Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 16:49:04 (6108)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er einungis ástæða til þess að fjalla hér um vexti bankanna. Það sem skiptir auðvitað máli er hver verður vaxtamunurinn á milli innláns- og útlánsvaxtanna. Það er sá vaxtamunur sem hefur verið nokkuð mikill að undanförnu í íslenska bankakerfinu því að líklega hefur bankakerfið lagt á að giska 4 milljarða til hliðar á sl. ári til þess að mæta hugsanlega töpuðum kröfum bankanna og sparisjóðanna. Ég get ímyndað mér að talan sé í kringum 4 milljarða eða þar um bil. Þær hafa þó ekki allar verið gefnar upp að sjálfsögðu því að enn hafa ársreikningar ekki komið fram.
    Það sem ég er að segja er að það sé tækifæri nú til þess að lækka vextina, bæði útlánsvexti og innlánsvexti, og það er auðvitað það sem skiptir máli að þessir vextir geti lækkað. Auðvitað hlýtur þetta að styrkja Landssbankann til þess að gera slíkt á sama hátt og aðrir bankar gætu gert það, en ég vek athylgi á því að það er ekki ætlunin að innspýting á fjármagni leiði til þess að Landsbankinn geti öðrum bönkum fremur dregið úr sínum vaxtamun. Það er það sem ég er að reyna að segja hér í kannski heldur óskýru máli.