Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 14:24:51 (6031)

     Guðrún Helgadóttir (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er einstaklega hvimleiður siður sem hér hefur verið tekinn upp að þegar menn eru rökþrota í einhverju máli, þá tala þeir um að þessi og þessi þingmaður, einkum og sér í lagi sá sem hér stendur, telji sig vita allt betur en allir aðrir. Ég vil mælast til, herra forseti, að menn verði ávítaðir fyrir svona órökstuddar dylgjur.
    Það mál sem ég hreyfði hér við, um 4 milljarðana sem ekki koma fram í fjárlögum, varð þó a.m.k. efni til þess að Ríkisendurskoðun mun á næstunni, samkvæmt upplýsingum ríkisendurskoðanda á fjárlaganefndarfundi í morgun, skila ítarlegri skýrslu um það mál og önnur þau mál er varða bókhald ríkisins og ég held að ég geti fullyrt að hann muni verða mér sammála í því máli. Það þarf ekkert að vera að þrasa um það að auðvitað eru þetta skatttekjur ríkisins, þessir 4 milljarðar. Þeir fara hins vegar að hluta sem greiðslur úr ríkissjóði til þess að mæta niðurfelldu aðstöðugjaldi hjá sveitarfélögunum. Þetta er ekkert óskaplega flókið en hins vegar getur það stundum komið hæstv. ráðherrum vel að gera einfalda hluti flókna.