stjórnartímabils. Ef Framsfl. hefði skilað góðu búi heimilanna, þá væri aldeilis ekki við þennan vanda að etja nú þó að það séu þrengingartímar vegna þess að Framsfl. beitti sér kannski frekar fyrir því en margur annar að þrengja að heimilunum með alls konar álögum á góðæristímum, meðan ríkisstjórnin nú er að verja heimilin á þrengingartímum.