Tekjuskattur og eignarskattur

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 15:20:10 (6047)

     Ólafur Þ. Þórðarson (frh.) :
    Herra forseti. Ég var í minni ræðu að fjalla um þetta mál og hafði borið fram þá ósk að hæstv. viðskrh. yrði við þegar umræðunni yrði fram haldið því að hér er verið að fjalla um frv. sem er bein afleiðing af frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði. Ég heyrði hugmyndir hæstv. iðnrh. um nýjan hlutafjárbanka sem hann hyggst stofna, en í frv. til laga um viðskiptabanka og sparisjóði að því frv. viðbættu sem hér hefur verið flutt af hv. þm. Árna R. Árnasyni verður ekki annað skilið en allir sparisjóðir Íslands séu gerðir að hlutafélagsbönkum. Mér þykja það nokkur tíðindi og vildi þess vegna gjarnan ítreka það við forseta hvort hugsanlegt væri að hæstv. viðskrh. hefði tíma aflögu fyrir þingið til að vera viðstaddur þessa umræðu og mun nú gera hlé á máli mínu til þess að hlýða á hvað forseti hefur um það að segja. ( Forseti: Forseti hefur þegar leitað eftir því hvort hæstv. viðskrh. geti verið við umræðuna og bíður eftir svari, en forseti tekur það fram að hann vissi ekki um ósk hv. 2. þm. Vestf. frá þeim tíma er hann frestaði ræðu sinni fyrir nokkrum dögum.)
    Herra forseti. Ég vil þakka það svar sem hér hefur borist. Mér er það ljóst að ekki berast allar fréttir á milli hinna fjölmörgu forseta þingsins, en ég hygg að það sé óhjákvæmilegt að fara örlítið yfir þetta mál í samhengi.
    Nú er það svo að mörgum hinum ungu finnst sem þeir komi inn í ,,veröld hinna fráteknu stæða`` þar sem þeir sem fyrir eru hafi með ýmsu móti komið sér mjög kyrfilega fyrir, verið ákaflega hagsýnir í því að leggja undir sig þá möguleika sem eru til staðar í samfélaginu, búa um sig á ýmsa vegu. Við sjávarsíðuna í þorpum landsins eru margir sem horfa á ,,veröld hinna fráteknu stæða`` þegar þeir horfa á þær leikreglur sem þar hafa verið upp settar. Hið sama má segja að gildi að nokkru leyti í landbúnaði og það má segja að það sama eigi nú að taka við varðandi íslenska sparisjóði.
    Sparisjóðirnir íslensku voru stofnaðir með þeim hætti að ákveðnir menn lögðu í þá áhættu að gerast ábyrgðarmenn að sparisjóði. Þeir áttu ekkert víst í þeim efnum að þeirra sonur eða dóttir tæki við þeirri ábyrgð eða þeirri virðingu sem stundum fylgdi en jafnframt áhættu. Þeir gerðu þetta aftur á móti sumpart af þegnskap til þess að láta gott af sér leiða í því samfélagi sem þeir voru þegnar í. Margir þessara manna unnu mikið og óeigingjarnt starf fyrir sín byggðarlög með þátttöku sinni sem ábyrgðarmenn í sparisjóðunum. Þeir hafa sumir hverjir verið að kveðja og margir horfið yfir móðuna miklu, frumkvöðlarnir sem stóðu að þessu. Aðrir hafa verið að taka við. Þeir sem taka við gera það ekki vegna þess að ákveðinn maður kom til þeirra og sagði: Heyrðu góði minn, vilt þú vera ábyrgðarmaður í sparisjóðnum af því að ég er að hætta? Nei. Þeir tóku við vegna þess að á stofnfundi viðkomandi sparisjóðs var tilkynnt að þessi eða hinn léti þar af ábyrgðum en fundurinn mælti með því að nýir aðilar yrðu teknir inn og að viðkomandi aðilar hefðu samþykkt að gerast ábyrgðarmenn í sparisjóðnum. Þannig hafa þessir hlutir gengið fyrir sig. En jafnframt var það sjálfkrafa að sýslufélög eða bæjarfélög áttu fulltrúa í stjórnum viðkomandi sparisjóða. Það sem hér er að gerast aftur á móti er það, séu þessi tvö frumvörp skoðuð, að ábyrgðin sem menn tóku að sér á að verða þeirra eign.
    ,,Veröld hinna fráteknu stæða`` er skipulögð. Það sem einu sinni átti ekki að fara eftir erfðum skal nú fara eftir erfðum og blóðsuppruna. Svo einfalt er það mál. Af því að Jón Jónsson er í dag orðinn ábyrgðarmaður í þessum sparisjóði þá á hann sjálfkrafa að fá stofnhlutann sem hlutafé gagnvart framtíðinni með sömu réttindum og skyldum og erfingjar hans að gerast erfingjar að þessu.
    Ég tel að sú hugsun sem hér kemur fram sýni alveg sérstaklega hugsunarhátt eins manns á Íslandi sem hefur verið mjög iðinn við það að tryggja það að ,,veröld hinna fráteknu stæða`` tæki við á sem flestum sviðum.
    Einu sinni átti öll þjóðin stofnun sem sá um að hafa eftirlit með skoðun á bílum. Öll þjóðin átti þá stofnun. Henni var breytt í hlutafélag. Það var afhent á silfurfati og í dag er það orðið spurning um arðgreiðslu til ákveðinna aðila hvaða skatt menn greiða þegar þeir eru að láta skoða bílinn sinn. ,,Veröld hinna fráteknu stæða`` hefur tekið við. Ég vara við þeim hugsunarhætti að setja allt þjóðfélagið upp á þennan hátt. Ég vara við þeim hugsunarhætti. Og ég skil ekki hvaða heilbrigð skynsemi getur legið á bak við það ef maður sem gerðist ábyrgðaraðili að sparisjóði, segjum í fyrra, eigi núna í ár að vera skoðaður sem einn af eigendum sparisjóðsins. Hvaða hugsun liggur á bak við þetta? Ber honum þá að telja það fram á sinni skattskýrslu að honum hafi ekki áskotnast arfur heldur hafi honum áskotnast gjöf frá hæstv. viðskrh. eða Alþingi Íslendinga þar sem honum hafi verið úthlutaður viss hluti í sparisjóðnum sem eign og það er búið með þessu móti að gera alla sparisjóði Íslands að hlutafélagsbönkum í reynd? Hafa ábyrgðarmennirnir beðið um þetta? Ég þekki þó nokkuð marga svona ábyrgðarmenn og ég held að þeir hafi ekki beðið um þetta. Það má vel vera að í þeirra röðum sé að finna menn sem hafi dreymt um það að breyta ábyrgðarhluta sínum við sparisjóðinn í eignaraðild að sparisjóðnum. En þá er líka orðið stutt í að það verði Ísland hf. sem taki við á öllum sviðum. Þjóðkirkjan hf., Ísland hf. Er það það sem menn vilja? Er það nefnilega tilfellið að hugsunin sem kom fram í ágætri bók og var orðuð á svo snilldarlegan hátt að allir eigi að vera jafnir, aðeins mismunandi jafnir? Var það ekki George Orwell sem setti þetta fram í sinni uppsetningu þegar hann hafði svínin með misjöfnum lit eftir því hvaða skoðanir þær höfðu á vissum málum?
    Ég er undrandi á því að menn skuli ganga svo blygðunarlaust fram í að gefa eignir sem urðu til með samstöðu Íslendinga, gefa þær einstökum aðilum og leggi nú hvað mest kapp á það að tryggja það að í skattalögum sé þess gætt að þeir geti eignast þessa hluti á sama hátt og menn hafi verið að kaupa sér hlutafé í hlutafélagsbönkum. Auðvitað hafa þeir menn sem gerðust ábyrgðarmenn verið að taka á sig vissa áhættu. Það fer ekkert á milli mála. En þeir tóku þá áhættu á sig af fúsum og frjálsum vilja og það er ekkert sem bendir til þess að ekki sé hægt að fá ábyrgðarmenn í sparisjóðina sem séu reiðubúnir að taka þessa ábyrgð á sig af fúsum og frjálsum vilja. En ,,veröld hinna fráteknu stæða`` er kerfið sem hér skal koma á. Og hvaða lönd hafa náð einna lengst í því að koma á ,,veröld hinna fráteknu stæða``? Ætli Indland með sitt lagskipta kerfi hafi ekki komist næst því að koma á ,,veröld hinna fráteknu stæða`` þar sem það var bundið við fæðingu inn í hvaða stéttir menn fóru og var nánast vonlaust að komast út úr þeim stéttum. Það var búið að lagskipta þjóðfélaginu í hólf og gólf. Það var búið að tryggja það nánast að menn héldu sig í ákveðnum stöðum í samfélaginu og brytust ekki út úr þeim. Ég hélt satt best að segja að með lýðræðisþróun Vesturlanda hefðu menn verið með á því að þetta væri ekki sú veröld sem við vorum að óska eftir. Við höfnuðum því að einvaldskonungarnir hefðu þegið vald sitt frá guði. Nú eiga menn að þiggja heila sparisjóði að gjöf frá hæstv. viðskrh. með blessun Alþingis. Og hæstv. viðskrh. telur sig ekki hafa tíma til þess að því er virðist að vera við í sölum þingsins þegar slík mál eru rædd.
    En svo merkilegt sem það er, þá er það alveg á hreinu að sú réttindagjöf sem hér er verið að framkvæma er út af fyrir sig á valdi Alþingis Íslendinga. Það skal ekki dregið í efa. Þingið getur samþykkt þessa hluti. Þingið hefði líka getað samþykkt það með almannatryggingakerfið á sínum tíma að loka því. Þingið hefur ýmsa möguleika til að setja upp margvíslegar gildrur sem stoppa það að sá sem kemur á eftir geti fetað þá leið sem sá fór sem var á undan.
    Ég tel að það meinleysislega frv. sem hér er flutt af hv. þm. Árna R. Árnasyni hafi blessunarlega orðið til þess að vekja athygli mína á því hvað hæstv. viðskrh. var í raun að gera. Það er ekki svo lítil eign að gefa ákveðnum hóp í þjóðfélaginu alla sparisjóðina á Íslandi. Það er ekki svo lítil eign. Þetta er þokkalegasta fermingargjöf. Ég vona að hv. sóknarprestur af Austurlandi, hv. 5. þm. Austurl., séra Gunnlaugur Stefánsson, geti skrifað undir að það væri hin þokkalegasta fermingargjöf að fá það staðfest að hann yrði eigandi að sparisjóðnum að sínum hlut þegar hann hefði vit og heilsu til, ákveðinn þegn sem væri að ganga fyrir gafl. Ekki veit ég nú hvort hæstv. viðskrh. hefur hugsað sér að þetta yrði almennt í fermingargjafaflóðinu eða í jólagjafaflóðinu. En það væri fróðlegt að fá það upp, hvaða fjármuni er verið að gefa. Hvaða eignir eru þetta samtals sem verið er að gefa? Hve mörg hundruð milljónir er verið að gefa? Og er ætlunin að menn geti tekið við þessum gjöfum án þess að borga þá af þeim tekjuskatt? Án þess að borga þá af þeim eignarskatt? Hvernig er þetta hugsað? Ja, það eru margir örlátir á annarra fé, ég verð að segja það. Það vill loða við marga að þeir eru örlátir á annarra fé.
    Hv. þm. Árni R. Árnason hefur einfaldlega áttað sig á því að ef þessi gjöf er afhent og það er búið að breyta þessu öllu í hlutafélag, þá vill hann hafa sömu réttindi og skyldur hjá þessum aðilum og hinum. Hann vill hafa sömu réttindi og skyldur. --- Og er nú hæstv. viðskrh. genginn í salinn. --- Ég var, hæstv. viðskrh., að vekja á því athygli að við mörgum blasti ,,veröld hinna fráteknu stæða`` sem þeir sem nú eru uppi vilja koma sér fyrir í á mjög hagstæðan máta. Ég var að rekja það hér að á sínum tíma stóðu þjóðhollir Íslendingar að því að stofna sparisjóði. Þeir gengu í ábyrgð fyrir þessa sjóði. Flestir þessara manna eða mjög margir eru nú komnir undir græna torfu, aðrir hafa tekið við. Og hafi maður gerst ábyrgðaraðili að sparisjóði, t.d. í fyrra, þá er verið að veita viðkomandi aðila gjöf í dag. Það er verið að leggja til að hann sé að verða eigandi að sparisjóði á Íslandi ásamt mörgum öðrum. Og hv. þm. Árni R. Árnason vill í skattalögum tryggja það að hlutafélagsbankarnir hinir nýju sem verið er að stofna með þessum hætti, sparisjóðirnar á Íslandi, að stofnfjáraðilarnir þar séu í reynd með sömu réttindi og skyldur, sömu aðstöðuna og þeir sem eiga hlutafé í bönkunum. Hann hefur þess vegna flutt frv. til laga um tekju- og eignarskatt með síðari breytingum.
    Ég hef varpað fram þeirri spurningu: Hvaða eignir eru það sem verið er að gefa mönnum með þessum hætti? Hvaða upphæðir er hér um að ræða? Verða þeir látnir greiða tekjuskatt af gjöfinni eða eignarskatt í framhaldi af því? Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel það alveg út í hött að ábyrgðaraðilar sparisjóðanna eigi að gerast eigendur þeirra. Ég tel það algerlega út í hött. Er ekki hugsanlegt að þetta samfélag eigi einhverja hluti áfram? Er ekki hugsanlegt að það hafi orðið samkomulag hjá íslenskri þjóð í reynd um að það fyrirkomulag að Bifreiðaskoðun Íslands hf. sé ekki fyrirmyndin að öllu sem við eigum að koma hér upp í landinu? En það er siglt undir þeim merkjum. Ég hef ekki heyrt neinar hugmyndir um að Seðlabankinn eigi að verða að hlutafélagsbanka. En það getur vel verið að það komi á næsta þingi þó það sé ekki komið fram enn. Og samfélag sem hefur sett sér upp þá stefnu að það eigi nánast að breyta öllu í hf., er samfélag sem ég tel vera í eðli sínu andlýðræðislegt. Það er samfélag hinna fráteknu stæða, hæstv. viðskrh. Það er samfélag þar sem æskumaðurinn finnur að hinir sem á undan komu, hreiðruðu um sig, komu sér fyrir og ætla hinum yngri aðra kosti og aðra möguleika en þeir höfðu sjálfir. Þeir sem á sínum tíma stofnuðu sparisjóðina áttu ekkert víst í þeim efnum að þeirra synir eða dætur yrðu erfingjar að sparisjóðunum, enda hefur ekki svo orðið í reynd. En núna á það allt í einu að gerast að þeir sem í dag, nákvæmlega í dag eru ábyrgðarmenn, eiga að verða eigendurnir. Og í beinu framhaldi af því og í ljósi þess hefur hv. þm. Árni R. Árnason flutt hér frv. um tekju- og eignarskatt. Hann vill einfaldlega að menn gangi í takt í þessu máli. Hann vill að það sé ekkert skilið út undan í þeim efnum að hér sé um hlutafélög í reynd að ræða.