Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 15:17:58 (6100)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegur forseti. Fátt er viðkvæmara í efnahagslífi þjóða heldur en peningakerfið og fjármálastofnanirnar. Fátt er erfiðara fyrir stjórnvöld en að stýra málum þannig að orðstír Íslendinga á alþjóðlegu fjármagnsmarkaði haldist traustur og góður. Hvers vegna er það erfiðara og mikilvægara að vanda sig, og ég legg áherslu á það, að vanda sig, þegar menn eru að fást við málefni banka og fjármálastofnana en flest annað í efnahagsstjórninni? Svarið er einfalt. Svarið er: Á alþjóðlegum peningamarkaði ræður orðstírinn lánakjörunum og fjármagnskostnaðinum. Þær greiðslur sem Íslendingar verða að inna af hendi, bæði fyrirtæki, einkaaðilar, sjóðir og opinberir aðilar vegna fjármálaskipta landsins, fyrirtækja og opinberra aðila við útlönd, eru háðar mati lánveitenda og alþjóðlegra matsstofnana á því hve traustur lántakandi Ísland sé.
    Því nefni ég þetta hér í upphafi, vegna þess að á einum sólarhring hefur ríkisstjórn Íslands unnið orðstír Íslands á alþjóðlegum fjármagnsmarkaði slíkan skaða að það mun taka mörg ár að vinna til baka það traust sem Ísland hefur haft. Sá kostnaður sem getur fallið á þjóðina vegna þessara vinnubragða ríkisstjórnarinnar síðasta sólarhring getur numið milljörðum. Og hann mun ekki bara falla á íslenska ríkið. Nei, hann mun falla á sérhvert íslenskt fyrirtæki sem leitar í hinu opna hagkerfi nútímans út á alþjóðlegan fjármagnsmarkað um fyrirgreiðslu, eðlilega. Halda menn virkilega í ríkisstjórn Íslands að við lifum ekki í opnum fjölmiðlaheimi? Halda menn virkilega að þegar atburðarás gærdagsins blasir við öllum að þá muni ekki fjölmiðlamenn sem starfa samkvæmt nútímavinnubrögðum senda úr í heim fréttaskeytin um að fundir hafi verið rofnir í Alþingi Íslendinga, ríkisstjórn hafi verið kvödd saman til skyndifundar kl. fjögur, þingflokkar stjórnarflokkanna til aukafundar kl. hálf sex og forsrh. boðað skyndiblaðamannafund kl. sex til að kynna sérstakar, óvæntar ráðstafanir ríkisstjórnar Íslands til að bjarga stærsta viðskiptabanka þjóðarinnar? Vita menn ekki að við lifum í opinni fjölmiðlaveröld þar sem allur heimurinn er eitt? Og allir helstu fjölmiðlar heimsins hafa hér fréttamenn og allar fjármálastofnanir, bankar, lánasjóðir, hvort sem það er í Bandaríkjunum, Bretlandi, Þýskalandi eða Japan, lesa samstundis á hinum alþjóðlegu fréttaskeytum hvað ríkisstjórn Íslands er að gera. Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., er ekki einn í heiminum. Við búum við opið lýðræðislegt fjölmiðlakerfi. Hið alþjóðlega peningakerfi er hluti af því. Hún er mikil ábyrgð þeirra manna sem á einum sólarhring hafa skaðað íslensk fyrirtæki, hafa skaðað orðstír stærsta viðskiptabanka þjóðarinnar og hafa skaðað lánstraust Íslendinga á erlendum mörkuðum með þeim hætti sem ríkisstjórn Íslands hefur gert. Það eru upphæðir sem eru í reynd mun hærri heldur en þær upphæðir sem verið er að meta hér í dag í þessu frv. Sjálfsagt munu þeir sem aðallega koma til með að greiða þetta tjón vera fyrirtækin, einkafyrirtækin, sem leita út á hinn alþjóðlega markað, íslensku fyrirtækin í sjávarútvegi og þjónustugreinum og fjármálastofnanirnar í eigu einkaaðila sem verða að greiða skaðann af fljótfærnislegum, fáránlegum og barnalegum vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar.
    Það er eðlilegt að spurt sé: Var þörf, var brýn nauðsyn? Þurfti að rjúfa fundi Alþingis? Þurfti ríkisstjórnin að koma saman til skyndifundar? Þurfti að kalla þingflokkana saman? Þurfti að gera þetta með þessum hætti? Og svarið er afdráttarlaust: Nei. Það bar enga brýna nauðsyn til að taka á þeim vanda sem hér er við að glíma með þessum hætti. Og það undrar mig, það undrar mig, að maður eins og hæstv. viðskrh., með þekkingu hans á hinni alþjóðlegu fjármagnsveröld, með reynslu hans af störfum hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðum, með samskiptum hans við hinn alþjóðlega bankaheim, skuli taka á málum með þessum hætti. Og það verður enn undarlegra þegar það hefur nú komið fram opinberlega á fundi þingnefndar Alþingis að hæstv. viðskrh. tilkynnti bankastjórum Landsbankans það í gærmorgun kl. ellefu að það stæði ekki til að grípa til neinna aðgerða næstu daga. Málið væri ekki ,,akut`` svo notað sé orðalag hæstv. viðskrh. á þeim fundi við bankastjóra Landsbankans. Menn hefðu nokkra daga til að ræða málið. Þetta hefur verið staðfest á fundi efh.- og viðskn. þingsins og í viðræðum við forustumenn bankans. Þess vegna er eðlilegt að spurt sé: Vissi hæstv. viðskrh. ekki kl. ellefu í gærmorgun að þetta stæði til eftir hádegi? Eða var hæstv. viðskrh. vísvitandi að greina bankastjórum Landsbankans ósatt frá? Hver er sannleikurinn í þessu máli? Aðeins tveimur dögum eftir að við þurfum hér á Alþingi að ræða falskar yfirlýsingar hæstv. viðskrh. um stofnun fjárfestingarbanka þar sem fram hefur komið og verið staðfest með þögn hæstv. fjmrh., að hæstv. viðskrh. hafi farið með rangt mál varðandi hinn nýja fjárfestingarbanka, blasir það nú við að bankastjórar Landsbanka Íslands urðu fyrir þeirri reynslu fyrir hádegi í gær að viðskrh. í ríkisstjórn Íslands greindi þeim

frá því að ekki stæði til að gera neitt næstu daga í málefnum bankans. Og bæði hann og bankastjórarnir hefðu góðan tíma í þessari viku til að ræða hvaða leiðir væri hægt að fara til að styrkja bankann til að valda sem minnstum skaða. Til að gera þetta með þeim hætti að bæði bankinn yrði traustari eftir og orðstír Íslands á alþjóðlegum mörkuðum biði ekki tjón. Aðeins rúmum tveimur tímum síðar tilkynnir forseti Alþingis af forsetastól að fundir þingsins verði rofnir fljótlega vegna skyndifundar í ríkisstjórninni. Hvað gerðist í þessu hádegi? Eða greindi hæstv. viðskrh. ekki rétt frá?
    Nei, málið allt er auðvitað þannig að það er nánast furðulegt að ábyrgir aðilar í ríkisstjórn Íslands skuli starfa með þessum hætti. Við skulum aðeins nefna nokkrar staðreyndir í málinu til að varpa ljósi á þá fáránlegu uppákomu sem hér hefur orðið.
    Fyrir tæpum þremur vikum var lagt fram í bankaráði Landsbankans lokauppgjör, ég legg áherslu á það, lokauppgjör bankans fyrir árið 1992. Á þeim bankaráðsfundi gerði enginn bankaráðsmaður, ekki heldur formaður bankaráðsins, Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstfl. og sérstakur trúnaðarráðgjafi forsrh., eina einustu athugasemd við þetta lokauppgjör Landsbankans fyrir árið 1992. Og hverjar voru tölurnar í þessu lokauppgjöri? Voru þær þannig að Landsbankinn stæðist ekki BIS-reglurnar? Nei, þvert á móti. Landsbankinn stóðst BIS-reglurnar samkvæmt þessu lokauppgjöri fyrir árið 1992. Það var eigin þörf á að grípa til skyndiaðgerða til að láta bankann standast BIS-reglurnar og er það þó sér kapítuli eins og hv. þm. Steingrímur Hermannsson rakti með réttu hér áðan að þessar BIS-reglur eru auðvitað hvað snertir íslenskan atvinnuvegabanka svo fáránlegar að það er fullkomlegt álitamál hvort það sé eðlilegt að við förum eftir þeim. Hverjar voru tölurnar úr ársreikningi Landsbankans fyrir árið 1992? Þær voru þessar:
    Í afskriftasjóð bankans átti að leggja 1.500 millj. kr. þannig að afskriftasjóðurinn nam samtals 2,8 milljörðum. Eiginfjárstaða bankans var 6 milljarðar kr., lausafjárstaða bankans hafði ekki í áraraðir verið betri og bankinn var svo vel staddur að hann greiddi ekki krónu í refsivexti til Seðlabankans og er þó leitun langt aftur í tímann þar til menn finna það ástand að Landsbankinn þurfi ekki að greiða refsivexti til Seðlabankans og BIS-hlutfallið var að minnsta kosti 8,3% jafnvel 8,4% eða 8,5%, eftir því hvernig á það var litið, alla vega örugglega vel yfir þeim 8% mörkum sem áskilið er. Þar að auki bættist það við að í þessu reikningsuppgjöri var bankinn búinn að nýta sér allar þær skattaheimildir sem hann hefur til að færa hagnað til hliðar, þannig að fyrir skatta var hagnaður bankans eins og hér hefur komið fram 1,8 milljarðar kr. Og á síðustu tveimur árum, 1991 og 1992, hefur staða bankans verið með þeim hætti að hann hefur samtals skilað sjálfstæðri fjármunamyndun af þessu tagi að upphæð tæpir 4 milljarðar. Er þetta peningastofnun sem er þannig stödd að það þurfi að rjúfa fund í Alþingi, halda neyðarfund í ríkisstjórn og kalla þingflokka saman til að geta á einum sólarhring snúið einhverri þróun við? Nei, auðvitað ekki.
    Þess vegna hefur maður auðvitað mikla samúð með því að eitt aðalatriðið sem hæstv. viðskrh. sagði hér áðan var að biðja þingið um að tala ekki mikið um málið, tala ekki mikið um málið. Það væri afar mikilvægt að ræða málið ekki mikið. Helst bara hætta þessu á þessum sólarhring og gleyma því svo. Og hæstv. fjmrh., sem óvænt kvaddi sér hér hljóðs og ég hélt nú satt að segja að þá ætlaði hæstv. fjmrh. að fara að flytja hér sérstaka ræðu um áhrif þessara aðgerða á ríkisfjármálin, stöðu ríkissjóðs og horfurnar í þeim málum á þessu ári, nei, það var nú ekki. Það var ekki nema fáeinar setningar sem komu fram hjá hæstv. fjmrh. um það. Sagði hann þá eitthvað um efnisþátt málsins? Nei, nánast ekki neitt. Málið er meira að segja svo fáránlegt að hæstv. fjmrh. sagði það hér í ræðustólnum áðan að hann vissi það ekki, hann vissi það ekki núna, hvort þessir 2 milljarðar til Landsbankans yrðu í formi greiðslu eða í formi ríkisskuldabréfs, það væri sem sagt alls ekki búið að ákveða það hvernig eða hvenær eða með hvaða hætti Landsbankinn ætti að fá þessa greiðslu. Eða með öðrum orðum hæstv. fjmrh. er að opna á það að Landsbankinn fái ekki í reynd krónu, ekki eina einustu krónu frá ríkissjóði inn í bankann, heldur fái hann bara ríkisskuldabréfapappír sem hann getur bókfært í bankanum án þess að ein einasta ný króna komi inn í bankann. Þá getur hæstv. fjmrh. áfram bókað ríkissjóð þannig að það eru engin bein útgjöld á þessu ári og innan Landsbankans verður hægt að bókfæra eigið fé með tilteknum hætti. Ef málið var svona brýnt, svona nauðsynlegt, og helst þarf að afgreiða það á þessum sólarhring, er þá ekki tími til kominn að hæstv. fjmrh. fari að gera það upp við sig hvernig hann ætlar að láta bankann fá þessa greiðslu. Því væntanlega er það það sem skiptir máli, hæstv. ráðherra.
    Nei, hæstv. fjmrh. var ekki að fjalla um ríkisfjármálin hér. Það var eiginlega bara tvennt sem hann sagði. Annað var það að hann lagði líka áherslu á það að þingið mætti helst ekki tala mikið um málið. Og hann var að ýja að því að helst hefði nú verið samið um það milli flokkanna að lítið yrði talað um málið. Hann lagði sérstaka áherslu á að rætt hefði verið við hv. þm. Steingrím Hermannsson um að lítið hefði verið talað um málið. Og lítið yrði talað um málið. Svo kom auðvitað það sem var aðalerindi hæstv. fjmrh. hér upp í ræðustólinn. Það var mjög skýrt. Það minnir á barnaþuluna þar sem sérstaklega er greint frá því að einn tiltekinn aðili fái það hlutverk að hlaupa heim og segja sannleikann. Hæstv. fjmrh. sagði það nefnilega sérstaklega . . .  ( Heilbrrh.: Ekki að segja sannleikann, heldur: ,,kjaftaði öllu frá``, segir í þulunni). Hæstv. heilbrrh. fer hér úr sæti sínu með hið rétta form þulunnar sem ég af kurteisi við hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnina kaus að hafa ekki yfir. En hæstv. heilbrrh. þekkir auðvitað allan gang málsins og vissi þess vegna það sem segir í barnaþulunni um lillaputta sem hljóp heim og kjaftaði frá. Það er auðvitað það rétta í málinu því hæstv. fjmrh. kom hér og sagði: Þessi aðgerð verður þess vegna til þess að ríkisstjórnin hefur enga möguleika til að koma til móts við þá aðila sem eru að biðja hér um fjármagn í framkvæmdir og

atvinnuskapandi tækifæri eða eru að biðja hér um skattabreytingar til tekjujöfnunar. Eða með öðrum orðum: Leikritið í gær hefur leitt til þess að hæstv. fjmrh. kemur hér á Alþingi og tilkynnir verkalýðshreyfingunni og ASÍ: Því miður, því miður, það eru engir peningar til í atvinnuskapandi tækifæri, engir peningar til að ráða bót á atvinnuleysinu, engir peningar til að draga úr ójöfnuðinum í landinu og leiðrétta verðlagningu á matvælum því það hafa allir peningarnir farið í Landsbankann. En þó ætlar þessi sami ráðherra ekki að láta eina einustu krónu væntanlega í Landsbankann á þessu ári heldur bara láta Landsbankann fá kvittun frá ríkinu um að það megi bókfæra í bókhaldi Landsbankans tiltekna 2 milljarða. En þessi kvittun sem verður bókfærð hjá Landsbankanum á að duga til þess að segja nei við Benedikt Davíðsson, nei við Ögmund Jónasson, nei við Svanhildi Kaaber, nei við þúsundirnar sem eru í ASÍ, nei við þúsundirnar sem eru í BSRB, nei við þúsundirnar sem eru í Kennarasambandinu. Og síðan auðvitað nei við hina atvinnulausu um möguleika ríkisstjórnarinnar til að ráða bót á atvinnuleysinu. Þetta var hið eina efnislega innlegg hæstv. fjmrh. í þessum umræðum. Það var að tilkynna það skýrt í ræðustól á Alþingi að því miður vegna þessa frv. yrðu engir peningar til til að leggja inn í aðgerðir gegn atvinnuleysi, til að koma til móts við verkalýðshreyfinguna eða launafólkið í landinu.
    Og það verður að segjast eins og er að frá leikrænu sjónarmiði verðskuldar ríkisstjórnin dálítið háa einkunn fyrir að fara þessar krókaleiðir til að geta í einu frv. komið því þannig fyrir að það verði ekki látin króna úr ríkissjóð í Landsbankann, ekki ein einasta króna, og um leið verði hægt að segja nei við verkalýðhreyfinguna. Svo er ætlast til að við hér á Alþingi bara tölum ekki um málið. Og hæstv. fjmrh. var að búa sig undir að þeir sem leyfðu sér að tala um málið væru að stunda málþóf og helst vinna gegn þjóðarhag og ég veit ekki hvað annað af verra. Nei, þetta er bara rétt að byrja, hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh., vegna þess að þær spurningar sem þið þurfið að veita svör við eru svo margar og knýjandi að það verður ekki gert hér á einum sólarhring.
    Frv. sjálft er að minnstu leyti um Landsbankann. Það er í hæsta lagi tvær greinar í þessu frv. sem hægt er að tengja Landsbankanum. Allar aðrar greinar frv. eru um Tryggingarsjóð viðskiptabankanna. Hvaða fyrirbæri er það: Tryggingarsjóður viðskiptabankanna? Jú, það er einn af þessum óþekktu sjóðum inni í kerfinu þar sem þrír valinkunnir menn geta heimilað viðskrh. með einu bréfi á kontórnum hjá sér að setja nokkra milljarða úr opinberum sjóðum inn í viðskiptabanka án þess að þurfa að ræða það hér á Alþingi. Og í frv. kemur fram að það eru ekki þessir 2 milljarðar til Landsbankans sem eru hæsta talan í frv., nei ekki aldeilis. Hæsta talan í frv. eru 3 milljarðar að láni með ríkisábyrgð fyrir Tryggingarsjóð viðskiptabanka. Hvað á Tryggingarsjóður viðskiptabankanna að gera við 3 milljarða lán sem hann fær með ríkisábyrgð þannig að ef það tapast allt þá borga skattgreiðendur, þá borgum við, þjóðin öll, ASÍ og BSRB og Kennarasambandið, sjómennirnir, bændurnir borga þessa 3 milljarða? Það er veruleikinn á bak við orðið ríkisábyrgð. Jú, 1 milljarður af því á að fara í Landsbankann. Bara einn. Hvert eiga hinir 2 milljarðarnir að fara? Það eru þrír viðskiptabankar í landinu. Búnaðarbankinn stendur vel eins og allir vita. Hann þarf ekki á neinu slíku að halda. Þá er bara eftir einn, Íslandsbanki, einkabankinn, eitt af óskafyrirtækjum fjölskyldnanna 14, kjarnapunkturinn í valdakerfi þeirrar fyrirtækjasamsteypu sem stundum hefur verið kennd við kolkrabbann. Eitt af höfuðtáknum þess hóps sem aðallega gerði Davíð Oddsson, hæstv. forsrh., að formanni Sjálfstfl. Það er vitað að Íslandsbanki á í ýmsum erfiðleikum. Jú, jú, bankastjóri bankans hefur komið fram og sagt opinberlega: Ja, bankinn mun skila góðri útkomu á árinu 1992, það er vissulega ánægjulegt en það vita líka allir að ýmsir af stærstu viðskiptavinum bankans, ég nefni nú bara Hagvirki, eiga í miklum erfiðleikum svo vægt sé til orða tekið. Hver er staða Íslandsbanka ef Hagvirki fer með þeim hætti sem margir óttast eða fjölmörg önnur verktakafyrirtæki sem eru í viðskiptum við bankann? Eða stóru frystihúsin eða fiskvinnslufyrirtækin í Vestmannaeyjum?
    Það vita auðvitað allir að í Íslandsbanka eru slíkir erfiðleikar að það væri mjög fróðlegt að sjá sams konar mat á Íslandsbanka og endurskoðandi, Árni Tómasson, hefur skilað Landsbankanum. Sú skýrsla sem liggur á bak við töluna 4,5. Það væri mjög fróðlegt að sjá sams konar mat á Íslandsbanka. En það hefur ekki verið lagt fram. Engu að síður er þetta frv. samið þannig að ef það verður samþykkt hér á Alþingi, m.a. með atkvæði hv. þm. Gunnlaugs Stefánssonar og hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, þá getur hæstv. viðskrh. Jón Sigurðsson fært á fimm mínútum 2 milljarða af almannafé í Íslandsbankann án þess að spyrja Alþingi að því. Eitt af því sem felst í þessu frv. er óbein uppáskrift Alþingis um að viðskrh. geti fært Íslandsbanka sem víkjandi lán 2 milljarða á ábyrgð skattgreiðenda í landinu. Kóróna einkavæðingarinnar, Íslandsbanki, á þannig samkvæmt þessu frv. að eiga rétt á aðgangi að þessum tveimur milljörðum. Því er látið fullkomlega ósvarað hvort það verður notað eða ekki en heimildin er þar.
    Við þekkjum auðvitað öll þessa einkavæðingarsögu. Við þekkjum valdabaráttuna sem er búin að eiga sér stað í Alþfl. um að breyta Landsbankanum og Búnaðarbanka í hlutafjárbanka. Við þekkjum öll útreiðina sem hæstv. viðskrh. hefur orðið fyrir. Við þekkjum öll að hæstv. fjmrh. hefur reiknað 1 milljarð í tekjur af sölu Búnaðarbankans inn í fjárlög þessa árs. Við þekkjum öll átökin sem hafa verið síðustu mánuði um það hvort það ætti að hrinda þessari stefnu í framkvæmd.
    Auðvitað þarf ekki mikla stjórnmálavisku til að átta sig á því að ef á næstu vikum þyrfti að koma til Alþingis og biðja um 2 milljarða ríkisábyrgð fyrir Íslandsbanka þá væri auðvitað allt einkavæðingarprógramm ríkisstjórnarinnar gagnvart Landsbanka og Búnaðarbanka búið. ( GunnS: Það er búið.) Það er búið, segir hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson. Það segir ekki hæstv. viðskrh. en það er út af fyrir sig ekki

nýtt að hv. þm. Gunnlaug Stefánsson og hæstv. viðskrh. greini á um þetta efni. Það þekkjum við öll sem höfum hlustað á þá í þingsalnum og utan þingsalarins í heilt ár. Engu að síður ætlar hv. þm. Gunnlaugur Stefánsson að heimila viðskrh. samkvæmt þessu frv. að færa af peningum Austfirðinga og annarra Íslendinga allt að 2 milljörðum inn í Íslandsbanka af því að við öll í þessum sal vitum að hæstv. viðskrh. og hæstv. forsrh. Davíð Oddsson, Sjálfstfl. og einkavæðingararmurinn í Alþfl. geta bókstaflega ekki fengið sig til þess að þurfa að koma inn í þingsalinn og biðja beint um ríkisábyrgð fyrir Íslandsbanka vegna þess að pólitísku afleiðingarnar yrðu auðvitað með þeim hætti fyrir hæstv. ríkisstjórn, fyrir Sjálfstfl., fyrir Davíð Oddsson og fyrir Jón Sigurðsson að það þyrfti ekki glöggskyggnan mann til að sjá hvers konar gengisfall það yrði. Þess vegna er meginhluti greinanna í þessu frv. ekki um Landsbankann, bara alls ekki um Landsbankann. Meginhluti greinanna í þessu frv. eru breytingar á Tryggingarsjóði viðskiptabanka og heimildir fyrir hann til þess að taka 3 milljarða lán með ríkisábyrgð til þess að hafa það opið fyrir hæstv. viðskrh. að geta fyrir hádegi sett 2 milljarða frá almenningi í landinu inn í Íslandsbanka.
    Virðulegi forseti. Auðvitað er hægt að færa fyrir því ýmis rök að staða Landsbankans gæti verið sterkari þegar til lengdar væri litið. Þó er það nú þannig að þegar verið er að tala um þessa 4,5 milljarða þá er það ekki eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að Landsbankinn hafi tapað þessum 4,5 milljörðum. Það er auðvitað mjög mikilvægt að leiðrétta þann misskilning að Landsbankinn hafi tapað eða sé að tapa þessum 4,5 milljörðum.
    Í ágústmánuði í fyrra skiluðu Árni Tómasson og fleiri, sömu endurskoðendur og skiluðu skýrslu núna í mars, skýrslu til Landsbankans þar sem þeir fóru fögrum orðum um það hvað staða Landsbankans færi batnandi og hældu bankanum fyrir það fyrir aðeins rúmum fjórum mánuðum að staða bankans væri með þeim hætti að í raun og veru ætti bankastjórnin skilið marga plúsa fyrir framgönguna. Fjórum mánuðum síðar eða 10. mars koma þessir sömu endurskoðendur og segja: Við höfum farið í gegnum útlán bankans og við höfum reynt að meta eftir bestu getu hvort bankinn kynni hugsanlega í framtíðinni að tapa einhverju af þessu fé og þess vegna sé rétt að afskrifa það með ákveðum hætti. Í fjölmiðlum hefur verið sagt að þarna sjái menn hvað refaræktin, ullariðnaðurinn, rækjuvinnslan og fiskeldið hafi verið þjóðinni dýr. En hverjar eru tölurnar í skýrslunni frá 10. mars? Er það þannig að það sé stórkostlegt tap vegna loðdýraræktar inni í þessari tölu? Svarið er nei. Af þessu 4,5 milljarða mati eru 100 millj. vegna loðdýraræktar, ekki meira. Það eru 300 millj. vegna rækjufyrirtækjanna sem allir vita að hafa staðið mjög illa og vegna ullariðnaðarins sem hefur upplifað samfellda hörmungarsögu eru bara 200 millj. og hjá fiskeldinu 800. Eða með öðrum orðum, aðeins 1,1 milljarður af þessu mati á 4,5 milljörðum er tengdur fiskeldinu, rækjufyrirtækjunum, loðdýraræktinni og ullariðnaðinum. Hitt er mat þessara endurskoðenda hvað hugsanlega kynni að gerast hjá Pétri og Páli og alls konar fyrirtækjum sem kannski kunna að tapa þessu fé gagnvart bankanum ef stefnan í efnahagsmálum á næstu missirum verður með þeim hætti sem hún hefur verið undanfarna mánuði. Með öðrum orðum, þessir 4,5 milljarðar, sem ég legg aftur áherslu á að er mat, er auðvitað yfirlýsing um það að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar muni ekki takast að snúa efnahagsmálum Íslendinga við og vegna þess að engar horfur séu á því að dómi þessara endurskoðenda að ríkisstjórninni takist það þá verði Landsbankinn að búa sig undir það að sams konar ófarnaður og ríkt hefur síðustu fjóra mánuði muni ríkja áfram. Svo kemur þessi sama ríkisstjórn sem fær svona vantraustsyfirlýsingu í þessari skýrslu og segir við Alþingi: Fyrir alla muni, við skulum gæðastimpla þessa skýrslu.
    Mér hefur verið tjáð að á þessum lista sé að finna hina furðulegustu hluti. Þar sé að finna t.d. yfir 150 aðila, einstaklinga og fyrirtæki sem þessir endurskoðendur telja að bankinn muni tapa á 1 millj. á hverjum, 2 millj., 3 og 4. Með öðrum orðum, að í þessari skrá sé aragrúi af smáum upphæðum þar sem samtals yfir 150 aðilar eru með 6 millj. eða minna, t.d. einhvers staðar á milli 20 og 30 aðilar sem metið er að bankinn muni tapa um 1 millj. kr. á. Svo að ég taki bara eitt dæmi þá sé ég í skýrslunni mat á því að það glæsilega hús fyrrv. fyrirtækis Bílaborgar, sem Landsbankinn tók upp í veð --- og er rétt hjá Stöð 2 og er auðvelt að mynda --- og metið er í reikningunum upp á 160 millj. þá er lagt til að bankinn afskrifi nú þegar 100 millj. af þessu húsi þannig að í reynd sé það ekki nema um 60 millj. kr. virði. Það vita auðvitað allir að það að fara að stimpla það nú að Landsbankinn muni ekki fá nema 60 millj. fyrir þetta glæsilega hús Bílaborgar er auðvitað út í hött. ( Fjmrh.: En Þjóðviljinn?) Hann er ekki á þessari skrá, hæstv. fjmrh., eftir því sem mér hefur verið sagt. En það er auðvitað athyglisvert að hæstv. fjmrh. skuli vera að spyrja út í þetta hér vegna þess að ég hélt að hann hefði kynnt sér þetta. Ef undirbúningur fjmrh. Íslands er þannig að hann veit ekki hvers konar bakgrunnur er þarna fyrir hendi, hvaða mat liggur á bak við þessa endurskoðendaskýrslu, og veit heldur ekki í hvaða formi hann ætlar að hafa þessa greiðslu þá hefði verið skynsamlegra hjá ráðherranum að biðja ekki um orðið hérna áðan.
    Auðvitað má geta sér til að það sé ýmislegt fleira forvitnilegt í þessari skrá, en ekki er hægt að birta hana opinberlega vegna þess að þar eiga í hlut einstaklingar og fyrirtæki. En það sem er auðvitað stóra fréttin í því er að það eru ekki stóru sjávarútvegsfyrirtækin sem þarna er um að ræða. Það er ekki loðdýraræktin, rækjuvinnslan og ullariðnaðurinn sem þarna er um að ræða. Það er allt annað flókið og margbrotið mat það sem tínt er til sitt úr hverri áttinni. Og þetta er það eina sem hefur í raun og veru gerst frá því að allir í bankaráði Landsbankans fyrir tæpum þremur vikum voru þeirrar skoðunar að gera ætti upp bankann fyrir árið 1992 og eiginfjárstaðan væri 6 milljarðar, í afskriftareikning gefa þeir 2,8 milljarða og BIS-hlutfallið væru töluvert yfir 8%.

    Var þá ekki hægt að fara aðrar leiðir, hæstv. viðskrh.? Jú, það var nefnilega hægt að fara aðrar leiðir, hæstv. viðskrh. Leiðir sem hefðu ekki skapað þetta írafár, hefðu ekki orðið tilefni til fréttaskeytanna til hinna erlendu peningamarkaða, hefðu ekki skapað þessa óvissu um Landsbankann og hefðu ekki leitt til þess að yfirmaður bankaeftirlitsins á Íslandi dæmir vinnubrögð ríkisstjórnarinnar skrípaleik. Æðsti embættismaður bankaeftirlitsins á Íslandi hefur dæmt vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í gær skrípaleik. Ég veit af viðtölum við fjölda forustumanna í íslensku bankakerfi að þeir eru sömu skoðunar. Þeir eru gersamlega gáttaðir á vinnubrögðum ríkisstjórnar Íslands í málinu. Þeir hvorki skilja né geta skýrt hvað vakir fyrir mönnum sem meðhöndla viðkvæma þætti í peningakerfi þjóða með þessum hætti af því að það lá fyrir að það var hægt að fara aðrar leiðir.
    Innan Landsbankans sjálfs hafði verið gert ráð fyrir því að á sama hátt og á síðasta ári voru lagðar 100 millj. á mánuði í afskriftareikning, yrðu á þessu ári lagðar 150 millj. á mánuði í afskriftareikning. Ég vek athygli hv. þm. á því að ef því yrði fylgt þá væri aðeins með aðgerðum Landsbankans sjálfs án nokkurs utanaðkomandi sjónleiks eða flugeldasýningar búið eftir 9 mánuði að koma því þannig fyrir að til viðbótar við 2,8 milljarðana sem eru í afskriftareikningnum við árslok hefðu bæst 1,5--1,7 milljarðar á þessu ári þannig að eftir 9 mánuði væri Landsbankinn af eigin ramleik kominn upp í þessa 4 milljarða sem talað er um. Auðvitað lá það ljóst fyrir að bankinn hafði hug á því að fara þá leið, m.a. vegna þess að bankinn vildi gera þetta skynsamlega og örugglega, án truflana. En það pólitíska leikrit passaði ekki sem ríkisstjórnin virtist þurfa að leika gagnvart verkalýðshreyfingunni og öðrum aðilum í landinu. Það var hægt að gera fleira. Það var hægt að selja ýmsar eignir Landsbankans eins og hæstv. ríkisstjórn hefur lagt til hjá ýmsum aðilum þannig að bankinn hagræddi eins og önnur fyrirtæki með því að selja eignir og fá þannig inn viðbótarfé. Fleira var hægt að gera. Það var hægt að breyta eignarhaldinu í leynd og lýsingu sem eru bókfærð með ákveðnum hætti vegna samstarfsins við aðra banka þannig að það yrði metið á annan veg. Ef hæstv. viðskrh. hefði haft vit og vilja til þess að taka upp viðræður við Seðlabanka Íslands um það mál sem er auðvitað kjarnaatriðið í þessu máli, að þótt einhverjum kontóristum úti í heimi --- og ég legg áherslu á það vegna þess að BIS-reglurnar eru bara ættaðar frá kontóristum úti í heimi sem þekkja ekki íslenskan sjávarútveg --- detti það í hug að það eigi að meta afurðalán sem eru á bak við afurðir sem selja á eftir um tvær vikur öruggum kaupanda sem keypt hefur viðkomandi afurðir í 20 ár og alltaf staðið í skilum þá skuli það metið sem 100% áhætta. Og glæsilegu fiskveiðiskipin, sem við Íslendingar eigum, með kannski 500, 600, 700 eða þúsund tonn í kvóta á bak við hvert skip séu metin sem 100% áhætta. Auðvitað er alveg ljóst að slíkar reglur eru á engan hátt skynsamlegar til þess að kveða upp dóm yfir stöðu stærsta viðskiptabanka Íslendinga.
    Hver er sagan á bak við BIS-reglurnar? Það væri fróðlegt fyrir hv. alþm. og íslensku þjóðina að gera sér grein fyrir því. Ég skal hins vegar segja fyrst að ég tel alveg nauðsynlegt að vera með alþjóðlegar matsreglur. Ég beitti mér fyrir því þegar ég var fjmrh. að Ísland væri metið samkvæmt alþjóðlegum matsreglum. En það verður auðvitað að vera skynsemi og sveigjanleiki sem tekur tillit til veruleikans. Hverjir voru upphafsmennirnir að þessu máli? Það voru Bandaríkjamenn sem voru í glímu við fjármálastofnanir Japana, banka og tryggingafélög og hið mikla offramboð af peningum sem er í japanska hagkerfinu. Út frá hagsmunum Bandaríkjanna í hinu alþjóðlega viðskiptakerfi töldu Bandaríkin þannig skynsamlegt að búa til alþjóðlegar matsreglur sem settu Japönum stólinn fyrir dyrnar. Auðvitað var það þannig að Japanir sáu við þeim og þess vegna hefur Japan ekki liðið neitt fyrir þessar BIS-reglur. En það er hins vegar þannig ef menn framkvæma þær samkvæmt bókstafnum að sjávarútvegurinn á Íslandi er 100% áhætta. Lífsakkeri íslensku þjóðarinnar, tilverugrundvöllur okkar framtíðar og fortíðar um aldir, tekjur 70% útflutnings okkar, er 100% áhætta.
    Hvað gera Frakkar? Frakkar eru auðvitað miklir kerfiskarlar eins og allir vita. En Frakkar kunna líka að snúa hlutunum sér í hag. Franskir bankar hafa lánað mikið til nýlendnanna, Afríkuríkjanna, sumra fátækustu ríkja í heimi sem allir vita að eru þannig stödd efnahagslega að þau eru nánast á alþjóðlegu framfæri. En Frakkar hafa hins vegar komist upp með það samkvæmt alþjóðlegu BIS-reglunum að meta lánin til þessara fátæku afrísku ríkja, sem eru nánast á alþjóðlegu framfæri, sem öruggari en afurðalánin hjá íslenskum sjávarútvegi og lánin til togaranna sem eru kannski með 1000 tonna kvóta á bak við sig. Eigum við virkilega, hæstv. viðskrh., að fara að snúast eins og skopparakringlur hér á Íslandi, búa til neyðarfund í ríkisstjórn, krefjast þess að Alþingi afgreiði neyðarfrv. á einum sólarhring bara af því að kontóristarnir í Seðlabankanum eru ekki tilbúnir að sýna sams konar sveigjanleika varðandi túlkun BIS-reglnanna og t.d. Frakkar leyfa sér? Hvers konar er þetta eiginlega? Það hefur verið upplýst að séu lánin til öruggra fjárfestinga í sjávarútvegi og sjálfra afurðanna sem eru með örugga kaupendur metin eðlilega þá sé eiginfjárstaða Landsbankans nú í dag gagnvart BIS-reglunum kannski 9,5%. Öll þjóðin hlustaði á bankastjóra Íslandsbanka segja það í fjölmiðlunum í dag að Íslandsbanki þyrfti enga aðstoð vegna þess að samkvæmt BIS-reglunum væri hann með tæp 10%. Með öðrum orðum, sé skynsemin látin ráða af útlánum Landsbankans til sjávarútvegsins þá stendur hann alveg eins og Íslandsbanki þar sem bankastjórinn segir: Það þarf ekki að gera neitt. Ef Landsbankinn hins vegar starfar rökrétt og BIS-reglunum er ekki breytt þá hlýtur bankinn auðvitað að draga úr lánum til sjávarútvegsins, draga verulega úr afurðalánum og fara að flytja sig eins og Búnaðarbankinn yfir í íbúðarhúsnæði og ýmislegt annað. Þjónar það þjóðarhag? Auðvitað ekki. Hver á þá að fjármagna afurðalánin? Á einhver banki að taka það að sér og láta BIS-hlutfallið þar með falla?

Nei, auðvitað ekki. Málið er auðvitað þannig vaxið að væri hér við völd ríkisstjórn sem hefði vit, rólegheit, skynsemi og yfirvegun til þess að taka á vandamálunum eins og þau koma fyrir þá hefði ekkert upphlaup orðið hér í gær. Þá sætu menn ekki úti í alþjóðlegum fjármálastofnunum og væru að velta því fyrir sér hvernig þeir ættu að skrúfa niður öryggismatið á Íslandi. Þá hefði verið tekið á þessu máli annars vegar með því að fara þær leiðir sem ég hef nefnt og hins vegar með því að komast að niðurstöðu um skynsamlegan þátt sjávarútvegslánanna í hinum alþjóðlegu BIS-reglum. Þegar það væri búið væri hægt að skoða það hvort og þá hve mikið Landsbankinn þyrfti í sérstökum aðgerðum.
    Auðvitað munu forráðamenn Landsbankans fagna þessu framtaki. Að sjálfsögðu fagna þeir því. Það styrkir eiginfjárstöðu bankans. En við erum þegar farin að heyra bankastjóra Íslandsbanka segja: Það verður að jafna samkeppnisstöðuna. Ætli það sé ekki upptakturinn að því að Íslandsbanki komi innan tíðar og segi: Ja, við verðum að fá það sama. Að vísu stöndum við kannski ekki illa en bara út af samkeppnisstöðunni verðum við að fá það sama. Eða með öðrum orðum: Þetta frv. heimili viðskrh. með einu bréfi að hefja ríkisstyrki til Íslandsbanka. Er það virkilega ætlun ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að biðja Alþingi Íslendinga um að heimila sér að hefja ríkisstyrki til einkabankans því að um það er þetta frv. að meginhluta? Er það niðurstaðan af öllu einkavæðingartalinu að biðja Alþingi um heimildir til að setja ríkisstyrki inn í einkabankann? Ég vænti þess að hæstv. viðskrh. verði til viðræðu um að taka þetta ákvæði út úr frv. til að það liggi alveg ljóst fyrir að hann muni ekki ætla sér og hefur ekki til þess lagaheimild að veita einkabankanum Íslandsbanka ríkisstyrki án þess að spyrja Alþingi. Það væri hægt t.d. með því að taka þessar greinar úr frv. út fyrst ríkisstjórnin segir sjálf að málið snúist eingöngu um Landsbankann. Eða þá að skilyrða það þannig að ekki megi veita meira en t.d. 100 millj. úr Tryggingarsjóði viðskiptabanka til eins og sama bankans án heimildar Alþingis. Þá væri a.m.k. tryggt að hæstv. viðskrh. verður að koma til Alþingis ef hann ætlar að ríkisstyrkja einkabanka.
    Nei, virðulegur forseti. Þetta mál er einfaldlega þannig vaxið að það vekur satt að segja upp miklu fleiri spurningar en það svarar. Hef ég þó ekki vikið að öllu sem er sérkennilegt í þessu máli. Ég verð að segja alveg eins og er að mér fannst ekki við hæfi að Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðandi, sem á að vera sjálfstæður embættismaður, ábyrgur gagnvart Alþingi en ekki framkvæmdarvaldinu, sjáist í sjónvarpinu sitja á skyrtunni uppi á efri hæðinni í forsrn. við að semja þetta frv. ásamt embættismönnum forsrh. og viðskrh. Það er ekki hlutverk hæstv. ríkisendurskoðanda að sitja uppi í Stjórnarráði og semja frv. fyrir ríkisstjórnina. Ríkisendurskoðun er sjálfstætt embætti. Ríkisendurskoðandi er ekki háður framkvæmdarvaldinu og hann er eingöngu undir Alþingi. Og ég spyr: Heimilaði forseti Alþingis að ríkisendurskoðandi, Sigurður Þórðarson, væri kallaður upp í Stjórnarráðið til að setjast eins og hver annar vinnumaður hjá ríkisstjórn Davíðs Oddssonar? Ég tel að framkvæmdarvald geti ekki kallað ríkisendurskoðanda þannig til vinnu af því tagi nema með formlegu samþykki forseta Alþingis af því að það er grundvallarþátturinn í þeirri skipan sem við erum með að Ríkisendurskoðun var gerð óháð framkvæmdarvaldinu með því að flytja hana undir Alþingi og gera forseta þingsins að yfirmönnum hennar. Þetta er bara ein spuning af mörgum sem er ósvarað í þessu sérkennilega máli.
    Auðvitað mætti líka ræða sérstaklega hina sérkennilegu uppsetningu ríkissjónvarpsins á þessu máli í gær, sjónvarpið sem kannski sumir í léttu tali eru farnir að kalla ríkisstjórnarsjónvarpið. Það var auðvitað stórkostlegt hugmyndaflug hjá fréttastjóra ríkissjónvarpsins að kalla þá í beina útsendingu og láta þá sitja þar félagana, hæstv. forsrh. og nánasta ráðgjafa hans Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóra Sjálfstfl., formann bankaráðs Landsbankans og láta þá sitja þar í 20 mínútur og gefa komment. Meira að segja var hugmyndaflugið svo stórkostlegt að síðan voru filmuð viðtöl við flokksbræður þeirra, hæstv. fjmrh. og formann þingflokks Sjálfstfl. Geir H. Haarde og síðan Kjartan Gunnarsson og hæstv. forsrh. látnir kommentera á Friðrik Sophusson og Geir H. Haarde í settinu. Hvílík fréttamennska, hvílík fréttamennska. Að búa við þetta árið 1993 að fjölmiðill sem vill láta taka sig alvarlega starfi með þessum hætti. Við skulum vona að þetta hafi bara verið eitt af fáum slysum sem hendi á fréttastofu sjónvarpsins. Vegna þess að ríkisstjórnin var búin að búa til þessa panik með neyðarfundinum, með því að slíta fundi Alþingis með hinum sérstaka blaðamannafundi þá hlaut fréttastjóri ríkissjónvarpsins að álykta sem svo að hér væri eitthvað stórt á ferðinni og þess vegna kallaði hann þá fóstbræður í settið og lét þá vera þar í 20 mínútur til að gefa komment á Friðrik Sophusson og Geir H. Haarde.
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram að hæstv. forsrh. hafi kallað á hv. þm. Steingrím Hermannsson kl. eitt í gær til að greina honum frá þessu máli. Ekki ætla ég að gagnrýna það. En það er a.m.k. mjög sérkennilegt að kalla ekki fulltrúa hinna flokkanna á Alþingi sem ekki styðja ríkisstjórnina til fundar til að greina þeim frá málinu. Það er líka sérkennilegt vegna þess að þá, kl. eitt, voru ekki liðnir nema einn og hálfur klukkutími frá því að hæstv. viðskrh. fullvissaði bankastjóra Landsbankans um að ekki stæði til að gera neitt í málinu næstu daga. Tímasetningar og viðtöl og aðgerðir ráðherranna á þessum sólarhring eru auðvitað þannig að það er satt að segja stórfurðulegt að menn sem valdir hafa verið til forustu í íslensku þjóðfélagi skuli haga sér á þennan hátt. Svo kemur hæstv. fjmrh. og segir í gær að það sé e.t.v. nauðsynlegt að setja tilsjónarmenn með bankanum, banka þar sem Sjálfstfl. valdi einn af sínum áhrifamönnum sem bankastjóra fyrir nokkrum árum, Sverri Hermannsson. Þar sem Sjálfstfl. hefur farið með formennskuna í bankaráðinu í reynd núna í rúmt ár þá kemur ráðherra Sjálfstfl. og segir: Nú verðum við að setja tilsjónarmann inn í bankann vegna þess að eftir að okkar bankastjóri kom í bankann og eftir að okkar maður varð formaður bankaráðsins þá hefur þetta allt farið á þennan verri veg. Það verður satt að segja mjög gaman að fylgjast með þeirri glímu hvort ráðherrar Sjálfstfl. setja tilsjónarmenn á bankastjóra Sjálfstfl. og starfandi formann bankaráðsins, framkvæmdastjóra Sjálfstfl. Þá ætlum við hinir að vera á áhorfendapöllunum þegar Sjálfstfl. fer að skipa þannig tilsjónarmenn með sjálfum sér. Svo leyfir hæstv. forsrh. sér að koma og tala um það eins og þetta mál komi bara Sjálfstfl. ekkert við, það séu bara einhverjir aðrir sem beri aðalábyrgð á málinu. Einhverjir svokallaðir pólitískir aðilar sem séu auðvitað utan og ofan við Sjálfstfl. í málinu. Ef þessi ,,krísa`` er búin til af einhverjum stjórnmálaöflum á Íslandi þá er hún auðvitað búin til af Sjálfstfl.
    Virðulegur forseti. Það sem ég hef rakið sýnir auðvitað að málið er allt þannig vaxið að Alþingi hlýtur að gefa sér þann tíma sem þarf til að skoða það og til þess að menn geti samið brtt. við það frv. sem hér liggur fyrir og til þess að þingmenn sem greinilega höfðu enga hugmynd um málið í gær, a.m.k. ekki þingmenn stjórnarflokkanna sem voru boðaðir í skyndingu til þingflokksfundar upp úr klukkan tvö í gær, hafi tíma til að átta sig á því sem hér er raunverulega að gerast. Auðvitað er það ekki ætlun okkar að tefja fyrir málinu. En ráðherrunum verður ekki að ósk sinni að þetta feimnismál, þetta afglapamál, fari í gegnum þingið án gaumgæfðrar skoðunar og án þeirrar gagnrýni sem óhjákvæmilegt er að málið fái.
    Hæstv. viðskrh. á sér málgagn. Eitt blað á Íslandi er sérstakt hirðblað hæstv. viðskrh. Svo mikið hirðblað að hann skrifaði í það sérstaka áramótagrein. Þótt formaður Alþfl. skrifi áramótagrein eins og hinir þá dugir það ekki Alþfl. heldur birtist ávallt í sama Alþýðublaði á gamlársdag sérstök áramótagrein eftir hæstv. viðskrh. Síðan eru reglulega gefnir út ,,kálfar`` í þessu blaði með hátíðarviðtölum og hátíðarræðum eftir hæstv. viðskrh. þannig að sendiráðin sem starfa hér, sendiráðin sem semja frásagnir af því sem er að gerast á Íslandi og fréttamennirnir sem senda skeytin til hinna alþjóðlegu fjármagnsstofnana og inn á hinn alþjóðlega peningamarkað vita þó eitt að Alþýðublaðið er málgagn hæstv. viðskrh. Hvert er innlegg þessa málgagns hæstv. viðskrh. í þessa ,,krísu``? Í dag birtist blaðið með risafyrirsögn: ,,Landsbankanum bjargað. Eiginfjárstaðan var að hruni komin.`` Að hruni komin, 6 milljarðar í eigin fé. ,,Vonast er til afgreiðslu á frv. samdægurs til að koma í veg fyrir að rýrt verði traust bankans.`` Ég ætla bara að biðja hæstv. viðskrh., sem ég veit að er mikill málamaður, að þýða í huganum þessi orð yfir á ýmsar alþjóðlegar tungur hins alþjóðlega peningakerfis og vita hver viðbrögðin verða í bönkunum og fjármálastofnununum úti í New York og Frankfurt, Tókíó og London þegar þeir fá á skeytunum frásagnir af því að málgagn viðskrh. á Íslandi hafi talið eiginfjárstöðu stærsta viðskiptabanka landsins að hruni komna og það þurfi að fara að hleypa í gegnum Alþingi Íslendinga á einum sólarhring með neyðarfrv. til að koma í veg fyrir að traust bankans sé rýrt. Auðvitað munu þeir aðilar sem fá þannig frásagnir í hinum opna fjölmiðlaheimi af málgagni viðskrh. draga sínar ályktanir. Því segi ég við hæstv. viðskrh.: Ég öfunda hann ekki af því verki sem hann á fyrir höndum að vinna upp þann skaða sem hann og ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafa á einum sólarhring unnið hagsmunum Íslands. Sá skaði er mikill. Það mun taka marga mánuði ef ekki ár að vinna á ný það traust fyrir hönd Íslands sem fákunnandi menn í írafári hafa skert með svo mikið eins og fram hefur komið í málinu.