Ríkisreikningur 1990

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 15:17:24 (6046)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get ekki setið undir þessari ræðu hv. þm. án þess að veita andsvar. Ég tel fyllstu ástæðu til þess að hér komi fram að ég treysti Ríkisendurskoðun fullkomlega í þeim störfum sem Ríkisendurskoðun er ætlað og ég tel að ríkisendurskoðandi sé sínu starfi vaxinn. Ég vil að það komi hér fram því að það mátti skilja annað á orðum hv. þm. Ef talað er um opið stríð, þá hefur það stríð átt sér langan aðdraganda og staðið lengi yfir, um margra ára skeið eins og við vitum. Ég vil ekki kalla þetta opið stríð. Það er ágreiningur um viss efni og sá ágreiningur hefur opinberast. Ríkisendurskoðun hefur gefið fjölmargar ábendingar og veitt gagnrýni og margt af því og sjálfsagt flest er mjög gott og hefur orðið til þess að gera það gagn að starfsháttum hefur verið breytt. Framlagning frumvarpa er hins vegar alfarið á ábyrgð ráðherrans og það er einungis Alþingi sjálft sem getur breytt þeim frumvörpum áður en þau verða að lögum. Þannig er það Alþingi sem í raun er æðsta valdið í þessum málefnum.
    Ég vil aðeins vekja athygli á því að það stendur yfir samstarf fjmrn. og ýmissa stofnana þess og Ríkisendurskoðunar til þess að leysa þetta margra ára gamla deilumál og ég leyfi mér að vona og enn fremur að aðrir hv. þm. taki undir það að hægt verði að leysa þau mál með þeim hætti að fram komi frv. sem allir þessir aðilar eru sáttir við.