Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 14:28:28 (6034)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég skal enn einu sinni reyna að skýra þetta út. Skatttekjur renna annars vegar samkvæmt tekjustofnalögum til sveitarfélaga og hins vegar til ríkisins samkvæmt tekju- og eignarskattslögum og öðrum skattalögum. Það væri rangt að tvítelja þessar skatttekjur. Við höfum áður deilt um það og rætt um þessar færslur sem slíkar. Það eina sem ég hef sagt hér er nýtt í þessu máli er að bókhaldsnefnd sveitarfélaganna hafi lagt til við sveitarfélögin að þau færðu þessa færslu sem skatttekjur hjá sér sem auðvitað styður þann málstað sem ég hef stutt í þessu máli. Í því felst enginn dómur um það hvort bókhaldsnefnd sveitarfélaganna sé einhver hæstiréttur frekar en Ríkisendurskoðun. Það eina sem ég vildi segja með þessu og það einasta sem hefur verið sagt er að þetta er nýr stuðningur við minn skilning á þessu máli sem áfram heldur að sjálfsögðu verða umdeildanlegt.