Umhverfisskattar

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 19:08:01 (6017)

     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég vil aðeins koma hér til að benda á að þessi tillaga til þál. um umhverfisskatta virðist vera frekar í þá átt að fyrirtækin eigi að skila tekjum til sveitarfélaga og þá hlýtur það að verða til þess að sveitarfélögin hafi ekki hag af því að fyrirtækin dragi úr mengun. Mér sýnist að þessi tillaga hljóti að vera í þá veru. Og ég vil vekja athygli á að hún er allt öðruvísi upp byggð heldur en sú þál. sem við kvennalistakonur höfum lagt fram um umhverfisgjald þar sem það á að hvetja menn til að draga úr eða hætta notkun hættulegra efna og það miðar að því að eftir því sem mengunarvarnir væru bættar þá lækki gjaldið eða sé fellt niður. Mér sýnist að þessi tillaga gangi í öfuga átt þannig að hún getur ekki hvatt sveitarfélögin til að láta fyrirtækin minnka sína mengun því þá missa þau að sjálfsögðu sína skatta.