Framkvæmd útboða

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 14:18:16 (6084)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegur forseti. Það þarf ekki að hafa langt mál um þetta frv. til laga um framkvæmd útboða. Mér sýnist eftir yfirferð yfir efnisatriði frv. að þar séu öll aðalatriði sem þurfa að vera lögtekin til þess að útboð geti farið fram með lagalegum stuðningi og ég vil almennt lýsa yfir stuðningi mínum við frv. Þó kann að vera að hv. nefnd sem fær þetta mál til umfjöllunar rekist á eitthvað sem vantar eða þurfi að breyta og að sjálfsögðu mun ég þá taka afstöðu til þess þegar að því kemur. Að vísu var verið að dreifa nýrri útgáfu af frv. núna rétt áðan, en ég sé enga breytingu á þeirri nýju útgáfu miðað við þá fyrri aðra en að gildistökugreinin hafi fallið niður og ég vænti þess að hæstv. ráðherra muni þá leiðrétta mig ef mér hefur sést yfir aðrar leiðréttingar í þessari nýju útgáfu.
    En það er óþarft af minni hálfu að hafa mörg orð um efnisatriði frv. Það er fyrir löngu tímabært og að mínu viti hefðu efnisatriði frv. átt að vera komið í lög fyrir mörgum árum. Það hefði sparað bjóðendum a.m.k. tíma og fyrirhöfn ef ákvæði ÍST 30 hefðu haft lagagildi eins og lagt er til nú.