Framkvæmd útboða

129. fundur
Þriðjudaginn 16. mars 1993, kl. 14:27:12 (6089)


     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil nú eins og fleiri ræðumenn fagna því að þetta frv. er hér komið fram og þakka þeim sem eiga þátt í því eða hafa átt á undanförnum árum að koma þessu máli á dagskrá og stuðla að því að frumvarpssmíð hefur farið fram. Ég held að það sé engin spurning um að það er þarft og til bóta að fá skýr lagafyrirmæli um svona almennan framkvæmdaramma á þessu sviði og fljótt á litið sýnist mér að sú tillaga sem hér er um það gjörð sé í alla staði eðlileg. Það má sjálfsagt skoða það og ræða í viðkomandi þingnefnd hvaða ástæða sé til að hafa þessi fyrirmæli ítarleg og í miklum smáatriðum, en í öllu falli eru hérna ákvæði sem ættu að tryggja vandaðri framkvæmd þessara hluta en oft hefur orðið raunin á og nýleg dæmi og eldri færa okkur heim sanninn um að þyrftu að vera í lögum þannig að ótvírætt væri hver réttarstaða verkkaupa og bjóðenda væri í hverju tilviki.
    Hér hefur verið minnt á t.d. framgöngu hæstv. heilbrrh. sem stóð með afar sérstæðum hætti í verkkaupum nú á dögunum og þarf í raun og veru ekki að fara fleiri orðum um það. Það minnir hins vegar á það að þó svo að þetta komist nú í lög, sæmilega skýr ákvæði um framkvæmd útboða, þá held ég að það sé enn talsvert verk óunnið að koma skikk á þennan málaflokk í heild sinni hjá hinu opinbera. Og þar tel ég að vanti alveg sérstaklega verklagsreglur eða lagafyrirmæli um það hvenær skuli viðhafa útboð og hvenær ekki og þá hvers konar útboð. Hér er að sjálfsögðu ekki verið að taka á þeim þætti málsins, enda ekki ætlunin. Hér er verið að setja lagaramma um framkvæmdina, mér er það mjög vel ljóst. En ég vil nota þetta tækifæri til að vekja athygli á þessu í leiðinni. Í 1. gr. segir einfaldlega:
    ,,Lög þessi gilda þegar útboði er beitt til þess að koma á viðskiptum milli tveggja eða fleiri aðila um verk, vöru eða þjónustu.`` Ég tel a.m.k. hvað opinbera aðila snertir, ríkið sjálft og allar stofnanir þess sem eru nú einu sinni með viðamestu framkvæmdir í landinu á sínum snærum, þar sem eru til að mynda hinar stóru framkvæmdastofnanir sem heyra undir samgrn., þá þurfi að móta miklu skýrari verklagsreglur og lagaákvæði um þessi mál í heild sinni, þar á meðal það hvenær útboð eru viðhöfð og hvers konar útboð. Og þar held ég að þurfi að vera fyrir hendi viss sveigjanleiki. Sú venja sem hefur skapast, að taka að vissu leyti tillit til laga um skipan opinberra framkvæmda en að öðru leyti ekki, viðhafa útboð í ákveðnum tilvikum en öðrum ekki og hafa það jafnvel í mati einstakra stofnana eða starfsmanna ríkisins, er ekki nógu góð.
    Á sínum tíma, ég hygg að það hafi verið á árinu 1989 frekar en 1990, var reynt að koma skikk á þessi mál innan samgrn. með því að setja einfaldlega sérstakar verklagsreglur þar á bæ sem stofnunum er undir það ráðuneyti heyrðu bæri að fara eftir og það var unnið eftir þeim a.m.k. árin þar á eftir, en hvernig þau mál standa síðan núna er mér ekki nákvæmlega kunnugt um. Ég held að það sé í þeim tilvikum fyrst og fremst nauðsynlegt að samræmi sé á um framkvæmd þessara mála milli einstakra stofnana og innan hvers málaflokks, en það hefur ekki verið svo og nægir þar að nefna dæmi um t.d. einstök umdæmi Vegagerðar ríkisins. Tilhögun útboða eða hvort útboð eru viðhöfð og þá hvernig hefur verið með nokkuð mismunandi hætti innan hinna einstöku umdæma. Þetta skapar ýmiss konar árekstra og leiðindi sem hægt væri að komast hjá ef í gildi væru annaðhvort lagafyrirmæli ef ástæða þætti til eða þá a.m.k. skýrar verklagsreglur í þessum efnum.
    Mér sýnist nákvæmlega sama dæmið á ferðinni í raun og veru þegar hin sérstæða byggingardeild heilbrrn. ef ég man rétt sem allt í einu varð heimsfræg í umræðum sl. vetur vegna framkvæmda á Ísafirði virðist þess umkomin að yfirtaka hlutverk Innkaupastofnunar ríkisis og taka forræði varðandi framkvæmdir á vegum heilbrrn. í einstökum tilvikum en svo öðrum ekki, þá er auðvitað verið að dreifa þessum málaflokki út um dal og hól. Þetta skapar hættu á misræmi í framkvæmd sem ekki á að eiga sér stað.
    Ég held þess vegna að það sé þörf á því að í beinu framhaldi af setningu laga um framkvæmd útboða, sem eins og margoft hefur komið hér fram er þarft mál í sjálfu sér, þá þurfi að taka til endurskoðunar lög um skipan opinberra framkvæmda og í raun og veru líka ákvæði sem gilda um opinber innkaup að svo miklu leyti sem við höfum þá eitthvert sjálfdæmi í þessu lengur ef samningur um Evrópskt efnahagssvæði gengur í gildi, en þar eru jú upp á okkur settar reglur utan að frá í verulegum mæli í þessum efnum.
    Ég legg þess vegna áherslu á það að menn líti ekki einangrað á þetta frv. og gangi ekki að því gruflandi að það eitt og sér, svo þarft sem það er, leysir ekki ýmsa þætti þess vanda sem uppi er í sambandi við tilhögun framkvæmda. Og sérstaklega hvað hið opinbera snertir, þá held ég að það sé löngu tímabært að framkvæma heildarendurskoðun eða úttekt á því hvernig þessum málum er fyrir komið hjá hinum einstöku ráðuneytum og einstöku stofnunum ríkisins með það að markmiði að tryggja þarna samræmi og heilbrigða framkvæmd í hvívetna, en þetta mál, þarft í sjálfu sér, getur vel orðið hluti af réttarfarsbótum eða úrbótum á þessu sviði.