Umhverfisskattar

127. fundur
Fimmtudaginn 11. mars 1993, kl. 19:13:31 (6023)


     Hjörleifur Guttormsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Spurningin er um það hvort einstökum ríkjum, aðildarríkjum að Evrópsku efnahagssvæði, mundi líðast það að taka upp álagningu af því tagi sem hér er verið að gera ráð fyrir sem ætti að koma í veg fyrir aðra almenna skattlagningu í landinu. Heldur flm. virkilega að menn kæmust langt með slíka stefnu? Það er náttúrlega eitthvað annað ef Evrópubandalagið sem heild er að taka ákvörðun sem öll lönd þess standa að og gengi þar jafnt yfir öll fyrirtækin. En ég er ansi hræddur um að þessi tillögugerð hér opinberi það nú að hv. flm. áttar sig lítið á hvaða skuldbindingar það eru sem menn eru að taka á sig með þeim samningi sem þegar hefur verið frágenginn af stjórnvalda hálfu en vonandi kemst ekki mikið lengra.