Framkvæmd útboða

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 13:59:55 (6077)

     Iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um framkvæmd útboða á þskj. 363. Vegna smávægilegra mistaka í prentun er nauðsynlegt að prenta þetta þskj. upp og mun skrifstofa þingsins sjá til þess að það verði gert í dag.
    En svo ég snúi mér að efni frv. þá felur það í sér nýmæli sem er lögfesting reglna um framkvæmd útboða, en fram til þessa hafa menn einkum stuðst við ákvæði íslensks staðals, ÍST 30, um útboð verklegra framkvæmda og byggist gildi þessa staðals á því að þeir aðilar sem staðið hafa að samningu hans hafa orðið um það sammála að nota hann og mæla með því að hann verði notaður óbreyttur. Staðallinn hefur tvívegis verið endurskoðaður og einnig hafa verið settir fleiri staðlar um sérstök svið en reynslan af notkun staðalsins hefur leitt í ljós að jafnframt stöðlum er nauðsynlegt að hafa almenn lög um framkvæmd útboða. Þetta frv. fjallar einmitt um slíkan almennan lagaramma fyrir útboð, verk, vöru og þjónustu útboða. Þar nær þó ekki til útboða á fjármagns- og verðbréfamarkaði sökum þeirra sérstöku aðstæðna sem þar ríkja. Frv. hefur að geyma reglur um allt ferlið frá því að útboð er auglýst og þar til endanlegur samningur er kominn á milli kaupenda og bjóðenda.
    Ég ætla ekki að vera margmáll um einstök ákvæði frv. Þau skýra sig að mestu leyti sjálf, en hér er bæði stuðst við þær venjur sem skapast hafa við útboð vöru og verka og einnig er hér reynt að móta nýjar og sanngjarnar reglur þar sem framkvæmdin hefur verið á reiki. Sem dæmi um þetta nefni ég ákvæði 17. gr. frv. þar sem mótuð er regla um það hvernig kaupandi skuli standa formlega að því að tilkynna bjóðanda það að hann hyggist ekki taka tilboði hans.
    Þá vil ég sérstaklega nefna ákvæði 18. gr. frv. en því hefur oft verið haldið fram á undanförnum árum að útboðsfyrirkomulagið hafi verið misnotað í allríkum mæli. Hefur verið staðhæft að kaupendur hafi efnt til útboða til þess eins að kanna markaðinn og afla sér hugmynda um verð og aldrei hafi staðið til að semja við neinn þeirra sem tilboðin gerðu. Það hefur jafnvel gerst að efnt hafi verið til útboða eftir að búið hafi verið að ákveða að ganga til samninga við ákveðinn aðila. Þannig hafi útboðið farið fram undir fölsku flaggi og eingöngu hafi verið um verðkönnun að ræða til þess að skapa kaupandanum betri samningsaðstöðu gagnvart þeim aðila sem þegar var ákveðið að ganga til samninga við. Með ákvæðum 18. gr. þessa frv. er þrengdur að mun möguleikinn til þess að misnota útboðsfyrirkomulagið á þennan hátt. Samkvæmt

þessum ákvæðum er óheimilt að bjóða út að nýju eða semja um framkvæmd eftir öðrum leiðum en útboðsgögn kveða á um fyrr en öllum þátttakendum hefur verið gerð rækileg og ítarlega rökstudd grein fyrir ástæðum þess að öllum tilboðum hafi verið hafnað.
    Í 20. gr. er lagt til að brot á ákvæðum laganna leiði til bótaábyrgðar, jafnframt því sem útboðið í heild verði lýst ógilt. Ekki er að efa að slík bótaábyrgð mun stuðla að heilbrigðari viðskiptaháttum hvað útboð varðar.
    Þetta frv. er samið af nefnd sem ég skipaði sl. haust í framhaldi af þál. sem samþykkt hafði verið um vorið. Í nefndinni sátu þeir Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður, Andrés Magnússon, lögfræðingur Landssambands iðnaðarmanna, Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Innkaupastofnunar ríkisins, Pálmi Kristinsson, framkvæmdastjóri Verktakasambands Íslands, og Stefán Hermannsson, borgarverkfræðingur í Reykjavík.
    Þetta frv. er afrakstur af starfi þessarar nefndar. Ég tel að þeir nefndarmenn hafi unnið ágætt starf. Með þessu frv. er leitast við að koma til móts við þá í íslensku atvinnulífi sem telja að framkvæmd útboða hafi einatt hallað á innlenda tilbjóðendur.
    Virðulegi forseti. Þetta frv. hefur að geyma tillögur um mikilvæga lagasetningu sem ég hygg að geti framvegis fært íslensku atvinnulífi sanngjarnari leikreglur en við búum við nú. Ég legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.