Tekjuskattur og eignarskattur

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 15:53:48 (6050)


     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað afar sérkennilegt ef hæstv. forsrh. hefur ekki lesið þessa grein, annar eins áhugamaður og hann er nú um stjórnmál almennt og um sína eigin ríkisstjórn, þá er það satt að segja mjög sérkennilegt að hann skuli ekki hafa lesið þessa gerin. Það er að vísu hugsanlegt að ráðherrann hafi verið svo önnum kafinn að annað hafi haft forgang. En ég vil hins vegar segja ráðherranum það að í þessari grein eru slíkar ásakanir og svo nákvæmar um gang mála í ríkisstjórn Íslands og frásögn af fundi í ríkisstjórn Íslands að ef þær eru ekki bornar til baka, ekki með almennum orðum og almennri traustsyfirlýsingu í garð viðskrh. eins og hæstv. forsrh. gerði hér áðan, þá standa þær auðvitað óhaggaðar. Þær eru þess eðlis að hæstv. viðskrh. hafi farið með rangt mál á afmælisfundunum og fundi iðnaðarins og mín spurning, hæstv. forsrh., var um það: Fór hæstv. viðskrh. með rangt mál á þessum fundum eins og ítarlega er rakið í greininni í Morgunblaðinu? Við því verður að fást alveg nákvæmt svar. Það kemur í sjálfu sér þessu máli ekki við hvort hæstv. forsrh. vill gera athugasemdir við málsmeðferð viðskrh. á málinu, það er svo annar handleggur. Það sem við þurfum að fá að vita og það sem þjóðin þarf að fá að vita er þetta: Er hægt að treysta opinberum yfirlýsingum viðskrh. eða fer hann með rangt mál og það meira að segja vísvitandi eins og haldð er fram í þessari grein?