Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 16:13:33 (6102)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar hæstv. viðskrh. kvaddi sér hljóðs til andsvara hélt ég að hann ætlaði að upplýsa þingið um það sem hefur verið sagt bæði af mér og hv. þm. Steingrími Hermannssyni, hvort það væri rétt að hann hefði kl. 11 í gærmorgun skýrt bankastjóra Landsbankans frá því að ekki stæði til að gera neitt í málinu næstu daga. Að hæstv. viðskrh. mundi upplýsa það hér hvort hann sagði ósatt á fundum sínum með bankastjóra Landsbanka Íslands eða hvort hann vissi það ekki kl. 11 í gærdag að þetta yrði gert síðdegis. Það er auðvitað eitt af kjarnamálum þessa máls, hæstv. viðskrh., vegna þess að því miður er það svo að hæstv. viðskrh. hefur starfað þannig undanfarið að vart er að treysta orðum hans. En ef málin eru þannig að bankastjórar Landsbankans geta ekki treyst orðum hæstv. viðskrh. þá er lítil von til þess að málin batni jafnvel þótt þetta frv. verði samþykkt.
    Hæstv. ráðherra vék í staðinn að greinum þessa frv. Það er alveg skýrt. 1. og 2. gr. fjalla um

Landsbankann, 3., 4., 5. og 6 gr. fjalla um Tryggingarsjóð viðskiptabanka. Það er alveg skýrt og því verður ekki breytt nema hæstv. ráðherra vilji breyta frv.
    Það er síðan líka rangt hjá hæstv. ráðherra að ég hafi eitthvað sagt við fjölmiðla í gær um fund ríkisstjórnarinnar. Ég sagði ekki eitt einasta orð --- ekki eitt einasta orð á síðasta sólarhring við fjölmiðla um þetta mál. Einhverjir allt aðrir en ég hafa búið til orðið ,,neyðarfundur`` vegna þess að ég tjáði mig ekki um málið við fjölmiðla fyrr en í morgun þegar öll þjóðin var búin að hlusta á forsrh., viðskrh. og fjmrh. ég veit ekki í hvað mörgum lotum í fjölmiðlakerfi landsins. Hæstv. viðskrh. Er nú ekki tími til kominn að fara að hafa það sem sannara reynist í málinu?