Sóttvarnalög

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 17:55:23 (5998)

     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um þetta frv. til sóttvarnalaga. Ég tel það mjög til bóta og vera nútímalegra en gömlu sóttvarnalögin sem voru eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan sjálfkrafa fallin úr gildi. Ég vona að frv. verði að lögum á þessu þingi.
    Nýir og nýir sjúkdómar hrjá mannkynið og þegar einn sjúkdómur hverfur kemur annar í staðinn. Þess vegna verða lög sem þessi sífellt að vera í endurskoðun. Það hvað við erum komin mitt í alheiminn með breyttum samgöngum gerir það einnig að verkum að það eru allt aðrar aðstæður en áður þegar þessi gömlu lög voru sett.
    Það má kannski deila um það, og ég býst nú við að við tökumst nú á um það í hv. heilbrn., hvort sérstakan lækni þurfi inn í landlæknisembættið til þess að halda utan um þessi mál. Ég held að við ættum að skoða það. Þetta er dýrt og við þurfum að skoða hvort þetta sé nauðsynlegt. Ég skildi hv. síðasta ræðumann þannig að henni fannst ýmislegt skorta í þessum lögum sem var í gömlu lögunum, t.d. í sambandi við sullaveiki sem gæti komið upp í sláturhúsi. Þar er nú sú breyting á að ég held að ávallt sé dýralæknir við slátrun í sláturhúsum sem sér um þetta atriði ef upp kemur. Í sambandi við hundahald þá eru hundaeftirlitsmenn í öllum stærri bæjarfélögum og í sambandi við rotturnar þá eru komnir meindýraeyðar líka í stærri byggðarlög þannig að ég held að þetta sé nokkurn veginn tryggt. En eins og ég sagði áðan finnst mér meginatriði frv. til bóta en mér finnst alveg sjálfsagt að heilbr.- og trn. kalli til dr. Margréti Guðnadóttur sem ég fullyrði að hafi mestu þekkingu á þessum málum hér á landi og við munum taka fullt tillit til þess sem hún hefur þar fram að færa. Meira segi ég ekki um þetta frv. í bili.