Evrópuráðsþingið

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 15:02:54 (5978)

     Guðmundur Bjarnason :
    Hæstv. forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu en vil aðeins þakka frsm. þessarar skýrslu, hv. þm. Birni Bjarnasyni fyrir hans framsögu fyrir málinu og hans vinnu við að útbúa skýrsluna og svo ritara nefndarinnar vegna þess að þau hafa borið hitann og þungann af því að koma þessu í það form sem það liggur hér fyrir hv. þingi fyrst og fremst til upplýsingagjafar og til umræðu eftir atvikum eftir því sem hv. þm. vilja og sjá ástæðu til. Þá vil ég einnig nota tækifærið og þakka öllum samstarfsmönnum mínum í Íslandsdeild Evrópuráðsins fyrir ágætt samstarf. Ég vil taka undir með hv. seinasta ræðumanni að þveröfugt við það sem kom hér fram í umræðum um 3. dagskrármálið, skýrslu þingmannanefndar Fríverslunarsamtaka Evrópu, erum við alveg sammála um það og ég býst við að við séum það öll í þessari Íslandsdeild að þetta sé æðimikilvægt starf og fróðlegt. Og það sé þar að auki í bland dálítið skemmtilegt að fást við þetta og eiga aðild að því að fylgjast með þeirri umræðu sem nú fer fram í Evrópu um hin ýmsu mál. Ég held líka að það sé mjög mikilvægt fyrir okkur að gefa þessu starfi í Evrópuráðinu aukið vægi miðað við það sem er að gerast og þá þróun sem er að gerast í Evrópu og þær breytingar sem kunna að verða á samstarfi Norðurlandaþjóðanna í framhaldi af þeim breytingum. Ég hygg að það geti aukið vægi starfs okkar í Evrópuráðinu og mikilvægi þess að við tökum fullan þátt í því starfi eins og við treystum okkur til á hverjum tíma.
    Þeir sem nú skipa Íslandsdeildina eru allt saman nýir þingmenn utan einn, hv. þm. Ragnar Arnalds, sem hafði setið í Íslandsdeildinni áður. Við hin erum ný í þessu starfi. Það hefur auðvitað tekið nokkurn tíma að setja sig inn í það, kynna sér hvernig þing af þessu tagi vinna og virka. Mér hefur þótt það fróðlegt fyrir mína parta.
    Eins og fram kemur í skýrslunni þá hefur kannski meginumræðan einkennst af breytingum og framvindu stjórnmála í Mið- og Austur-Evrópu eins og segir hér í upphafi skýrslunnar. Það er vissulega rétt. Það hefur verið mjög áberandi og þá auðvitað líka umræðan um það hvernig þátttökuþjóðirnar í Evrópuráðinu og þá Vestur-Evrópuþjóðirnar geta aðstoðað við þær umfangsmiklu skipulagsbreytingar, efnahagsbreytingar og þá miklu þjóðlífs- eða þjóðfélagsbyltingu sem í raun á sér stað í Mið- og Austur-Evrópu.
    Ég á sæti í tveimur nefndum sem hafa fjallað nokkuð mikið um málin á því svæði, þ.e. annars vegar efnahagsnefnd Evrópuráðsins og hins vegar nefnd sem fjallar um umhverfis-, skipulags- og sveitarstjórnarmál. Báðar þessar nefndir hafa, eins og menn geta kannski ímyndað sér, æðimikið fjallað um málin og ástandið á þessu svæði og þróunina sem þar á sér stað. Við höfum reynt að taka þátt í þessu nefndarstarfi eftir því sem fjárhagur Íslandsdeildarinnar hefur leyft. Þó svo það hafi reyndar betur tekist að halda sig innan fjárlagaramma á síðasta ári þá gerðist það þó auðvitað með því að við reyndum að halda verulega í við þann kostnað sem því er að sjálfsögðu samfara að taka eins mikinn þátt í þessu starfi, og þá einkum nefndastarfi, og við hefðum e.t.v. viljað og ég tel æskilegt. Mig langar aðeins í örstuttu máli að gera frekari grein fyrir því. Ég hef gert samstarfsmönnum mínum í Íslandsdeildinni grein fyrir því og ef við ætlum að sitja fundi þannig að við getum fylgst nægjanlega vel með umræðunni og tekið þátt í undirbúningi mála fyrir þingin áður en mál koma til umræðu á þinginu sjálfu þá þurfum við auðvitað að geta sótt nefndafundina nokkuð reglulega.
    Nú er það svo að sumar þessar nefndir, eins og t.d. þær tvær sem ég nefndi og á sæti í, halda kannski 5--7 fundi á ári utan þinganna en við erum með það í okkar starfsreglum að sækja ekki nema þrjá fundi eða hafa það svona sem meginreglu. Það þýðir að við getum kannski ekki sótt nema einn eða tvo fundi í hverri nefnd utan þeirra nefndarfunda sem haldnir eru samhliða þinghaldinu. Þetta finnst mér í raun vera of lítið til að við getum fylgt eftir málum, lagt á þau þær áherslur sem við teljum að sé nauðsynlegt að koma á framfæri og vildum koma á framfæri fyrir okkar hönd. Einnig ef við viljum eins og ég nefndi áðan og kom fram einnig í máli framsögumanns fyrir skýrslunni, hv. þm. Björns Bjarnasonar, leggja áherslu á það að okkar sjónarmið komi fram og að við getum hugsanlega boðið okkur fram sem meiri og virkari þátttakendur í þessu starfi og e.t.v. tekið að okkur fleiri verkefni, bæði með því að halda fundi hér heima á Íslandi eða bjóða fulltrúum nefnda til funda hér heima og annað slíkt. Nú er ég ekki þar með að segja að við höfum ekki tekið virkan þátt í þessu. Eins og fram kom í máli frsm. og skýrslunni sjálfri þá

hafa þingmenn sem sæti eiga í Íslandsdeildinni tekið virkan þátt í starfinu. Hv. þm. Lára Margrét Ragnarsdóttir var framsögumaður fyrir skýrslu og hv. þm. Sigbjörn Gunnarsson hefur verið formaður undirnefndar. Þetta vildi ég láta koma fram hér, hæstv. forseti, sem mitt sjónarmið og örstutt innlegg í þessa umræðu um skýrsluna án þess að fara um hana mjög mörgum orðum. Ég gæti auðvitað sagt líka ofurlítið frá því nefndarstarfi sem ég hef sótt og þeim upplýsingum sem mér finnst að hafi þar komið fram en tímans vegna geri ég það ekki. Það eru til um það skýrslur af þeim fundum ef hv. þm. hefðu áhuga á að kynna sér það nánar, þau viðhorf sem þar hafa komið fram og verið helst til umræðu. En ég nefni t.d. mjög fróðlega fundi sem ég sótti á vegum efnahagsnefndarinnar bæði í Tallin í mars í fyrra og eins annan fund í Berlín og í Austur-Þýskalandi, í Rostock sem fór fram í september á sl. ári. Þar kom einmitt mjög til umræðu ástandið í þessum löndum og þau gífurlega stóru, miklu og erfiðu viðfangsefni sem þessar þjóðir eru að fást við á kannski má segja öllum sviðum, en þó líklega fyrst og fremst á sviði efnahagsmála sem hlýtur auðvitað að verða undirstaðan fyrir því að hægt sé að þróa þarna áfram lýðræðislegt þjóðfélag.
    Að lokum vil ég aðeins segja það, hæstv. forseti, að þó að ég hafi verið að kvarta yfir því að við hefðum ekki rýmri fjárráð og gætum ekki tekið virkari þátt í þessu starfi, þá tel ég þó að það víkki sjóndeildarhringinn mikið, bæði hjá okkur sem þátttakendum í þessu og vonandi með því að gera samstarfsmönnum okkar á hv. Alþingi grein fyrir því sem við erum að fást við, gefi okkur, a.m.k. mér, betri innsýn í hin ýmsu mál og viðfangsefni og viðhorf í þeim löndum sem við höfum ferðast til og ástandið í þeim löndum sem verið er að fjalla um á hverjum tíma og auðvitað þeim málaflokkum sem verið er að fjalla um hverju sinni. Síðast en ekki síst er auðvitað í þessu fólgin mikil kynning á mönnum og málefnum með því að eiga samstarf við þingmenn annarra þjóða. Það er kannski ekki síst mikilvægt í þessu starfi.