Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 14:56:17 (6040)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru örfá atriði sem mig langar til þess að fá tækifæri til þess að fjalla um og komu fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns og get ég þó verið sammála honum um flest og ekki síst það að margir hlutir í þessu eru umdeilanlegir. Ég vil þó fyrst vegna orða hans um ræðu mína og orðalag í henni benda á að orð mín átti að skilja með tilliti til þess að fyrir lágu tillögur ríkisreikningsnefndar um þetta atriði og Ríkisendurskoðun átti aðild að þeirri niðurstöðu sem m.a. er fjallað um í greinargerð með fjárlögunum og frá því var gengið áður en skýrsla Ríkisendurskoðunar kom þannig að það skýrir hvers vegna sárindi eru og ég tel þau vera eðlileg þegar búið er að bindast fastmælum um ákveðna niðurstöðu að þá skuli eftir á koma athugasemd við þessar færslur í skýrslu Ríkisendurskoðunar. Það má vel vera að þetta sé fullfast upp í sig tekið, en þetta er skýringin.
    Í öðru lagi vil ég segja að túlkun á lögunum er einmitt erfið vegna þess að í lok lagaákvæðisins sem hv. þm. minntist á stendur: ,, . . .  að svo miklu leyti sem við á.`` Deilan snýst um það hvort við samþykkt og meðferð fjáraukalaga skuli færa tölur upp á reikningsgrunni eins og ríkisreikningur er færður upp eða hvort færa skuli fjáraukalög með sama hætti og fjárlög. Það er alveg sama hvora leiðina við förum. Báðar munu skapa nokkurn rugling. Ef við færum fjáraukalögin upp á reikningsgrunn, þá verða fjáraukalögin ekki sambærileg við fjárlög. Ef við færum hins vegar fjáraukalögin eins og nú er gert á greiðslugrunn, þá verða fjáraukalögin ekki sambærileg við ríkisreikning. Ég þori nú varla að segja: svo augljóst og einfalt er þetta mál. Það er þetta sem þarf að leysa og það ætlar ríkisreikningsnefnd að gera. Hún starfar núna með fundahöldum tvisvar í viku og mun ljúka sínum störfum síðar á þessu ári.