Evrópuráðsþingið

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 14:52:36 (5977)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð formanns Íslandsdeildar Evrópuráðsþingsins um gott samstarf sem við höfum átt í þessari nefnd. Ég held að við getum ekki eins og þeir sem ræddu hér fyrr í dag kvartað undan leiðindum eða tilgangsleysi því að mínum dómi er unnið mjög merkilegt og gott starf á vegum Evrópuráðsins þó mál gangi stundum hægt. Það hefur verið afar fróðlegt að fylgjast með þessu starfi og fá að taka þátt í því. Það sem vakið hefur mesta athygli mína þetta síðasta ár er að mér hefur fundist tvö mál liggja á þinginu eins og mara ef svo mætti segja. Það er annars vegar ástandið í Júgóslavíu og þær hörmungar sem við höfum horft upp á þar og hvernig menn hafa staðið frammi fyrir máttleysi Evrópu í þeim efnum þar sem margt hefur verið reynt og áhersla lögð á samningaleiðina og menn reynt allt til að forðast íhlutun með vopnum í málefni Júgóslavíu en ekkert hefur dugað. Málefni Júgólavíu hafa komið til umræðu á hverju einasta þingi allt sl. ár. Mér er alveg sérstaklega minnisstæð kvöldstund sem við áttum á nefndarfundi, sú sem hér stendur og hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir, ég hygg að þar hafi ekki fleiri Íslendingar verið viðstaddir, þegar þar var kominn utanríkisráðherra Bosníu-Hersegovínu og hans fólk og greindi okkur frá ástandi mála þar og spáði í framtíðina. Ég hygg að flest af því sem hann sagði hafi ræst. En það var gríðarlega áhrifamikið að hlusta á hann og ég held að allir sem þar voru hafi skynjað þann óskaplega þunga og þá miklu sorg og harm sem þessi maður bar með sér vegna hins voðalega ástands í hans landi. En eins og við vitum þá koma þar fleiri að málum og það er ekki bara einn sekur þegar slíkar deilur eiga sér stað. En hömungin er söm og jöfn að við Evrópubúar skulum ekki hafa fundið leið til að leysa þessa deilu. Vonandi sér fyrir endann á henni.
    Hitt sem mér hefur fundist ganga eins og rauður þráður í gegn um umræðuna í Evrópuráðinu og þá ekki síst nú á síðasta þingi voru þungar áhyggjur vegna vaxandi útlendingahaturs og kynþáttamisréttis og átaka í því sambandi. Þetta kom upp í hverri ræðunni á fætur annarri og ekki síst hjá þeim þjóðarleiðtogum sem ávörpuðu þingið. Í því sambandi vil ég nefna það að Gro Harlem Brundtland, forsætisráðherra Noregs, sem ávarpaði þingið nú í febrúar, kynnti þá tillögu Norðmanna að leiðtogaráðstefnan sem haldin verður í Vínarborg í haust taki þessi málefni sérstaklega til umræðu og geri þau að einu meginviðfangsefni þess fundar. Vegna þess að menn hugsa sem svo: Er sagan að endurtaka sig, sagan frá millistríðsárunum? Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að það skapist aftur slíkt ástand þar sem ofsóknir gegn útlendingum og þeim sem teljast til annarra menningarhópa en hins evrópska með endalausum átökum og öllu því sem fylgir, meiðslum og jafnvel manndrápum? Ég á sæti í tveimur nefndum á vegum Evrópuráðs eins og fram kemur hér í skýrslunni. Annars vegar nefnd sem fjallar um málefni flóttamanna og hins vegar nefnd sem fjallar um þau ríki Evrópu sem standa utan Evrópuráðsins. Það hefur verið afar fróðlegt að fylgjast með starfi þessara nefnda því hin miklu vandamál sem styrjöldin í Júgóslavíu hefur valdið og hið erfiða ástand í Austur-Evrópu leiðir af sér hefur auðvitað verið þar mjög á dagskrá.
    Nefndin sem fjallar um ríki Austur-Evrópu sem standa utan Evrópuráðsins hefur margsinnis og ítrekað farið í gegnum ástandið í þessum löndum. Annars vegar til þess hreinlega að fylgjast með þróuninni og hins vegar vegna þess að þessi ríki eru ýmist að sækja um aðild að Evrópuráðinu eða um gestaaðild. Þessu hafa fylgt mikil ferðalög nefndarmanna sem ég hef reyndar ekki séð mér fært að taka þátt í. En það er merkilegt að þeir sem þarna hafa farið og hitt ráðamenn og aðra þá sem koma að málum telja jafnvel að heimsóknir þessara nefnda hafi haft afgerandi áhrif á þróun mála vegna þess að í þessum ríkjum, sem eru að stíga sín fyrstu skref í lýðræðisátt flest hver, eru menn vankunnandi og reynslulitlir. Að segja þeim frá vinnuaðferðum og reglum sem gilda í lýðræðislegum samfélögum getur hreinlega skipt miklu máli.
    Í flóttamannanefndinni hafa menn auðvitað orðið sífellt meira varir við þann mikla flóttamannastraum og þau gríðarlegu vandamál sem átökin í Júgóslavíu hafa skapað. Menn eru auðvitað að reyna að finna leiðir til að taka á þeim málum. Þá vil ég nefna það sérstaklega að í umræðunni í Evrópuráðinu verður maður ekki mikið var við að málefni kvenna séu til umræðu. Þó er búið að leggja fram skýrslu um stöðu kvenna innan Evrópuráðsins. Það er eitt og annað að gerast í þeim efnum. Í samvinnu við Evrópuráðið var haldin sérstök kvennaráðstefna sem við sátum, hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir og ég. Þangað hafði verið boðið konum frá Austur-Evrópu. Það var mjög fróðlegt að heyra það sem þær höfðu fram að færa. Þær lýstu ástandinu í sínum löndum og þar kom skýrt í ljós við hve gríðarlega erfiðleika þær eiga að etja, bæði andspænis gömlum fordómum og því mikla karlveldi sem einkennir þessi ríki, en ekki síður vegna mikilla efnahagsörðugleika, vöruskorts, sem m.a. leiðir af sér langar biðraðir og það að fólk þarf, sérstaklega konur, að verja hluta dagsins til að standa í biðröðum til að reyna að finna mat handa fjölskyldunni og ýmislegt annað mætti nefna í því sambandi. Reyndar fannst okkur nokkuð undarlegt, þeim Evrópukonum sem þarna vorum, að ráðstefnan var haldin í samvinnu við bandaríska stofnun og þarna voru mættar bandarískar konur sem okkur fannst sumum hverjum að hefðu ekki eins mikið fram að færa og evrópskar. T.d. hafa Norðurlöndin auðvitað af miklu meiri reynslu að miðla en Bandaríkin þegar jafnréttissókn eða frelsissókn kvenna er annars vegar. En sem betur fer eru nú bandarískar konur að sækja í sig veðrið eins og kom fram í síðustu kosningum í Bandaríkjunum.
    Að lokum, virðulegi forseti, vil ég ítreka að mér hefur þótt þetta starf vera afar gefandi og merkilegt. Ég held að það sé mjög nauðsynlegt að við Íslendingar tökum þátt í þessu starfi og að við reynum að vera eins virk og við getum. En þær þröngu fjárveitingar sem við höfum búið við setja okkur auðvitað skorður. Ekki síst það að það er mjög mikið starf sem er unnið í Evrópuráðinu og maður getur eiginlega ekki skilið annað en að þeir þingmenn sem þar eru og eru hvað virkastir geti tæplega gert mikið annað en að sinna þessum störfum. Þeir eyða greinilega miklum tíma í Evrópuráðið en við eigum þess auðvitað ekki kost hér á okkar fámenna þingi. Við þurfum að sinna okkar starfi heima fyrir. En ekki þar fyrir þá tel ég að þetta sé afar lærdómsríkt og fáum sé eins nauðsynlegt og okkur Íslendingum hér úti í miðju Atlantshafi að fylgjast með stefnum og straumum að ekki sé nú talað um að við tökum þátt í að standa vörð um mannréttindi og lýðræði.