Þingmannanefnd Fríverslunarsamtaka Evrópu 1992

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 14:18:54 (5973)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég mun reyna að svara sumu af því sem hv. 4. þm. Austurl. spurði um. Þá er það fyrst að ég lít svo á að Íslendingar hafi verið jafnsettir öðrum EFTA-þjóðum í því þingmannasamstarfi sem ég hef tekið þátt í fram að þessu innan EFTA. Þ.e. við höfum átt rétt á að senda fimm fulltrúa eins og hin ríkin. Og við höfum mæst þar algerlega á jafnréttisgrundvelli. Það hefur ekkert hallað á okkur í þeim samskiptum. Hins vegar höfum við af sparnaðarástæðum ákveðið það innan sendinefndarinnar að fylla ekki öll þessi sæti þegar lítið hefur verið um að vera og ekki hafa verið svo afdrifaríkar ákvarðanatökur fram undan. Atkvæði hafa ekki verið greidd þarna fyrr en núna og þá vildi nú svo til að við vorum með fullmannaða sendinefnd. En það er bara af sparnaðarástæðum sem við höfum setið heima eða ekki nema sumir farið þegar fundir hafa verið haldnir.
    Um nauðsyn þessa samstarfs vil ég að gefnu tilefni endurtaka það sem ég sagði hér áðan að ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt fyrir Alþingi og þá þingflokkana sem slíka að fá veður af því hvað kontóristarnir ætla að gera í framtíðinni og það er í mínum augum gildi þessa samstarfs. Auðvitað eru persónuleg kynni manna af ólíkum þjóðernum líka mjög mikilvæg og gerir öll samskipti liprari ef menn kannast hverjir við aðra. Og það er líka gagnlegt. Við fáum þarna iðulega fróðlegar ræður um gang mála frá embættismönnum og ég tel mikinn feng í því að þær eru kannski ekki nákvæmlega í takt við það og sennilega réttari heldur en ýmsar upplýsingar sem við höfum fyrir satt hér heima. Þ.e. veröldin lítur talsvert mikið öðruvísi út í huga þessara fyrirlesara eða þegar þeir eru að greina frá þróun mála heldur en þegar við erum að frétta úr fjölmiðlum eða frá ráðamönnum um hvernig hlutirnir gangi fyrir sig.
    Varðandi tímasetningu skýrslunnar þá er hún um árið 1992. Og það var alls ekki við því að búast að hún mundi ná yfir það sem gerðist á fundi 8. mars, þá var meira að segja búið að prenta hana og leggja hana hér fram. En ég taldi eðlilegt að láta það fljóta með hér í umræðunni af því að það er nýskeð og greina þingmönnum frá því sem gerðist á þessum fundi því það hefur ekki verið gert með formlegum hætti fyrr.
    Varðandi spurninguna um hvað yrði um þingmannasamstarf EFTA sem slíkt eftir að sameiginlega nefndin hefur tekið til starfa þá er það atriði sem ekki hefur verið rætt svo ég viti til. Nú má segja að við séum eiginlega að verða aðilar að tvennum samtökum. Annars vegar Evrópsku efnahagssvæði en samt sem áður verður EFTA til í einhverri mynd. Það hafa menn held ég ekki enn þá komið sér niður á. Sviss verður áfram EFTA-þjóð, Sviss hefur ekki gengið úr EFTA þótt það gerðist ekki aðili að Evrópsku efnahagssvæði og svo er og um Liechtenstein. EFTA hefur talsverð samskipti austur á bóginn til Austur-Evrópuríkjanna og það er hægt að hugsa sér að það haldi áfram en um þingmannasamstarf hefur ekki verið rætt enda var ekki gert ráð fyrir öðru í þessum hóp en Sviss yrði aðili að Evrópsku efnahagssvæði. Þannig að það kemur upp ný staða 6. des. þegar Sviss fellir inngönguna í Evrópskt efnahagssvæði. Þetta er mál sem er allt í lausu lofti enn þá eftir því sem ég best veit.
    Hv. þm. spurði um kengúruhópinn. Ég er ekki rétti maðurinn til að svara honum ítarlega þar um. Kengúruhópurinn er samtök innan Evrópuþingsins, að mér skilst frjáls samtök áhugamanna um málefni. Ég kann ekki við þetta nafn, The Movement for Free Movement, en þetta eru miklir frjálshyggjumenn. Svo vildi til að þingmönnum EFTA-nefndarinnar barst boð um að sitja ráðstefnu í París á sl. vori um orkumál sem þessi hópur efndi til. Við Vilhjálmur Egilsson þágum þetta boð. Þetta var töluvert fróðlegur fundur og þeir höfðu fengið ýmsa fyrirlesara til að ræða um orkumál. Ég er alveg sannfærður um að hv. 4. þm. Austurl. hefði haft ánægju af að vera á þessum fundi og afla sér þar mikils fróðleiks eða hlusta á þá fyrirlestra sem þarna voru. Þarna voru pótentátar úr ýmsum orkugeirum sem lýstu sínum viðhorfum til orkumála. Ég verð nú að játa það að ýmislegt gekk alveg yfir mig af því sem ég heyrði þarna á þessari ráðstefnu. Ég hef komið til Póllands og ég veit af því að í héraðinu í kringum borgina Katowice þar sem eru aðalkolanámur Pólverja er bókstaflega orðið helvíti á jörð. Þar er barnadauði óskaplegur, vanskapanaður og heilsufar orðið þannig að það er alveg augljóst mál að þarna er ólíft, beinlínis stórhættulegt að vera. Yfirmaður kolamála í Katowice hélt ræðu á þessari orkumálaráðstefnu og hann taldi að það væri alger fjarstæða, alger fjarstæða að stíla upp á aðra orkugjafa en kol, auðvitað væru kolin langbesti orkugjafinn. Þarna voru ,,kjarnorku``-karlar sem fluttu erindi líka sem gengu í þá átt að það væri enginn orkugjafi sem þjónaði mannkyninu af þvílíkri dyggð og væri jafnhollur og góður og kjarnorkan. Það var eitt sem þeir voru sammála um að gleyma á ráðstefnunni, það var vatnsorka og jarðhiti. Það hvarf alveg í skuggann af hagsmunum olíuiðnaðarins, kolaiðnaðarins og kjarnorkuiðnaðarins.
    Ég hef frétt af því að þessi hópur Evrópuþingsins hafi ákveðið að efna til ráðstefnu hér á Íslandi í vor. Ég hef ekki tekið neinn þátt í undirbúning þeirrar ráðstefnu að sjálfsögðu þar sem ég er ekki í Evrópubandalaginu og veit ósköp lítið um þennan fund. Ég hef þó séð dagskrá að honum en er ekki með hana handbæra og er ekki viss um að ég muni hana en það eru margir fyrirlesarar og þó nokkuð þekktir sem þar eru til kynntir. Viðfangsefni þessa fundar sem Evrópubandalagsþingmenn efna til, er stækkun Evrópubandalagsins til norðurs. Þess er getið sérstaklega að Reykjavík sé valin sem fundarstaður og þetta sé í fyrsta sinn í sögu Evrópubandalagsins sem það efni til slíks fundar utan núverandi endimarka sinna. Þ.e. að landvinningar Evrópubandalagsins, þeir hafa hingað til haldið sig við sína núverandi landvinninga. Kann að vera að þetta boði ekki gott. En við bíðum og sjáum hvað setur og ég hef hugsað mér að fara ef ég hef tækifæri til og hlýða á þá fyrirlesara sem þarna koma á Hótel Sögu í vor eða hvar sem þeir ætla að hittast hér í Reykjavík. Ég býst við að ég eigi eftir að verða ekki minna hissa heldur en þegar ég var að hlusta á kolakarlinn frá Katowice.