Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 16:16:55 (6104)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er háttur þeirra sem í erfiðleikum eiga og við þekkjum það stundum hjá börnum að þegar þau geta ekki byggt vörn sína á staðreyndum þá segja þau bara: Þú skrökvar, þú platar. Fyrir nokkrum dögum treysti hæstv. viðskrh. sér ekki til að rekja staðreyndir varðandi málið um fjárfestingarbankann en hæstv. fjmrh. staðfesti eins og alþjóð veit með þögn sinni staðfesti að það sem ég sagði um það mál var rétt.
    Nú kemur hæstv. viðskrh. og ætlar að flytja frásögn af þessum fundi í gærmorgun kl. 11. Hæstv. viðskrh., einn af bankastjórum Landsbankans, mætti á fundi efh.- og viðskn. Alþingis áður en þessi fundur hófst og ég vænti þess að nefndarmenn í fjh.- og viðskn. muni skýra frá því í umræðunum hvað bankastjóri Landsbankans, Halldór Guðbjarnason, sagði á formlegum fundi sínum með þingnefndinni.
    Ég hef líka einnig rætt við bankastjóra Landsbankans, reyndar alla, hvern fyrir sig til að kynna mér málið og enginn vafi er í mínum huga hver segir satt, bankastjórar Landsbankans eða viðskrh. um þennan fund í gærmorgun.