Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 15:12:53 (6097)

     Steingrímur Hermannsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Við getum eflaust deilt lengi um vextina og út af fyrir sig er það rétt að sala var lítil á skuldabréfum ríkissjóðs í kringum stjórnarskiptin. En skyldi nú ekki vera að einhverja hafi grunað eða a.m.k. bundið við það vonir að Sjálfstfl. beitti sér fyrir stórhækkun vaxta? Skyldi ekki vera að einhver hafi haldið að sér höndum af þeirri ástæðu? Ég hygg að svo sé. Það gefst náttúrlega ekki tími í andsvörum til að ræða um afleiðingarnar af þessu en þær hafa orðið hroðalegar. Ég segi aftur að þær eru að koma fram. Ég rakti það lítillega.
    Um moldviðrið og að ég hafi átt upptökin að því, það þóttu mér vissulega tíðindi. Ég hygg að ég hafi ekki sagt nema einum manni, sem er hér í þingsalnum frá því sem til stæði, ég taldi mér það varla heimilt. Hins vegar ruku hér á mig fjölmiðlar og sögðu: Hvað segir þú um það að nú þarf að bjarga Landsbankanum með 4 milljörðum? Báðar sjónvarpsstöðvarnar stóðu hér og virtust vita miklu meira um það heldur en jafnvel ég þó ég væri að koma af fundi forsrh. Að sjálfsögðu hlaut ég að leiðrétta þann misskilning sem þá þegar var kominn í loftið, að það væri verið að bjarga Landsbankanum. Hvaðan það kom veit ég ekki. Ég veit að það hefur ekki komið frá hæstv. fjmrh. sem fyrrv. bankaráðsmanni sem hlýtur að bera hag Landsbankans þó mjög fyrir brjósti. Hvaðan kom það? Það vildi ég gjarnan fá upplýst. Það var bókstaflega ekki friður út af þessu. Spurt var: Erum við á Færeyjaleið, eða Sjóvinnslubankaleið, o.s.frv.? Það getur hver áfellst mig fyrir það sem vill að ég gerði mitt besta til að draga úr þessari lýsingu á stöðu Landsbankans.