Vestnorræna þingmannaráðið 1992

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 16:13:47 (5987)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tækifæri og láta hér fáein orð falla um vestnorrænt samstarf og þessa skýrslu eða út frá þessari skýrslu, ekki vegna þess að ég þurfi neinu við framsögu hv. 6. þm. Vestf. að bæta, heldur fremur atriði sem ég kýs að nota þetta tækifæri til að koma aðeins inn á. Þá vil ég í fyrsta lagi nefna starfsemi Vestnorræna þingmannaráðsins almennt séð. Það er lítill vafi á því í mínum huga sem hef fylgst allvel með starfsemi þess frá upphafi eða frá stofnun að sl. ár, árið 1992, var það atburðaríkasta í starfsemi ráðsins frá upphafi vega og kemur þar auðvitað fyrst og fremst til að það var tekin sú ákvörðun og studd síðan af þjóðþingum eða ríkisstjórnum vestnorrænu landanna að gera árið að vestnorrænu ári og halda af því tilefni ráðstefnur og vera með fleiri atriði á dagskrá sem tengdust árinu sérstaklega. Ég tel að þetta hafi í raun allt heppnast vonum framar miðað við það að tiltölulega litlir fjármunir og mannafli er nú settur í það beinlínis að sinna þessu samstarfi, þá hafi þetta tekist vonum framar að halda þetta ár og standa fyrir þeim atburðum sem þar voru undir án þess að til væri kostað miklu fé. En það var í raun og veru ekki, enda byggist starfið heilmikið á fórnfúsu sjálfboðaliðastarfi eða lítt launuðu starfi fjölmargra aðila sem lögðu því stuðning.
    Í öðru lagi vil ég nefna, eins og reyndar fram í ræðu framsögumanns, að á sl. ári kom það í hlut Íslendinga að halda ársfund ráðsins og var hann haldinn á Akureyri í júnímánuði. Hann tókst í alla staði vel og þó dagskrá hans væri að mestu leyti með hefðbundnu sniði og viðfangsefnin mörg hver gamalkunn, þá eru þar líka nýir hlutir á ferð. Til að mynda vil ég nefna þá ályktun sem samþykkt var um það að gefa gaum að sameiginlegri sögu vestnorrænu þjóðanna á sviði fiskveiða og sjávarútvegs, afla upplýsinga um þá þætti og skrá þessa samskiptasögu. Enginn vafi er á að nauðsyn er að gera það fyrr en síðar áður en ýmsar dýrmætar upplýsingar glatast og þeir menn sem áttu hlut að máli á fyrri hluta þessarar aldar hverfa yfir móðuna miklu. Þarna er á ferðinni tiltekinn sameiginlegur menningararfur þessara þriggja þjóða sem ég held að sé tilvalið verkefni að skrá og safna saman og halda til haga. Það má kannski segja að það standi Færeyingum næst að stýra slíku starfi eða standa fyrir því þar sem þeir eiga mestan sameiginlegan hlutinn að máli, sóttu mikið sjó og unnu jafnvel í sjávarútvegi grannlandanna, Íslands og Grænlands meira heldur en þetta væri gagnkvæmt. En óhjákvæmilega hlýtur að koma til kasta Íslendinga að leggja þarna eitthvað af mörkum í formi fjármuna og stuðnings og upplýsinga. Ég tel að einmitt verkefni af þessu tagi, þar sem spurningin snýst ekki fyrst og fremst um fjárútlát heldur vilja og það að beina þá þeim kröftum sem fyrir eru í hópi fræðimanna og áhugamanna á þessu sviði í þennan farveg, sé kjörið verkefni til samstarf.
    Margt fleira mætti nefna sem þarna kom fram á ársfundinum en ég læt þetta tiltekna atriði nægja. Ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins frá fundi þess á sl. ári eru nú til umfjöllunar í hv. utanrmn. og fá þar vonandi góða afgreiðslu bráðlega.
    Eins og oft áður voru samgöngur milli landanna nokkuð til umræðu á síðasta ári, bæði á ársfundinum og eins starfaði Íslandsdeildin nokkuð að þeim málum, fór yfir þau. Það gengur því miður hægt að hrinda í framkvæmd ýmsum þeim áformum og væntingum sem menn hafa haft um bætt samskipti og bættar samgöngur milli landanna þótt það sé sífellt á dagskrá. Þeir erfiðleikar og sú endurskipulagning þessara mála sem yfir hefur staðið eða er í gangi nánast í öllum löndunum þremur ætti þó að opna ýmsa möguleika til þess á næstu missirum að þessi sjónarmið, að mynda betri innbyrðis tengsl og tengsl út á við frá hinu vestnorræna svæði, yrðu höfð í huga þegar ákvarðanir eru teknar af hálfu samgönguyfirvalda og einnig

af hálfu rekstraraðila.
    Í fjórða lagi vil ég nefna það almenna ástand í efnahags- og atvinnumálum sem ríkir nú í vestnorrænu löndunum og er á margan hátt alvarlegra en við höfum horfst í augu við um árabil eða jafnvel um áratuga skeið. Það á við um þau öll, einnig Ísland þar sem eins og kunnugt er atvinnuleysi hefur farið mjög vaxandi og mikið umtal er nú um erfiðeika. Þó eru það smámunir borið saman við þær hremmingar sem hafa verið að ganga yfir, sérstaklega frændur okkar Færeyinga, og segja má að Grænlendingar hafi að nokkru leyti glímt við um árabil. Ég held að það verði ekki hjá því komist að þessar aðstæður í löndunum hljóti að setja mark sitt á þetta samstarf eins og í raun og veru öll önnur samskipti landanna út á við. Það þarf ekki endilega að hafa neikvæði áhrif í þeirri merkingu séð að það dragi úr gildi samstarfsins eða dragi úr umfangi þess. Þvert á móti má auðveldlega sjá það fyrir sér að menn öðlist meiri skilning á og viðurkenni betur en fyrr gildi þess og þörf að menn standi saman og styðji hver annan í lífsbaráttunni hér í norðvestanverðu Atlantshafinu þegar efnahags- og atvinnuástandið er eins og raun ber vitni, erfiðleikar ganga þar yfir. Það hlýtur til að mynda að koma á dagskrá með auknum þunga sem oft og mikið hefur verið rætt í þessu samstarfi og þessum samskiptum, bæði í Vestnorræna þingmannaráðinu sem og í samskiptum ríkisstjórna, að reyna að auka innbyrðis viðskipti og efla efnahagsleg samskipti af ýmsum toga á þessu svæði, til að mynda greiða fyrir því að iðnaður og framleiðsla sem stundaður er í þessum löndum fái sem stærsta markaðshlutdeild í hinum vestnorrænu löndunum og þannig geti efnahags- eða viðskiptajöfnuður þessa svæðis út á við orðið hagstæðari í gegnum aukin innbyrðis viðskipti.
    Ég get nefnt í því sambandi ferðaþjónustuna. Mér finnst að í ljósi þess að vestnorrænu löndin eiga í skipulegu samstarfi á því sviði, að ferðamálaráð landanna eru með formlegt samstarf sín í milli, halda sameiginlega ferðakaupstefnu og talsvert hefur miðað í þá átt á síðustu 5--10 árum að gera vestnorrænu löndin að einu sameiginlegu markaðssvæði gagnvart umheiminum á sviði ferðaþjónustu, þá eigi tvímælalaust að taka þar upp stóraukna áherslu á innansvæðisferðaþjónustu eða beina viðskiptunum í ferðalög innan svæðisins. Rétt eins og við Íslendingar reynum gjarnan að hvetja landann til að ferðast um eigið land þá mundum við í öðru lagi reka þá stefnu á vestnorræna svæðinu að menn beindu ferðalögum sínum innan þess. Slíkt væri auðvelt að gera í gegnum einfalda stefnumörkun og einhverja fjármuni sem í það yrðu lagðir af hálfu hins skipulagða ferðamálasamstarfs sem í gangi er.
    Ég vil þá í fimmta lagi lítillega nefna þá ferð sem farin var af þingmönnum frá vestnorrænu löndunum þremur auk þingmanna frá sjávarútvegs- og umhverfisnefnd Noregs til hinna Norðurlandanna, þ.e. Danmerkur, Svíþjóðar og Finnlands, á sl. vori til þess að kynna þingmönnum eða þjóðþingum þessara landa, viðkomandi þingnefndum viðhorf okkar til nýtingar auðlinda hafsins og þá m.a. til nýtingar eða veiða á sjávarspendýrum. Ég tel að þessi ferð hafi tekist í alla staði vel og hún ætti að verða okkur hvatning til þess að gera mun meira af slíku tagi, koma okkar sjónarmiðum á framfæri, nota þau stjórnmálalegu sambönd sem við höfum við hin Norðurlöndin og út á við til þess að kynna okkar viðhorf og okkar sjónarmið á þeim vettvangi og út af fyrir sig alls staðar þar sem tækifæri gefast.
    Ég tel að okkur hafi á ýmsan hátt verið mislagðar hendur í því sem hér heima hefur oft verið kallað baráttan við umhverfisverndarsamtök og hópa af ýmsu tagi sem hafa gerst gagnrýnir á eða beinlínis barist gegn ákveðnum þáttum í hefðbundini nýtingu okkar á auðlindum hafsins hér á þessum slóðum. Í stað þess að stimpla þá fyrir fram sem óvini okkar og slíta við þá stjórnmálasambandi ef svo má að orði komast, þá tel ég að við hefðum í gegnum tíðina betur reynt að rækta við þá viss sambönd, nota þann vettvang sem okkur gæfist til þess að eiga við þá skoðanaskipti og útskýra okkar sjónarmið og í trú á skynsemi manneskjunnar ímynda ég mér að með því hefði mátt ná fullt eins miklum og væntanlega meiri árangri en þeim að setja sig fyrir fram í skotgrafastellingar. Til að mynda var það mjög sláandi þegar komið var til Finnlands og á fund með umhverfismálanefnd finnska þingsins, eftir þær framsögur eða þá kynningu á okkar málstað og okkar erindi sem fram fór af hálfu sendinefndarinnar, þá stóð þar upp hver fulltrúinn á fætur öðrum og nánast lýsti því yfir að þar væru á ferðinni sjónarmið og viðhorf sem menn hefðu yfirleitt ekki heyrt minnst á á þeim slóðum. Í raun og veru hefðu allar upplýsingar sem menn hefðu haft, öll mötun sem þar hefði átt sér stað komið frá svokölluðum andstæðingum okkar í þessum efnum og mönnum fannst fróðlegt sem sagt að heyra og fá kynningu á gagnstæðum viðhorfum.
    Ég held að sá málstaður sem við höfum að flytja í þessu efni um skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á lífrænum auðlindum sem þurfa að vera í jafnvægi, taka til allra tegunda jafnt, sé þess eðlis og það góður að hann eigi að vera auðvelt að kynna og rökstyðja. Ég get að vísu sagt að mér finnst margt teikna til breyttra aðstæðna í þessum efnum og það sé nú meiri hljómgrunnur en áður fyrir því að heyra og hlusta á rök og gagnrök í þessum málum heldur en var um tíma þegar segja mátti að rödd veiðimannasamfélaganna væri gersamlega kæfð, drukknaði og heyrðist ekki í öflugri áróðursstöðu og uppgangi þeirra hópa sem fóru fyrir áróðri gegn selveiðum, hvalveiðum o.s.frv. En þá er að fylgja því lagi eftir og það tel ég að menn geti m.a. gert með upplýsingamiðlun af þessu tagi í gegnum þau samskipti og stjórnmálasambönd sem við höfum. Og þar hlýtur samstarf þjóðanna við Atlantshafið sem þarna eiga mestra hagsmuna að gæta, og inn í það koma að sjálfsögðu fleiri en vestnorrænu löndin þrjú, þ.e. einnig þjóðir eins og t.d. Noregur og Kanada, að þurfa að koma til.
    Þá að lokum, hæstv. forseti, um norrænt samstarf í almennu samhengi. Það er að sjálfsögðu nokkuð á dagskrá vestnorrænu landanna hvernig staða þeirra verði í framtíðinni á komandi árum í evrópsku og

norrænu samhengi sem eðlilegt er. Nú síðast á miðsvetrarfundi Vestnorræna þingmannaráðsins í Kaupmannahöfn sl. föstudag var þetta talsvert til umræðu. Eitt af því sem hefur gert alla umræðu um þetta erfiða undanfarin missiri hefur auðvitað verið sú óvissa sem í gangi hefur verið vegna yfirstandandi viðræðna um samninga um Evrópskt efnahagssvæði og/eða inngöngu eintakra Norðurlanda í Evrópubandalagið. Nú horfir e.t.v. til þess að á næsta hálfa ári eða e.t.v. einu til tveim árum skýrist þau mál nokkuð þannig að menn fái að einhverju leyti fast land undir fætur um það hver verði staða til að mynda Íslands og e.t.v. Noregs í því sambandi. Þá mun að sjálfsögðu þurfa að fara fram umræða í ljósi vonandi einhvers framtíðarlandslags í þessum efnum. Hvernig á að styrkja hið vestnorræna samstarf? Hvernig á það að tengjast því sem þá verður, einhverju norrænu samstarfi sem vonandi verður nú til þrátt fyrir Evrópuþróunina? Ég held að það sé útbreidd skoðun, a.m.k. meðal þeirra sem staðið hafa að vestnorræna samstarfinu undanfarin ár að mikilvægi þess hljóti frekar að aukast heldur en hitt í ljósi þróunarinnar eins og hún horfir.
    Eitt að lokum um þetta. Það er að mínu mati lítill vafi á því að hver sem úrslit mála verða í Noregi í framhaldi af umsókn þeirra um aðild að Evrópubandalaginu og miklum deilum í því landi um það mál, þá mun Noregur, a.m.k. ákveðin svæði í Noregi, á næstu árum leita eftir aukinni þátttöku í samstarfi við Vestur-Norðurlönd. Það er þegar fyrir hendi mikill áhugi, t.d. í Vestur-Noregi, á því að tengjast með einhverjum hætti mun formlegar og fastar en hingað til hefur verið veiðimanna- og fiskveiðiþjóðfélögunum við vestanvert Atlantshafið. Og jafnvel útvíkka það samstarf enn frekar þannig að Kanadamenn og e.t.v. fleiri þjóðir sem liggja nyrst á hnettinum gætu tengst saman í einhverju slíku skipulögðu samstarfi. Ég gæti því vel séð það fyrir mér að hugtök eins og ,,arktiskt`` eða vestnorrænt samstarf í víðum skilningi þar sem Noregur allur eða a.m.k. svæði þar kæmu inn í myndina yrðu talsvert á dagskrá næstu árin í fram haldi af þeirri þróun í tengslum Evrópuríkja sem við öll þekkjum að er í gangi. Ég held þess vegna að það séu verkefni framundan í þessu samstarfi sem þurfi að sinna og þar muni engin kyrrstaða ríkja, hvorki hvað formið né innihaldið snertir á komandi árum og það er auðvitað vel því að þannig er samstarfið bráðlifandi og sofnar ekki einhverjum þyrnirósarsvefni sem einhver vingjarnlegur ferðaklúbbur þar sem menn hittist einu sinni á ári. Ég vildi mjög ógjarnan sjá þetta samstarf daga þannig uppi, jafnmiklar vonir og eru við það bundnar.