Tekjuskattur og eignarskattur

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 15:41:00 (6048)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson óskaði eftir því að hæstv. viðskrh. yrði viðstaddur þessa umræðu. Tilefnið var það að hæstv. viðskrh. sé að beita sér fyrir breytingum á íslensku fjármagnslífi og þjóðfélagi sem hæpið sé að séu skynsamlegar eða að gerðar séu með réttum hætti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að vekja máls á þessu hér. Það er hins vegar mjög leitt hve fáir eru viðstaddir í salnum en vissulega væri einnig tilefni til þess að hæstv. forsrh. kæmi til þessarar umræðu.
    Í gær birtist í Morgunblaðinu ítarleg grein ,,Íslenski fjárfestingarbankinn`` eftir Agnesi Bragadóttur. Dómurinn sem hæstv. viðskrh. fær í þessari grein, ef hún er rétt, er auðvitað þannig að helst er hægt að líkja greininni við pólitíska aftöku. Verði þessi grein ekki hrakin, þá er alveg ljóst að hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson er orðinn marklaus á opinberum vettvangi á Íslandi. Agnes Bragadóttir, sem almennt er talin sá blaðamaður Morgunblaðsins sem bestan aðgang hefur að ráðherrum í ríkisstjórn Íslands og hefur það hlutverk á ritstjórn Morgunblaðsins að skrifa fréttir og yfirlitsgreinar af þeim vettvangi, rekur í þessari grein hvernig hæstv. viðskrh. hafi greint rangt frá opinberlega varðandi ákvarðanatöku og umræður í ríkisstjórn Íslands um hinn væntanlega fjárfestingarbanka. Í greininni segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Hann [þ.e. viðskrh.] greindi afmælisbörnunum frá samkomulagi iðnrn. við FÍI og Landssamband ísl. iðnaðarmanna um stofnun slíks fjárfestingarbanka með yfirtöku Iðnlánasjóðs og sameiningu hans við Iðnþróunarsjóð í ársbyrjun 1996. Nú sl. miðvikudag áréttaði ráðherrann þessa stefnu sína í ræðu á ársþingi Félags ísl. iðnrekenda, jafnframt því sem hann var búinn að gefa bankanum sínum nafn, Íslenski fjárfestingarbankinn hf., og boðaði að nú væri unnið að gerð lagafrv. um stofnun banka sem yrði í eigu samtaka iðnaðarins og ríkisins.``
    Síðan er rakið í þessari fréttaskýringargrein hvernig hæstv. fjmrh. og hæstv. sjútvrh. hafi komið af fjöllum þegar iðnrh. lýsti því yfir á afmælisfundinum að það hefði orðið niðurstaðan í ríkisstjórn að skipa málum með þessum hætti. Og greint er frá því að síðan hafi málið verið tekið upp í ríkisstjórn þar sem það hafi verið upplýst að engin umræða hafi farið fram í ríkisstjórninni um málið, hvað þá heldur að ríkisstjórnin hafi samþykkt það. Það eina sem sé flugufótur fyrir þessari opinberu yfirlýsingu hæstv. viðskrh. um ráðstöfun á opinberum fjármunum, þessum sjóði, sé símtal við hæstv. forsrh. Síðan segir í fyrrnefndri grein, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Svo er að heyra sem almennt sé nú litið þannig á í stjórnarflokkunum að Jón Sigurðsson, iðn.- og viðskrh., hafi ákveðið að láta af ráðherradómi í sumar og taka sæti dr. Jóhannesar Nordals í Seðlabankanum á miðju sumri. Samstarfsmenn hans í ríkisstjórn segja að kannski þvælist það fyrir ráðherranum þegar hann lítur um öxl og skoðar eigin afrekaskrá að á þeirri vegferð séu ekki þeir pólitísku minnisvarðar sem hann vildi reisa sér í ráðherratíð. Hann hafi iðulega rekið í vörðurnar í stað þess að reisa þær. Nú sé hver að verða seinastur fyrir ráðherrann og með afmælisgjöfinni ,,góðu`` til iðnrekenda hafi hann kannski náð, a.m.k. í hugum sumra, að gera eins og einn minnisvarðann fokheldan.
    Þótt menn séu ærið harðir í gagnrýni sinni á ráðherrann, eru þó einstaka menn sem taka upp hanskann fyrir hann og benda á að ekki sé alfarið hægt að sakast við ráðherrann þótt stefnumál hans hafi ekki orðið að veruleika, samanber álmálið.`` Síðan segir: ,,En jafnvel málsverjendur ráðherrans á þessu sviði segja þó að ráðherrann hafi mjög skemmt fyrir sér með stöðugum og ótímabærum yfirlýsingum um að þetta málið eða hitt væri í höfn, þegar það var kannski enn ekkert nema hugmynd sem búið var að setja á blað.``
    Það er ánægjulegt að hæstv. forsrh. er kominn hér í salinn. Ég var, hæstv. forsrh., að lýsa þeirri skoðun minni að sé sú frásögn sem birtist í Morgunblaðinu í grein Agnesar Bragadóttur rétt um meðferð hæstv. viðskrh. og iðnrh. á lánasjóðum iðnaðarins, þá er alveg ljóst að yfirlýsingar ráðherrans eru orðnar marklausar á opinberum vettvangi. Það er greint frá því mjög nákvæmlega í þessari grein af þeim blaðamanni Morgunblaðsins sem talinn er hafa best sambönd við forustusveit stjórnarflokkanna að hæstv. iðnrh. hafi beinlínis farið með rangt mál, svo ekki sé nú sterkara til orða tekið, á opinberum vettvangi þegar hann greindi frá umfjöllun í ríkisstjórn um þessi mál. Það eina sem hafi síðan reynst vera flugufótur fyrir yfirlýsingu hæstv. ráðherra, sem ég og aðrir, þjóðin öll hlustaði á í fjölmiðlum sem góðar og gildar yfirlýsingar, væri símtal við hæstv. forsrh. Og síðan er það rakið í greininni að hæstv. iðnrh. hafi þannig grafið undan kröfu ríkissjóðs um að vera eigandi að Fiskveiðasjóði og þannig skapað Landssambandi ísl. útgerðarmanna, sérstaklega Kristjáni Ragnarssyni, alveg ákjósanlega stöðu fyrir útgerðarmenn til þess að gera sams konar kröfur í gjöf Fiskveiðasjóðs til þeirra eins og iðnrh. hafi afhent iðnaðinum úr þessum opinbera sjóði. Hæstv. forsrh. hefur staðið í ákveðnum deilum við forsvarsmenn útgerðaraðila um eignarhaldið á Fiskveiðasjóði og því hefur verið haldið fram hvað eftir annað að Fiskveiðasjóður væri ekki eign útgerðarinnar í landinu heldur væri þar um að ræða opinberan sjóð.
    Það er auðvitað afar sérkennilegt að ráðherra í ríkisstjórn Íslands skuli tilkynna á aðalfundi samtaka iðnaðarins, sérstökum afmælisfundi, að ákveðið hafi verið að afhenda iðnaðinum opinbera sjóði til ráðstöfunar og meðferðar nánast að gjöf og fyrir liggi samkomulag um slíkt í ríkisstjórn, þegar í salnum sitja

fjmrh. og sjútvrh. sem samkvæmt þessari frétt hafa aldrei heyrt um málið. Fara síðan inn í ríkisstjórn og segja: Hvað er eiginlega hér á seyði? Fá þau svör að það eina sem sé á bak við þetta sé símtal við hæstv. forsrh. og fyrir liggi engin samþykkt í ríkisstjórninni í málinu, hvað þá heldur í þingflokkum stjórnarflokkanna.
    Fjármálakerfi lands er nú einu sinni þannig að það er hættulegt að leika sér með það og enn hættulegra þegar í hlut eiga ráðherrar sem samkvæmt þessari frétt eru komnir í kapphlaup um orðstír sinn á stjórnmálavettvangi vegna þess að þeir séu innan tíðar að yfirgefa hann. Hæstv. viðskrh. hefur nú stofnað tilvist Búnaðarbankans og Landsbankans í fullkomna óvissu. Hæstv. viðskrh. er hvað eftir annað að lýsa því yfir að hann ætli að gera Landsbankann og Búnaðarbankann að hlutafjárbanka. Þar með er hann að veikja stöðu þessara banka til lántöku erlendis og í viðskiptum vegna þess að rekstrarform bankans er í óvissu. Hæstv. ráðherra hefur hins vegar engu svarað í þeim efnum, ef hann ætlar að selja Landsbankann, ætlar hann þá að dæla úr ríkissjóði peningum inn í Landsbankann til þess að bankinn standist BIS-reglurnar eða ekki áður en til þess kemur að breyta bankanum í hlutafélag og selja hann?
    Ráðherra hefur síðan lagt fram frv. um Seðlabankann og það er hvað eftir annað sagt í Morgunblaðinu og líka í þessari grein að um það frv. sé ekki heldur samkomulag innan stjórnarflokkanna. Gott ef forsrh. hefur ekki staðfest það opinberlega í viðtali við Morgunblaðið að innan Sjálfstfl. séu efasemdir um einhverja þætti í frv. Og nú bætist það við að í heilli tveggja síðna grein í Morgunblaðinu er af þeim blaðamanni sem allir vita að hefur öruggst sambönd í forustusveit ríkisstjórnarinnar rakið nákvæmlega að hæstv. viðskrh. hafi farið með fleipur, rangt mál og staðlausa stafi þegar hann var að greina frá á opinberum vettvangi ákvörðunum ríkisstjórnarinnar um ráðstöfun sjóða iðnaðarins.
    Það er ekki hægt að búa við það að menn í ábyrgðarstöðum, viðskiptaráðherra Íslands, leiki sér svona í yfirlýsingum. Þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að hér komi fram, fyrst þessi mál komu á dagskrá í ræðu hv. þm. Ólafs Þ. Þórðarsonar, þó frv. sjálft sem hér er til meðferðar gefi kannski ekki tilefni til þess, ræðan gerði það áðan, og fyrst þessir tveir ráðherrar eru hér staddir, að við hér á Alþingi sem höfum hlustað á þessar yfirlýsingar fáum skýr svör við því hvort þetta sé rétt. Er þetta rétt? Ef eitthvað í þessari frásögn Morgunblaðsins af stjórnarheimilinu er rangt, hvað er þá rangt? Því að það er auðvitað ekki við það búandi að fyrst sé hæstv. viðskrh. með sífelldar yfirlýsingar sem ekki standast um Búnaðarbankann, síðan sé hann með sífelldar yfirlýsingar sem ekki standast um Landsbankann. Svo sé hann með sífelldar yfirlýsingar sem ekki standast um Seðlabankann og nú sé hann búinn að bæta við lánasjóðum iðnaðarins og farinn að flytja yfirlýsingar um þá sem ekki standast heldur.