Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 15:14:54 (6098)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er vissulega ánægjulegt að hv. þm. staðfesti það að hann taldi ástæðu til þess þá þegar að hann var spurður til að fara í fjölmiðla og matreiða þannig sinn málstað sem hann gerði og alþjóð fylgdist með. Það sem auðvitað skiptir máli þegar svona lagað gerist er að réttkjörin stjórnvöld fái tækifæri til að fjalla um málið og birta tillögur sínar áður en farið er að fjalla um slíkar tillögur í fjölmiðlum. Ég tók það fram áðan að ég teldi það ekki hafa verið hv. þm. sem lak þessu í blöðin en hins vegar var hann fyrstur stjórnmálamanna til að fjalla um þetta mál opinberlega og því verður ekki breytt.
    Í öðru lagi --- ég held að okkur gefist nú tækifæri til að ræða um vextina síðar --- vil ég spyrja hv. þm., vegna þess að í hans máli komu fram athyglisverðar upplýsingar um þá vexti sem Landsbankinn býður þeim sem leggja inn mikla fjármuni í bankann, milli 160 og 170 millj. kr.: Eru þetta opinberar tölur eða eru þetta tölur sem birtast í reikningi Landsbankans? Hvar er hægt að fá sundurliðun á þessum tölum? Er þetta almenningi til sýnis?