Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 15:03:36 (6042)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Þetta mál snýst ekkert um það sem hv. þm. var að tala um hér síðast í sinni ræðu því að ríkisreikningurinn sem við erum að ræða hér er í fullu samræmi við það sem Alþingi samþykkti, einfaldlega vegna þess að inni í ríkisreikningnum eru að sjálfsögðu þessar milljónir kr. sem snúa að Verðjöfnunarsjóðnum. Þetta mál sem við erum að fjalla um hér í dag snýst þess vegna ekkert um það atriði.
    Hitt er svo annað mál að í framsöguræðu minni gagnrýndi ég skýrslu Ríkisendurskoðunar. Gagnrýni mín snýst ekkert um fjáraukalög, snýst ekkert um ríkisreikning heldur snýst um það hvort í skýrslu Ríkisendurskoðunar um framkvæmd fjárlaga eigi að fjalla um framkvæmd fjárlaganna á grundvelli þess sem Ríkisendurskoðun vill gera með fjáraukalög og ríkisreikning eða hvort fjalla eigi um fjárlög á grundvelli fjárlaga og greiðslugrunns. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég varð stórhissa að hlusta á hv. síðasta ræðumann því að ef hann hefur meint það sem hann var að spyrja mig að, þá hefur hann gjörsamlega misskilið þessa umræðu alla því að það er alveg ljóst að ríkisreikningurinn er settur upp með sama hætti og Alþingi samþykkti.