Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 15:06:46 (6045)

     Guðrún Helgadóttir :
    Hæstv. forseti. Það er athyglisvert þegar verið er að fjalla um ríkisreikninginn sjálfan hversu tiltölulega fáir hv. þm. eru hér í umræðunni og ég sakna þorrans af hv. fjárln. og kann það nú að vera enn þá undarlegra. Það er nú einu sinni svo að fjárlög þjóðarinnar og meðferð fjármála eru mælikvarðinn á hvernig til tekst um rekstur þjóðfélagsins og það hlýtur því að sæta furðu hversu lítill áhugi manna er á þessari umræðu. En því tek ég hér til máls að mér þykir, og tek undir það með síðasta hv. ræðumanni, það vera orðið mjög óljóst hver staða Ríkisendurskoðunar er. Undir Alþingi Íslendinga heyra tvö embætti, embætti umboðsmanns Alþingis og Ríkisendurskoðun. Báðar þessar stofnanir eru þannig settar, það er rétt, að þær eru ekki dómur. En í öllum þeim þjóðfélögum sem ég þekki til eru orð þessara stofnana tekin mjög alvarlega. Svo hefur verið frá því að embætti umboðsmanns Alþingis tók til starfa að menn hafa hlustað þegar umboðsmaður Alþingis lýsir skoðun sinni á einhverju máli og með örfáum undantekningum hefur verið farið að hans ráðum og tillögum og lögum breytt ef hann fór fram á það eða hans embætti þannig að menn taka mjög alvarlega álit umboðsmanns Alþingis. Hið sama ætti auðvitað ekki síður að gilda um Ríkisendurskoðun, en ég fæ ekki betur séð en Ríkisendurskoðun sé komin í þá stöðu að ef þaðan koma gagnrýnisraddir, þá er bókstaflega talað um að Ríkisendurskoðun sé að auka tortryggni.
    Hæstv. forseti. Ef ég gegndi þessu virðulega embætti ríkisendurskoðanda væri ég búin að segja af mér. Ég sé ekki að ríkisendurskoðandi geti setið undir þessu. Til hvers er ætlast af honum? Að hann sé að gera einhverjar málamiðlanir við fjmrh. hverju sinni um hvernig sé hægt að möndla með ríkisreikning og fjárlög? Ég held að Alþingi verði að taka þetta mál mjög föstum tökum því að Alþingi Íslendinga er ábyrgt fyrir embætti Ríkisendurskoðunar og ríkisendurskoðanda. Og það er auðvitað gjörsamlega óþolandi fyrir þá stofnun að sitja undir því að hún sé heldur til vandræða fyrir sitjandi ríkisstjórn. Það er kannski, hæstv. forseti, ekki úr vegi að benda á það að áhugi hefur ekki verið mikill fyrir ársskýrslum Ríkisendurskoðunar, því að ég leyfi mér að fullyrða hér að hvorki skýrsla síðasta árs né ársins þar áður hefur verið tekin til umræðu hér í þinginu eins og siður var áður. Ég bið hæstv. forseta að leiðrétta það ef þetta er rangt hjá mér, en ég leyfi mér næstum því að fullyrða að svo sé.
    Sannleikurinn er sá að það er afskaplega mörgu áfátt í meðferð ríkisfjármála, afskaplega mörgu og það er erfitt jafnvel fyrir þá sem í fjárln. sitja að afla upplýsinga. Það er sama þó verið sé að bera fram fyrirspurnir um ákveðin mál. Það líður langur tími þar til svör fást og stundum eru svörin á þann veg að þau eru beinlínis gerð til að leyna þeim upplýsingum sem beðið er um og ég gæti nefnt dæmi um það.
    Það er líka athyglisvert hversu rólegir menn eru þegar um er að ræða fjármál ríkisins og þegar augljóslega er farið illa að ráði sínu þar. Ég get ekki stillt mig um, hæstv. forseti, að upplýsa það að í morgun kom fram í fjárln. --- og þar sat virðulegur ríkisendurskoðandi og hans starfsmenn --- að búið væri að

setja Hríseyjarferjuna Sæfara á söluskrá erlendis. Og hverjir höfðu gert það? spurðu nefndarmenn. Vegagerð ríkisins. Eins og við munum öll var Vegagerð ríkisins falið að dreifa 300 millj. kr. milli þeirra aðila sem reka ferjur í landinu, en ég veit ekki betur en ýmsir aðrir en íslenska ríkið séu eignaraðilar að bæði umræddri ferju og öðrum ferjum þannig að ég fæ ekki betur séð en þarna sé Vegagerð ríkisins að selja hlut sem hún hefur engin yfirráð yfir. Menn urðu dálítið langir í framan, verður að segjast, í nefndinni. En fyrir mér er það samt undarlegt hversu menn tóku þessu rólega. Ég hefði búist við að menn hefðu flýtt sér að leiðrétta hér mjög alvarlega misnotkun á annarra manna eignum og mér þætti gaman að vita hvað þeir aðilar sem rekið hafa umrædda ferju segja þegar þeir heyra það að hún sé til sölu í útlöndum án þess að þeir hafi nokkurs staðar komið við það mál. Og þetta er ekki einsdæmi. Því miður er þetta ekki einsdæmi. Menn sullast með hina ýmsu sjóði, leggjandi fram fé hingað og þangað eftir geðþótta og ef beðið er um upplýsingar um slík mál þá er ekki annað að heyra en maður sé heldur til óþæginda, heldur leiðinlegur og sínöldrandi. En að maður fái fljótt og vel upplýsingar um það sem maður er að spyrja um, það tilheyrir algjörlega undantekningum. Síðan geta menn svo rætt hér fram og aftur hvort það sé sjálfsagt eða ekki sjálfsagt að tína til nokkra milljarða hér og nokkra milljarða þar svo einhver leið sé að botna í samhengi á milli fjárlaga og ríkisreiknings.
    Það er alveg rétt sem hæstv. ráðherra sagði hér áðan í mjög neikvæðum tóni. Það vill svo til að sá þingmaður sem hér stendur veit svolítið um bókhald, hefur meira að segja lært svolítið í bókhaldi og ég leyfi mér að fullyrða að það eru svo sem engin yfirskilvitleg málefni. Það er hægt að skilja bókhald ef fólk hefur einhverja smáskynsemi til að bera og ofurlitla kunnáttu. En að það sé verið að pexa hér hvernig eigi að ganga frá ríkisreikningi og hvort eigi að sýna í fjárlögum tekjur ríkisins, þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur en þetta er einfaldlega eftir öðru.
    Ég vil því mælast til þess, hæstv. forseti, að því verði komið á framfæri og mun reyna að beita mér fyrir því sjálf í forsætisnefnd hins háa Alþingis að málefni Ríkisendurskoðunar verði hreinlega tekin til umræðu á forsætisnefndarfundi og farið fram á að ársskýrslur Ríkisendurskoðunar verði ræddar hér í þessum sal. Í tíð fyrri hæstv. ríkisstjórna skiptu forsetar með sér verkum á þann veg að hv. núv. 2. þm. Suðurl. var þá forseti efri deildar og var milligöngumaður fyrir hið háa Alþingi við Ríkisendurskoðun, aðrir forsetar önnuðust embætti umboðsmanns Alþingis og önnur þau verk sem þar til heyra, og því mælti hann á hverju ári fyrir skýrslu Ríkisendurskoðunar. Ég fæ ekki betur séð en þessi siður sé aflagður og það telji enginn umræðuvert að ræða Ríkisendurskoðun. Nú veit ég ekki hvort það er af því að núverandi virðulegur ríkisendurskoðandi er ekki nógu þægur ríkisstjórninni eða hvað er . . .  ( Forseti: Má forseti grípa fram í fyrir hv. ræðumanni og rifja það upp að ársskýrsla Ríkisendurskoðunar hefur verið tekin hér til umræðu. Forseti man nú ekki nákvæmlega hvenær.) Hvaða árs, virðulegur forseti? ( Forseti: Síðasta árs en þeirri umræðu er ekki lokið.) Ég þakka virðulegum forseta fyrir þessar upplýsingar sem segja nú ekki annað en hversu mikil virðing er borin fyrir þessari skýrslu. Sjálfsagt hefur einhver sagt nokkur orð um hana og síðan umræðu snarlega verið frestað og sennilega verður það að játast á þann þingmann sem hér talar að hafa ekki verið í salnum nákvæmlega þær mínútur sem þessi mikla umræða fór fram. Það væri því ástæða til að biðja þá um að þessari umræðu yrði haldið áfram sem allra fyrst því að ég hygg að það sé alllangt síðan umræðunni var hleypt af stað og sjálfsagt enginn fengið tækifæri til að taka til máls við þá umræðu, en ég þakka forseta samt.
    En ég vil leggja á það áherslu að ég held að það sé afar óheppilegt ef svo er komið að fjmrn. er komið í opið stríð við Ríkisendurskoðun. Við það verður ekki unað. Þar verður að ganga hreint til verks og leiðrétta þá tortryggni sem þar ríkir á milli.