Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 14:34:08 (6037)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst nú hæstv. fjmrh. vera kominn inn á dálítið hættulegar brautir. Í fyrsta lagi eru rökin fyrir því að það eigi að færa þessa 4 milljarða með þessum hætti þau að þetta sé bráðabirgðaráðstöfun til eins árs. Gott og vel. En segjum nú að það takist ekkert samkomulag um það, annars vegar hér á Alþingi eða við sveitarfélögin um nýja tekjustofna sveitarfélaganna fyrir áramót og niðurstaðan verði þá sú þrautalending að hafa þetta aftur í gildi á árinu 1994. Á þá allt í einu að fara að færa þetta sem tekjur hjá ríkinu og hætta að færa það sem tekjur hjá sveitarfélögunum af því að þetta er þá gert í annað sinn? Það verða skrýtnar kúnstir að fara þá að færa þetta af því að það hefur verið samþykkt að gera það í annað sinn.

    Í öðru lagi sagði hæstv. ráðherra hér að þessi hluti tekjuskattsins færi aldrei í ríkissjóð. Auðvitað fer það í ríkissjóð. Það stoppar þar augnablik af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að tekjuskattsálagningin liggur ekkert ljóst fyrir á þeim tíma sem staðgreiðslan er innt af hendi af ýmsum ástæðum, m.a. vegna þess að ef menn kæra álagninguna, þá getur það breyst. Staðgreiðslan er leiðrétt þannig að það á sér stað einhvers konar uppgjör inni í ríkissjóði og því ekki hægt að tengja þetta þannig af því að upphæðirnar eru breytilegar og það liggur ekki fyrir í upphæð ársins hver tekjuskatturinn endanlega verður. Svo að rökin finnst mér þess vegna ekki vera góð, hæstv. fjmrh., fyrir þessari skipan þannig að ef fjmrn. ætlar að halda sér fast við þessa skipan, þá tel ég nú brýnt fyrir ráðuneytið að fara að finna sér einhver betri rök.