Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu 1992

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 14:08:49 (5971)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Frú forseti. Ég held að það sé nauðsynlegt að Alþingi taki þátt í þessu. Annað er auðvitað ekki hægt úr því að búið er að koma sér í þetta. Ég held að það skipti ekki miklu þó einhverjir aðrir þingmenn sinntu þessum störfum. Ég held að þau væru í jafnmikilli óvissu hver svo sem sinnti þeim. Hv. 18. þm. Reykv. getur svo sem rætt um það við hv. 10. þm. Reykv., Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, hvort henni finnst þetta mjög gefandi starf.
    Það er alveg hárrétt sem kom fram í fyrstu ræðu áðan að þingmenn hafa sáralítil áhrif á það sem þarna er að gerast. Þetta er embættismannakerfi og verður það þar sem allt er einhvern veginn fyrir fram lagt fyrir fundina og litlar breytingar mögulegar á því. Ég hef sagt það áður og segi það enn að ég held að það fari fyrir Efnahagsbandalaginu og afsprengi þess eins og Sovétríkjunum, hvort tveggja deyr úr leiðindum.