Sóttvarnalög

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 18:03:44 (6000)

     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki frekar en hv. síðasti ræðumaður að endurtaka þá umræðu sem fór fram fyrir um það bil ári í þinginu þar sem ýmis álitamál komu til umræðu, en það er auðvitað nauðsynlegt að það sé ekki árviss viðburður á Alþingi að menn endurtaki sömu ræðurnar um sama málið. Það er hlutverk heilbr.- og trn. að afgreiða mál eins og þetta, m.a. með því að taka tillit til þeirra ábendinga og umræðna sem koma fram við 1. umr. málsins. Það er auðvitað ekki verjandi fyrir Alþingi að endurtaka ár eftir ár sömu umræðurnar um sama málið og nefndin sem á að fjalla um málið afgreiði það síðan ekki frá sér, annaðhvort þannig að gengið sé út frá því að það sé ekki gert ráð fyrir því að umrædd lagabreyting eigi sér stað eða þá lagabreytingin eigi sér stað og þá að teknu tilliti til þeirra ábendinga og sjónarmiða sem fram hafa komið. Ég ætla því aðeins að takmarka ræðutíma minn hér við að reyna að svara þeim spurningum sem hefur verið sérstaklega til mín beint út af þessu máli en endurtaka ekki umræðurnar frá því fyrir einu ári.
    Í fyrsta lagi var spurt hvernig stæði á því í grg. frv. stæði að Margrét Guðnadóttir væri ekki aðili að þeirri niðurstöðu sem orðið hefði í farsóttanefnd. Um það veit ég ekki. Um það verður að sjálfsögðu að spyrja farsóttanefndina. Hún skilar ráðuneytinu niðurstöðu sinni með þessum ummælum að allir nefndarmenn eru sammála en Margrét Guðnadóttir sé ekki í þeim hópi. Það er því málefni farsóttanefndar hvernig unnið hefur verið að málinu á vettvangi hennar en heilbr.- og trmrn. verður að sjálfsögðu að taka gilda niðurstöðu sem nefndin sendir ráðuneytinu.
    Þá var spurt hvort ekki væri ástæða til þess að skipa sérstakan yfirlækni sóttvarna sem væri þá í heilbrrn. fremur en slíkt viðfangsefni væri á vegum landlæknis. Það tel ég ekki vera. Landlæknir er sérfræðingur í embættislækningum. Hann er ekki sérfræðingur í öllum þeim sérfræðigreinum innan læknisfræðinnar sem kunna að koma til hans kasta. Þess vegna er það sem landlæknir hefur sérfræðinga sér til ráðuneytis. Ef hann þarf að fást við mál er t.d. varða geðlækningar þá hefur hann ráðunauta sem hann kallar á sér til trausts og halds sem eru sérfræðingar í þeirri grein. Ef hann þarf á að halda áliti manna sem varðar t.d. bæklunarskurðlækningar þá kallar hann á slíka sérfræðinga sér til trausts og halds. Landlæknir er því ekki sérfróður læknir um allar sérfræðigreinar læknisfræðinnar heldur er hann embættislæknir sem hefur ákveðnum embættisskyldum að gegna. Sóttvarnir falla einfaldlega undir embætti landlæknis, eitt af því sem landlæknir á að sinna lögum samkvæmt og ég tel ekki ástæðu til þess að flytja sóttvarnir frá landlæknisembættinu og inn í heilbrrn. Þvert á móti hef ég gert ráðstafanir til þess að flytja skólayfirlækningarnar úr heilbrrn. og til landlæknis. Ég tel ekki rétt að heilbrrn. sé að sinna slíkum sérstökum vandamálum öðruvísi en þá sem ráðuneyti þeirra mála, en framkvæmdin sé falin landlæknisembættinu.
    Þá var spurt um hve mörg sjúkrahús hefðu göngudeildir vegna smitsjúkdóma og hver mörg sjúkrahús hefðu lokaðar einingar til þess að vista fólk sem er haldið alvarlegum smitsjúkdómum. Eins og ég segi er aðeins eitt sjúkrahús sem hefur slíka möguleika á lokaðri vistun. Hins vegar eru göngudeildir eða vísir að göngudeildum á nokkrum sjúkrahúsum. Það verður að ráðast af þeim fjármunum sem Alþingi treystir sér til þess að verja á hverju ári hve langt menn treysta sér til þess að byggja upp göngudeildir sjúkrahúsa fyrir smitsjúkdóma. Þær göngudeildir eru til hér í Reykjavík og vísir að þeim norður á Akureyri. Það er til ein lokuð sérdeild fyrir hættulega smitsjúkdóma en hversu víðtæk sú starfsemi er verður annars vegar að ráðast af þörfinni og hins vegar af fjárveitingum hins háa Alþingis.
    Þá var spurt hvaða sérgreind læknisembætti legðust af ef þessi lög yrðu samþykkt. Í lögum um berklavarnir frá 1939 er t.d. gert ráð fyrir því eins og segir í 3. gr. laganna, með leyfi forseta: ,,Framkvæmdastjórn berklavarnanna skal falin sérfróðum berklalækni, berklayfirlækni landsins.`` Þetta er eitt sérgreint læknisheiti sem fellur út úr lögum með breytingu og niðurfellingu þessara laga.
    Annað dæmi er t.d. í sóttvarnalögum sem eru frá 1954. Þar er gert ráð fyrir því að skipaðir séu sérstakir sóttvarnalæknar í hverju héraði. Það hefur ekki verið gert lengi. Það er annað dæmi um sérgreint læknisverk sem fellur út úr lögum.
    Í þriðja lagi eru héraðslækni falin ýmis tiltekin viðfangsefni í þessum sérstöku lögum. Embætti héraðslækna hafa gerbreyst frá því að þessi lög voru sett. Þeir sem áður hétu héraðslæknar heita nú heimilislæknar eða heilsugæslulæknar en héraðslæknar eru hins vegar ákveðnir stjórnsýsluaðilar í kerfinu og eru þar aðeins tveir sem eru í fullu starfi sem slíkir, héraðslæknirinn í Reykjavík og héraðslæknirinn í Norðurl. e. Aðrir héraðslæknar eru embættislæknar í héraði í hlutastarfi þannig að bæði hin gömlu sóttvarnalög, berklavarnarlög og önnur lög, sem rætt er um að falli út, eru ekkert í takt við þá skipan þessara mála sem nú er í gildi í landinu. Þetta eru nokkur dæmi sem hv. þm. spurði um sem munu breytast til hins betra og til samræmis við það skipulag sem við búum við ef þetta frv. verður samþykkt.
    Það er mjög eðlilegt að það séu fyrst og fremst læknar sem koma að farsóttavörnum sem stjórnendur vegna þess að það eru einfaldlega læknar hvað svo sem menn vilja um það segja og hversu ánægðir sem menn eru með það sem verða að hafa stjórn sóttvarna með höndum.
    Með þessu er ég ekkert að draga úr mikilvægi hjúkrunarfræðinga í heilbrigðiskerfinu en menn verða einfaldlega að gera sér það ljóst að það er munur á menntun hjúkrunarfræðinga og lækna. Sá munur er slíkur að með farsóttavarnir og stjórnun þeirra hljóta læknar að fara sem eru sérmenntaðir í þeim málum þó svo að hjúkrunarfræðingar séu mjög mikilvægir í sambandi við framkvæmd þessa.