Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu 1992

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 14:10:00 (5972)

     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Þessi skýrsla sem hér hefur verið mælt fyrir af varaformanni eða staðgengli formanns nefndarinnar . . .   ( Gripið fram í: Það er enginn varaformaður.) Það er enginn varformaður en af hv. þm. Páli Péturssyni gefur tilefni til þess að ræða ögn þau mál sem tengjast þessu samstarfi, formi þess og innihaldi. Ég tel það góðra gjalda vert að það komi skýrsla og það komi árlega skýrslur frá þeim nefndum sem Alþingi kýs til starfa á alþjóðvettvangi og því góður siður að þetta sé hér á dagskrá. Það var þannig til skamms tíma að aðeins voru tveir þingmenn virkir í þessum EFTA-nefndum og voru takmarkaðar fregnir af þeim vettvangi árum saman en það voru Sjálfstfl. og Alþfl., sem skiptu þessu alþjóðasamstarfi bróðurlega á milli sín um alllangt skeið. Ég er ekki að sakast við þá flokka. Það hefur vafalaust verið með þegjandi samkomulagi annarra þingflokka. Ég held að ég hafi vakið athygli á því fyrir einum tveimur árum síðan að þetta væri dálítið einkennilegt hvernig háttað væri samstarfinu í hinni svokölluðu EFTA-nefnd að þessu leyti. Á þessu hefur orðið breyting og nú eru allir flokkar sem með einhverjum hætti taka þátt í starfi nefndarinnar þó við beitum þar ekki heimildum að fullu um jafnræði varðandi þátttöku við önnur EFTA-ríki varðandi starfið sjálft. Það má heyra á þeim fulltrúum sem hér hafa mætt að það sé ekki eftir mjög miklu að slægjast.
    Ég tek orð þeirra gild sem þetta votta og geri ráð fyrir að þarna sé í rauninni ekki hægt að þoka miklu til leiðar fyrir Íslands hönd. En auðvitað þurfum við að vera vakandi á slíkum vettvangi hverju sinni og hverju nafni sem hann nefnist á meðan landið er þátttakandi í viðkomandi samtökum, um það er engin spurning.
    Varðandi form skýrslunnar þá er dálítið óljóst yfir hvaða tíma þessi skýrslugjöf nær. En væntanlega er henni ætlað að taka við af þeirri síðustu skýrslu sem lögð var fyrir af hálfu nefndarinnar. Henni lýkur í rauninni í desembermánuði ef ég hef litið rétt á dagsetingar hér. Það kemur sem sagt ekki fram það sem bætt var úr hér af hv. 1. þm. Norðurl. v. sem rakti gang mála nú alveg upp á síðkastið í sambandi við þennan þingmannavettvang fyrirhugaðs Evrópsks efnahagssvæðis, sem hefur verið eitt aðalviðfangsefnið að mér skilst í þessu þingmannasamstarfi EFTA og Evrópubandalagsins og verið tekist þar á um hluti nokkuð. Það var gott að fá þessar viðbótarupplýsingar. En það var eitt sem ég vil spyrja um sérstaklega í þessu sambandi og það er um sjálfstæðan þingmannavettvang EFTA, hvernig þeim málum víkur við, hvort það sé sjálfgefið að þarna verði um tvær nefndir að ræða sem mér sýnist stefna í ef Evrópskt efnahagssvæði verður að veruleika sem auðvitað er ekki ráðið enn sem komið er. Sviss hefur dregið sig út úr en er enn EFTA-ríki og Liechtenstein er úti enn sem komið er og er enn þá í EFTA-samtökunum. Hvernig víkur þessu við? Verður sem sagt sjálfstæð þingmannanefnd EFTA starfandi og önnur sjálfstæð EES þingmannasendinefnd af hálfu Alþingis ef EES-samningurinn verður staðfestur og kemst á? Um þetta væri gott að fá vitneskju og hvaða viðhorf ríkja í þeim efnum.
    Það er auðvitað svo að þessi þingmannasamkoma sem ráðgert er að tengist EES-samningnum og því starfi sem fer fram undir hans hatti, skiptir ekki miklu máli í raun, vegna þess að þar er eingöngu um upplýsingastarf að ræða, upplýsingagjöf og þá kannski óbeina ráðgjöf af hálfu þingmanna, en valdið er ekkert. Það er svo sem ekki að undra þegar málum er þannig fyrir komið í sjálfu Evrópubandalaginu að þingmannasamkunda Evrópubandalagsins hefur lítið að segja nema í algerum undantekningartilvikum, aðeins varðandi fjármál og varðandi viðbótarsamninga nýrra ríkja. Það er eina viðfangsefni Evrópuþingsins þar sem þingið getur gert sig í raun gildandi, þó það geti hreyft eða óskað eftir breytingum á framkomnum lögum. Þetta er auðvitað allt saman umhugsunarefni en ég ætla ekki að ræða það frekar sérstaklega hér.

    Í lok þessarar skýrslu er vikið að annarri starfsemi. Þar er greint frá því að innan Evrópuþingsins starfar svokallaður kengúruhópur, The Kangaroo Group, The Movement for Free Movement, sem vinnur að frjálsum flutningum á sem flestum sviðum innan Evrópu. Mér finnst þetta sérkennilegt, virðulegur forseti, sérkennileg lýsing á þessum hópi sem þarna er að starfi, þessum kengúruhópi. Ég vil spyrja hv. 1. þm. Norðurl. v., sem er helst til svara af þeim sem hér eru viðstaddir í þingsal, nánar um þennan hóp sem vinnur að frjálsum flutningum á sem flestum sviðum, Movement for Free Movement. Ég hef grun um að þessi farandhópur, áhugahópur um flutninga á öllum sviðum, ætli að halda ráðstefnu eigi litla hér á Íslandi innan ekki langs tíma. Mér hefur skilist að þetta sé svona sá liðsafnaður sem hefur mestan áhuga á því að gera veldi Evrópubandalagsins sem mest og Rómarsamningsins og færa út kvíar Evrópubandalagsins. Það er kannski táknrænt að þessi kengúruhópur ætlar að nema land hér á landi með ráðstefnu ef ég hef numið það rétt sem einhvern tímann fló fyrir í fregnum í vetur. Ég vil inna fulltrúa úr EFTA-nefndinni eftir þessu af því að það er hér fjallað um þennan hóp í skýrslu þeirra. Með hvaða hætti Ísland eða EFTA-þingmannanefndin tengist þessum kengúruhópi, hvaða Íslendingar það eru sem koma við sögu á þessu fyrirhugaða þingi kengúruhópsins hér á landi að vori. Það væri æskilegt að fá einhverja vitneskju um það og að hverju er stefnt með þessu fundahaldi.
    En ég vildi sem sagt leyfa mér að bera þessa fyrirspurn hér fram þó formaður nefndarinnar sé hér ekki til svara en ég treysti hv. 1. þm. Norðurl. v., að svara þeim fyrirspurnum sem ég hef borið fram eftir því sem hann telur sér fært.