Framkvæmd útboða

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 14:20:03 (6085)

     Guðjón Guðmundsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil lýsa ánægju minni með það að þetta frv. skuli vera komið fram. Ég spurði hæstv. iðnrh. á síðasta þingi um hvort mætti vænta frv. frá ráðuneytinu um þessi útboðsmál og fékk þau svör að málið væri í athugun í ráðuneytinu sem e.t.v. gæti leitt til þess að lagt yrði fram frv. Nú er þetta frv. komið og mér sýnist það nokkuð vel úr garði gert. Það hefur verið mikið baráttumál Landssambands iðnaðarmanna og fleiri aðila í háa herrans tíð að fá skýrar leikreglur um útboðsmálin og mér sýnist að þetta frv. sé ágætlega úr garði gert og fullnægi þeim óskum sem þessir aðilar hafa haft.
    Íslenski útboðsmarkaðurinn veltir mörgum milljörðum á ári og það er því mikilvægt að hafa skýrar leikreglur og skýrari heldur en verið hafa varðandi útboð. Menn hafa oft og tíðum farið ansi frjálslega með þessi mál og notað útboð sem eins konar verðkönnun og það eru mörg dæmi um það að menn hafi notað lægsta tilboð til þess að pína niður verð hjá öðrum sem jafnvel hafa ekki tekið þátt í útboðinu. Það er því mjög tímabært að setja lög um útboð en ég held að einnig þyrfti í framhaldinu að setja skýrari leikreglur en nú eru um gerð verksamninga í framhaldi af útboðum því að oft og tíðum er nú mikil brotalöm hvað varðar verksamningana líka. Og ég held að það væri ástæða til þess að skoða það í framhaldinu.
    Ég vil ítreka ánægju mína með það að þetta frv. skuli vera komið fram. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um það hér en ég ræddi þetta mál nokkuð ítarlega á síðasta þingi og sé ekki ástæðu til þess að ítreka þau ummæli. Ég vona að við fáum þetta frv. fljótlega til umræðu í efh.- og viðskn.