Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 14:26:18 (6032)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég biðst afsökunar á því að hafa orðað mína hugsun eins og ég gerði og átti nú ekki von á því að ( GHelg: Kvenfyrirlitning, ráðherra.) en það er nýtt fyrir mér að það að hafa sagt að hv. þm., hvort sem hann er kvenkyns eða karlkyns, hafi gott vit og meira vit en aðrir á málinu, að í því felist einhverjar dylgjur. Málið er það að hv. þm. kallaði hér fram í og sagði að staðreyndin væri önnur en ég hélt fram og þá vil ég aðeins að það komi hér fram að auðvitað er Ríkisendurskoðun ekki hæstiréttur í þessum málum. Ég hef margoft sagt og það veit hv. þm. og það vita hv. þm. að færslan er umdeilanleg. Ég nefndi það einungis í minni ræðu hér áðan, og ég vona að það hafi ekki farið fram hjá neinum, að það styður enn málstað fjmrh. að bókhaldsnefnd sveitarfélaganna telur að sveitarfélögin eigi að færa þessar tekjur sem skatttekjur og auðvitað á hið opinbera ekki að færa skatttekjurnar tvisvar. Þetta er niðurstaða sem ég ætla mér að standa við og þá skiptir auðvitað engu máli þótt Ríkisendurskoðun sé á öðru máli. Hún er ekki hæstiréttur í þessu frekar en öðru.