Skuldastaða heimilanna

126. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 13:30:35 (5964)

     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Það skal ég sannarlega gera. Mér þótti það afar óviðeigandi en kannski skiljanlegt að hv. þm. og mjög þingreyndur þingmaður skyldi þurfa að grípa til þess ráðs að verja sinn flokk og sjálfan sig með því að gera persónu mína að meginumtalsefni í ræðu sinni. Það er mjög skiljanlegt fyrir þá sem hafa vondan málstað að verja að gera persónu þess sem umræðu vekur á máli að aðalefni máls síns. Ég skil þetta og ég hef samúð með manni sem er í slíkum aðstæðum. Það veit hv. þm. að ég ræddi akkúrat ekkert um það fólk sem á í þeim vandræðum nú eins og áður, sem stendur undir skuldsetningu heimilanna um þessar mundir. Það sem ég var að tala um var ábyrgð Framsfl. gagnvart þessu fólki í 20 ár. ( PP: Á síðustu tveimur árum?) Mér er kunnugt um það jafn vel og hv. þm. Páli Péturssyni og öðrum hv. þm. hver skuldastaða heimilanna er og hvernig fólki líður. En mér er líka kunnugt um það hvað ríkisstjórnin er að reyna að gera við mjög þröngar aðstæður til þess að verja eins og kostur er fólk gagnvart skuldum sínum.