Dýravernd

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 18:31:35 (6010)

     Árni M. Mathiesen (andsvar) :
    Frú forseti. Ég vil aðeins nefna hér tvö atriði sem hv. síðasti ræðumaður kom inn á. Það var hvernig ætti að standa að því að deyða dýr. Byssueign er ótrúlega algeng hér á landi og því þó nokkuð margir sem hafa slíkt tól til þess að deyða dýr. Svo er það reynsla mín að lögregla hefur yfirleitt þessi tæki og er viljug að koma á staðinn og bjarga málunum ef þannig stendur á.
    Hún nefndi einnig svokallaðan verksmiðjubúskap. Það er auðvitað höfuðnauðsyn að við búum vel að þeim dýrum sem við erum að ala til þess að hafa af þeim afurðir, ekki bara til þess að þeim líði ekki illa heldur tel ég einnig að eftir því sem þeim líður betur, þeim mun meiri afurðir fáum við af þeim. Því er það skynsamlegt frá sjónarmiði markaðarins að búa vel að dýrunum. En það er hins vegar mjög erfitt að ákvarða það hvað þeim er fyrir bestu um aðbúnað. Það var einu sinni gerð tilraun með svokallaðar batteríhænur, eða hænur sem eru í stórum og miklum verksmiðjubúum, á því hvers konar undirlag í búrunum væri heppilegast. Prófað var gamalt og venjulegt hænsnanet sem kallað er og allir töldu náttúrlega að væri það versta og síðan voru prófaðar ýmsar aðrar tegundir sem áttu að gefa betri fótfestu fyrir hænurnar. Mælikvarðinn á það hvar þeim liði best skyldi vera hvar þær verptu flestum eggjunum. Niðurstaða tilraunarinnar varð sú að hænurnar verptu flestum eggjunum á gamla hænsnanetið sem allir töldu ómögulegt. En þetta er einungis til þess að benda okkur á það hversu erfitt getur verið að meta hvað það er sem er dýrunum fyrir bestu.