Fræðslustörf um gigtsjúkdóma

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 17:31:47 (5993)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil hér í örfáum orðum lýsa yfir stuðningi mínum við þessa tillögu. Hér er að mínum dómi mjög gott mál á ferðinni en svo sem kunnugt er, eru gigtsjúkdómar mjög útbreiddir hér á landi og að því er mér skilst, þá er meira um það hér en annars staðar og ræðst það líklega af miklu vinnuálagi og líklega einnig þeirri köldu veðráttu sem við búum við. En jafnframt er þetta sjúkdómur eða sjúkdómar sem hægt er að gera mikið til að fyrirbyggja og ég vil einmitt taka undir það sjónarmið að hér er um það að ræða að finna leiðir til að fyrirbyggja sjúkdóma af þessu tagi.
    Ég vil ekki síst minna á það að gigtsjúkdómar eru mjög algengir meðal kvenna, ekki síst vöðvabólgur af ýmsu tagi. Við þekkjum dæmi þess að fyrirtæki hafa gripið til sinna ráða og boðið upp á líkamsrækt. Þó ekki sé það nú í miklum mæli, þá verður það jafnan til þess að bæta heilsu starfsmanna og sýnir þá að það þarf ekki mikið til til þess að draga úr þessum sjúkdómi sem kostar þjóðfélagið miklar upphæðir á ári hverju. En auðvitað þarf að byrja á því að rannsaka þennan sjúkdóm eða þessa sjúkdóma og efla þær rannsóknir til þess að geta betur áttað sig á því hvar þarf að grípa inn í. Þess vegna vona ég að þessi tillaga nái fram að ganga og að heilbrrh. veiti þessu máli brautargengi á sínum vettvangi því að ég er alveg viss um að hann, sem gengur nú hart fram í sparnaðaráformum, mun auðvitað glaður taka við þessari tillögu sem mun leiða af sér verulegan sparnað í heilbrigiskerfinu ef úr verður að efla rannsóknir á þessu sviði og síðan að grípa til aðgerða í kjölfar þess.