Umhverfisskattar

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 19:02:42 (6016)

     Flm. (Árni M. Mathiesen) :
    Frú forseti. Ég vil þakka þeim sem hafa tekið þátt í þessari umræðu svo áliðið sem er orðið í dag. Ég þakka þeim sem hafa tekið jákvætt undir tillöguna og einnig þeim sem hafa lýst því yfir að þeir telji að hún sé flutt með góðum hug.
    Það hefur verið spurt hvernig umhverfisskattar geti komið í stað annarra skatta og menn hafa jafnvel lýst yfir efasemdum um að það sé hægt. En það er einmitt efni þessarar tillögu að það verði athugað. Þegar við ræðum um það þá er rétt að við höfum það í huga að við erum nýbúin að gera veigamiklar aðgerðir til að létta skattbyrði af atvinnulífinu. Það er einmitt í ljósi þess og þeirrar endurskoðunar sem í kjölfar þess mun fara fram á tekjustofnum sveitarfélaga sem þessi tillaga er lögð fram.
    Ég hef ekki miklar áhyggjur af því þó að sú staða kæmi upp að umhverfisskattar, sem á væru lagðir, færu óðum þverrandi og sá tekjustofn mundi minnka mjög fljótt. Það væri vel því þá hefði skattlagningin náð tilgangi sínum. Þá væri gjaldstofninn orðinn minni og þar með væri mengunin orðin minni. Þannig að ég held að það sé alls ekki áhyggjuefni fyrir okkur hér á hinu háa Alþingi því sagan hefur sýnt að okkur hefur yfirleitt ekki skort hugmyndaflug til að finna upp nýja skatta þegar gjaldstofnar hafa minnkað allverulega. Svo mjög hefur hugmyndaflugið fengi lausan tauminn stundum að það hefur verið verulega gagnrýnivert.
    Ég get alls ekki verið sammála hv. 4. þm. Austurl. að tillagan sé flausturslega unnin. Hér er um þáltill. að ræða þar sem því er beint til framkvæmdarvaldsins að fram fari tiltekin athugun. Hér er ekki um frv. að ræða og á því er auðvitað gríðarlega mikill munur. Það kemur mér kannski ekki sérstaklega á óvart þó hv. 4. þm. Austurl. skilji mig ekki því ég verð að viðurkenna að oft og tíðum skil ég hann ekki heldur. En það hefur fram til þessa ekki hindrað að við gætum átt sæmileg samskipti á einhverjum sviðum.
    Það má auðvitað segja líka að okkar lífsskoðanir og okkar skoðanir á sköttum séu þess eðlis og svo ólíkar að það sé ekkert skrýtið þótt honum finnist einkennilegt að aðrir skattar gætu huganlega lækkað vegna þess að nýir skattar væru lagðir á. Það er ekkert lögmál að skattar þurfi að vera óumbreytanlegir um aldur og ævi og það sé ekki hægt að lækka þá eða taka þá af og taka upp nýja í staðinn eftir því sem við teljum henta hverju sinni.
    Ég vona, hæstv. forseti, að þáltill. fái fljóta umfjöllun í nefndinni til að hún geti orðið innlegg í það starf sem hæstv. umhvrh. sagði frá að fram færi nú þegar á vegum umhvrn. og fjmrh. og jafnvel orðið til þess að því starfi yrði hraðað og það tengt þeirri endurskoðun sem fer fram eða verður að fara fram á allra næstu mánuðum á tekjustofnum sveitarfélaga.