Tekjuskattur og eignarskattur

128. fundur
Mánudaginn 15. mars 1993, kl. 16:06:23 (6057)


     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Hér hafa verið gefnar nokkuð merkilegar yfirlýsingar. Það verður að segja fyrst hæstv. forsrh. til hróss að hann hefur reynst meiri línudansari en menn almennt áttu von á og áttu kannski ekki von á að hann stæði sig svo vel að dansa á þeirri hálu línu, hvað hefði verið vitað og hvað hefði ekki verið vitað í þessu máli. Þá yfirlýsingu sem hæstv. iðnrh. gaf segist hæstv. forsrh. hafa lesið yfir og ég rengi það ekki. Hvort hann las ræðuna alla yfir hefur ekki komið fram, gæti þó verið að það væri venja en ég skal ekkert um það fullyrða.
    Hæstv. iðnrh. aftur á móti fullyrðir hér að hann hafi ekkert ósatt sagt í þessu máli. Það ætla ég ekki að dæma um. Hann hefur alfarið komið sér undan því að svara aðalatriði málsins, aðalatriðinu hvort hann hafði ríkisstjórnarsamþykkt á bak við sig þegar umrædd yfirlýsing var gefin eða hvort hann hafði ekki ríkisstjórnarsamþykkt á bak við sig. Yfir því hefur hæstv. iðnrh. þagað eins og um sjálfsmorð væri að ræða og hefur þó tvívegis komið í þennan ræðustól og enginn efar vitsmuni hæstv. viðskrh. til að muna hvað spurt var um.
    Hæstv. fjmrh. veit svarið. Hann veit hvort þetta mál hefur verið tekið upp í ríkisstjórninni eða ekki. (Forseti hringir.) Hæstv. fjmrh. hefur rétt til að þegja alveg eins og hæstv. forseti til að berja í bjölluna. En ég vil nú skora á hæstv. fjmrh. að gera nú þinginu þann greiða að segja frá því hvað sé satt í þessum efnum.