Sóttvarnalög

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 18:12:02 (6001)

     Ingibjörg Pálmadóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það gætti dálítils misskilnings hjá hæstv. heilbr.- og trrh. þegar hann var að tala um nauðsyn þess að það væru læknar sem sæju um þessi mál, sóttvarnamál. Það er algjör misskilningur ef hann heldur það að læknar hafi meiri menntun á þessu sviði en hjúkrunarfræðingar vegna þess að það eru til hjúkrunarfræðingar hér á landi sem eru með sérmenntun varðandi sýkingavarnir. Mér er ekki kunnugt um að það séu læknar með þá sérmenntun sem þessir hjúkrunarfræðingar eru með. Auðvitað sakna ég þess sérstaklega að þeir hafa hvergi komið þarna nálægt þó ég styðji frv. og þakka hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur sérstaklega fyrir að minnast á þetta því þetta er auðvitað til skammar. En ég held að þetta sé vegna þess að menn sem um þessi mál fjalla vita einfaldlega ekki betur. Þeir vita ekki að til eru sérfræðingar á þessu sviði sem heita hjúkrunarfræðingar.