Sóttvarnalög

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 17:45:52 (5997)


     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það virðist nú vera ljóst að sóttvarnir hljóta að flokkast með mjúkum málum miðað við fjölda þeirra hv. þm. sem hér eru og kyn að frátöldum hæstv. heilbrrh. en handboltinn hins vegar flokkast þá með hörðum, karlmannlegum málum.
    Frv. sama efnis og reyndar nánast sama frv. og hér er til umræðu var lagt fram á 113. löggjafarþingi. Það frv. var undirbúið og samið af farsóttanefnd og náði nefndin að prófessor Margréti Guðnadóttur undanskilinni samstöðu um málið. Þessa var getið sérstaklega í greinargerð með því frv. Aftur í greinargerð með frv. til sóttvarnalaga sem lagt var fram á 115. löggjafarþingi og enn er þetta fullyrt í greinargerð þessa frv. á bls. 8, að farsóttanefnd hafi náð samstöðu um frv. að Margréti Guðnadóttur undanskilinni og hæstv. ráðherra gat þess hér í ræðu sinni áðan.
    Ástæða þess að ég nefni þetta hér í upphafi umræðu er sú að í mars 1991 sendi Margrét Guðnadóttir að beiðni heilbr.- og trn. inn umsögn um frv. sem þá var til umræðu. Í umsögninni mótmælir hún þessari fullyrðingu sem fram kom þá og er enn í grg. með frv. Margrét segir á fyrstu síðu umsagnar sinnar, með leyfi forseta:
    ,,Athugasemdir sem fylgja frv. get ég ekki skilið á annan veg en þann að farsóttanefnd hafi fengð frá Alþingi eldri gerð frv. ásamt ýmsum umsögnum og endurskoðað frv. og gert á því sínar breytingar.`` Þá stendur í greinargerðinni: ,,Farsóttanefnd að Margréti Guðnadóttur undanskilinni er sammála frv. í þeim búningi sem það er nú lagt fram á 113. löggjafarþingi. Þetta þykja sömu Margréti þó nokkur tíðindi. Hún hefur nefnilega aldrei áður séð þetta frv. í þessum búningi og er fyrst að berja það augum núna að beiðni skrifstofu Alþingis.`` Þetta er skrifað í mars 1991. Jafnframt segir Margrét í umsögn sinni: ,,Hafi farsóttanefnd haldið fundi um endurskoðun eldra frv. var ég ekki boðuð á þá.`` Og síðar í umsögninni segir hún þetta, með leyfi forseta: ,,Þar sem ég var ekki látin vita um þessa endurskoðun frv. í farsóttanefnd tel ég að enginn í nefndinni geti fullyrt hvort ég er sammála eða ósammála öðrum nefndarmönnum. Nefndarálit sem ég hef aldrei séð, hvað þá unnið, get ég auðvitað ekki undirritað.``
    Þrátt fyrir að þessi yfirlýsing prófessors Margrétar Guðnadóttur liggi fyrir síðan í mars 1991, þá má enn lesa í greinargerð með þessu frv. að öll farsóttanefndin hafi náð samstöðu að Margréti Guðnadóttur undanskilinni. Mér finnst því full ástæða til þess að láta athugasemdir hennar við þessa fullyrðingu koma fram við þessa umræðu.
    Í I. kafla frv. er skilgreining á hlutverki laganna. Í fljótu bragði virðist ekkert við þessa grein að athuga. Þó velti ég því fyrir mér að ef skoðaður er listi yfir þau lög sem fella á úr gildi ef frv. verður samþykkt hvort skilgreining laganna er ekki of þröng til þess að geta að fullu yfirtekið hlutverk þeirra laga.
    Í II. kafla frv., 4. gr., er kveðið á um yfirstjórn sóttvarna en þar segir að landlæknir beri ábyrgð á framkvæmd sóttvarna og ráða eigi sérstakan sóttvarnalækni með verksvið samkvæmt 5. gr. Þá skal sóttvarnalæknir vera ritari sóttvarnaráðs. Mér hefði fundist að verkefni landlæknis væru ærin nú þegar og vildi ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort ekki væri eðlilegra að ráðinn væri sérstakur yfirmaður sóttvarna sem færi alfarið með þetta verksvið. Slíkur yfirmaður og slíkur yfirlæknir sóttvarna væri ráðinn með sérstöku tilliti til þekkingar á sóttvörnum og ónæmisaðgerðum og bæri fulla faglega ábyrgð á framkvæmd sóttvarna í landinu undir yfirstjórn heilbrrh. Sóttvarnalæknir yrði þá jafnframt formaður sóttvarnaráðs. Þegar ráðið er í embætti landlæknis er erfitt að binda veitingu þess embættis þeim skilyrðum að sá eða sú sem stöðuna hlýtur búi yfir þeirri sérþekkingu sem nauðsynleg er þeim sem fer með yfirstjórn sóttvarna í landinu. Samkvæmt 5. gr. frv. er verksvið sóttvarnalæknis mjög viðamikið og heyrst hafa þær raddir að ýmsir þættir þess séu svo sérhæfðir að varla sé á færi eins manns að leysa þá alla. Ef vel á að takast þurfi að koma á virku samstarfi nokkurra aðila.
    Í 6. gr. er kveðið á um skipan sóttvarnaráðs sem ætlað er að móta stefnu í málum sóttvarna og vera heilbrigðisyfirvöldum til ráðgjafar um aðgerðir. Að sjálfsögðu er af hinu góða að slíkt ráð verði sett

á laggirnar. Þó hefði ég viljað sjá þar fulltrúa með sérþekkingu á ónæmisaðgerðum barna því að ráðið hlýtur að fjalla um þær ónæmisaðgerðir, stefnu og framkvæmd þeirra. Eins og ég sagði áðan þykir mér eðlilegt að sóttvarnalæknir veiti ráðinu formennsku. Heilbrrh. skipar samkvæmt frv. sóttvarnaráð og þar eiga að sitja sjö menn. Kveðið er á um frá hvaða starfsstéttum fulltrúarnir koma en þó virðist vera að ekki sé um tilnefningu starfsstéttanna sjálfra að ræða sem mér finnst þó eðlilegra.
    Ég vil spyrja hæstv. ráðherra aðeins um 16. gr. frv. sem kveður á um starfrækslu göngudeilda og einangrun á sjúkrahúsum. Hvernig er einangrunaraðstaða á sjúkrahúsum hugsuð? Er þar átt við að aðstaðan verði einungis á sjúkrahúsum í Reykjavík, er um að ræða öll sjúkrahús á landinu eða nokkur þeirra? Í umsögn fjmrn. kemur hvorki þetta fram né heldur hver heildarkostnaðurinn verður. Það sama gildir um hvernig hlutverk göngudeildanna er hugsað. Er þar verið að tala um göngudeildir í tengslum við sjúkrahús eða heilsugæslustöðvar í Reykjavík eða víðar, hversu margar þá og hversu sérhæfðar?
    Í 3. mgr. 16. gr. segir að ráðherra geti falið ákveðnum rannsóknastofum að ábyrgjast greiningu örvera eða sníkjudýra úr sýnum frá sjúklingum með smitsjúkdóma og fylgjast með ónæmisástandi einstaklinga gegn þýðingarmiklum smitnæmum sjúkdómum. Ég vil af þessu tilefni beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hver sé aðstaða á þeim rannsóknastofnunum sem við höfum nú þegar. Erum við sjálfum okkur nóg í þessum efnum eða er það þannig, sem ég tel líklegra, að efla þurfi aðstöðu til rannsókna langt umfram það sem er í dag til að geta tekið við þessu hlutverki?
    Í upphafi nefndi ég efasemdir mínar um það að skilgreiningarkafli laganna væri nógu víðtækur til að geta að fullu tekið þau lög sem skv. 20. gr. laganna eiga að falla úr gildi. Lög um eyðingu á rottum, nr. 27/1945, eiga að falla úr gildi og hef ég velt því fyrir mér undir hvaða lið efni þeirra gæti fallið, þ.e. þar sem fyrst og fremst er verið að fjalla um eyðingu á rottum. Í 2. gr. þeirra laga segir:
    ,,Eyðing á rottum skal fara fram tvisvar á ári, haust og vor, í öllum sveitarfélögum á landinu, þar sem þeirra verður vart. Bæjar- og sveitarstjórnir láta framkvæma eyðinguna á kostnað bæjar- eða sveitarsjóðs.`` Í 3. gr. segir: ,,Rottum skal eyða með eitrun eða á annan hátt . . .  `` Ég sé ekki alveg hvar í skilgreiningarkaflanum við gætum sett lög um eyðingu á rottum nema ef væri við 3. lið þar sem opinberar sóttvarnir eru þær ráðstafanir sem skal beita vegna hættulegra smitsjúkdóma þegar smitaður einstaklingar skapar hættu á útbreiðslu smits með framferði sínu.     Lög um hundahald og varnir gegn sullaveiki nr. 7/1953 falla úr gildi. Þar sem segir í 2. gr.:
    ,,Sérhver skattgreiðandi skal á skattframtali geragrein fyrir þeim hundum, sem hann eða aðrir, er hann hefur á framfæri sínu, eiga um áramót.
    Hreppstjóri í hverjum hreppi, en skattstjóri eða skattanefnd í hverjum kaupstað, skulu gera skrá yfir hunda þá, sem í sveitarfélaginu eru, og afhenda hana sýslumanni eða bæjarfógeta (í Reyjavík tollstjóra) í aprílmánuði ár hvert.``
    Í 4. gr. laganna segir svo: ,,Skyldur er hver sá, er lætur slátra skepnum, er sullur finnst í, að grafa þegar í stað það slátur, sem sollið er, svo og hausa af höfuðsóttarkindum, það djúpt í jörð niður, að hundar geti eigi náð því, eða brenna það.``
    Eftir að hafa skoðað þessi lög er ég ekki sannfærð um að skilgreiningarkaflinn nái að yfirtaka öll þau lög sem eiga að falla úr gildi og velti fyrir mér hvort ekki þurfi að setja önnur lög eins og um hundahald í þéttbýli eða eitthvað að koma í staðinn. Ef ég hef tekið rétt eftir kom fram í ræðu hæstv. ráðherra að ýmis sérgreind læknisembætti muni leggjast niður ef þetta frv. verður samþykkt sem ég vona að verði eftir umfjöllun nefndar. Þó að ég sé ekki með ákveðnar spurningar þá vildi ég gjarnan fá að vita hvaða embætti það eru.