Evrópuráðsþingið

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 15:53:36 (5984)

     Lára Margrét Ragnarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að svara hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni örlítið og gefa upplýsingar um það sem verið er að ræða í Evrópuráðinu um kjarnorkumál. Ég á sæti í þremur nefndum. Þar af hafa tvær, vísinda- og tækninefnd og nefnd um svokölluð félags-, heilbrigðis- og fjölskyldumál, fjallað um kjarnorkumál. Vísindanefndin fjallar um öryggi kjarnorkustöðva og kjarnorkumála almennt og var skilað skýrslu um þau mál á síðasta þingi þar sem var kveðið á um aukna áherslu á öryggismál í þessu sambandi og þingmaðurinn getur fengið afrit af þeirri skýrslu hjá Íslandsdeildinni. Hins vegar var það sú skýrsla sem ég var flm. fyrir og vann að sem snerist um kjarnorkuslysið í Tsjérnóbíl og heilsufarslegar afleiðingar af því slysi. Þetta var upphaflega beiðni um að kanna heilbrigðisástand barna og verkamanna sem urðu fyrir áföllum vegna þessa slyss, en skýrslan heitir í rauninni ,,Heilsufarslegar afleiðingar af Tsjérnóbíl-slysinu og þörfin fyrir auknar alþjóðlegar aðgerðir,`` þannig að í sjálfu sér segir það svolítið um niðurstöður skýrslunnar. En vissulega þarf ástand íbúa á þessu svæði íhugunar við og það hefur alls ekki verið nægilega rannsakað. Það var gerð forrannsókn á rúmlega 800 þús. íbúum á þessu svæði sem bjuggu þó ekki næst staðnum þegar slysið varð. Það var ekki gerð nein rannsókn hvorki á verkamönnum, börnum né öðrum þeim sem bjuggu næst þessu svæði. Skýrslan fjallaði m.a. um það að hvetja til þess að prógramm sem samþykkt var að setja í gang fyrir tveimur árum síðan, þar sem 8 sjúkrahús, dreift um þetta svæði sem varð fyrir geislun allt frá Tyrklandi og norður í Hvíta-Rússland, áttu að safna saman upplýsingum um ástand fólks, væri sett í gang og fjármagnað því að enn hefur ekki fengist nema brot af því fjármagni sem lofað var til þessa verkefnis. Ég vil gjarnan upplýsa það fyrir hv. þm. að ég lýsti því yfir að ég mundi fylgja þessu máli fast eftir á næstu þingum.
    Ég vil líka lýsa því yfir að ég tel að kjarnorkumál komi okkur svo sannarlega við, hvort sem slysin gerast í Tsjérnóbíl eða einhvers staðar nær okkur hér á Íslandi, þetta kemur okkur öllum við hvar sem við búum á hnettinum.