Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 16:55:32 (6113)

     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umfjöllunar ber að á vægast sagt afar sérstakan hátt og málatilbúnaður allur af hendi ríkisstjórnarinnar með eindæmum. Hæstv. ráðherrar tala um það hér að það verði að flýta þessu máli og helst átti að koma því í gegn á Alþingi í dag.
    Nú vil ég taka það skýrt fram að ég hef gert mér fulla grein fyrir því um nokkurt skeið að það þurfti að grípa til ráðstafana til að styrkja eiginfjárstöðu Landsbankans og efh.- og viðskn. hafði reyndar farið fram á að fá að fylgjast með því máli. Það er því eitt af því sérstaka og ég vil leyfa mér að segja furðulega í allri þessari málsmeðferð að ríkisstjórninni skyldi ekki hugkvæmast að það gæti verið snjallræði að kynna þetta mál um leið og það var unnið fyrir efh.- og viðskn. Alþingis. Eftir að mér varð það ljóst á sjötta tímanum í gær hvað var að gerast, þá fór ég strax fram á það við starfandi formann efh.- og viðskn. að nefndinni yrði nú þegar gerð grein fyrir málinu og því hvað væri að gerast. Ég veit ekki til þess að hæstv. ríkisstjórn eða hæstv. viðskrh. hafi haft neina tilburði uppi til þess að gera ráðstafanir til þess að kynna efh.- og viðskn. Alþingis málið og stöðu þess. Það virðist hafa átt að koma með þetta bara hér beint inn í dag. Svona vinnubrögð eru ekki til þess að flýta fyrir framgangi mála.
    Hæstv. ráðherrum þessarar ríkisstjórnar er tamt í sinni umfjöllun að leita til erlends samanburðar. Ég leyfi mér að fullyrða að í engu af þeim löndum sem okkur er tamt að bera okkur saman við hefðu verið viðhöfð vinnubrögð sem hér er gert. Alls staðar annars staðar hefði málið verið unnið á þann hátt að kynna það fyrir þjóðþingi viðkomandi þjóðar og ná samstöðu með stjórnarandstöðu um svo viðkvæmt og brýnt mál sem hér er farið fram með. Hæstv. ríkisstjórn Íslands kaus að fara ekki þannig að --- og þó. Kannski átti hún ekkert val, kannski missti hún tök á atburðarásinni í einhverri ,,panik`` í gær. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra sem hér eru staddir, hvað átti að ræða á skyndifundi ríkisstjórnarinnar í gær sem boðaður er í hádeginu og það þarf að breyta fyrir fram ákveðinni dagskrá Alþingis, fresta fundum til að ríkisstjórn geti haldið fund kl. 4 á þriðjudegi. Hvað átti að ræða á þeim fundi í gær ef það voru ekki þessar aðgerðir?
    Ég veit reyndar að ráðuneytisstjóri í forsrh. og seðlabankastjóri kölluðu bankastjóra hinna viðskiptabankanna á sinn fund í hádeginu í gær til þess að tilkynna það að þetta stæði til seinni part dagsins. En það þótti engin ástæða til þess að kalla til og upplýsa efh.- og viðskn. Alþingis um hvað til stæði.
    Ég vil einnig benda hæstv. viðskrh. á að ég get staðfest það hér að á fundi efh.- og viðskn. í morgun sagði bankastjóri Landsbankans, Halldór Guðbjarnason, að á fundi bankastjóranna með hæstv. viðskrh. í gærmorgun, eins og bankastjórinn sagði, sagði viðskrh. orðrétt ,,að það væri ekkert sem ræki á eftir, menn hefðu einhverja daga til þess að ákveða með hverjum hætti eiginfjárstaða Landsbankans yrði styrkt``. Síðan segir bankastjórinn: ,,Um það sem gerðist eftir það vissum við ekkert frekar en þið.``
    Það þótti sem sagt hvorki ástæða til þess að upplýsa efh.- og viðskn. Alþingis né bankastjóra viðkomandi banka um það hvað var að gerast í raun. Nú dettur mér ekki í hug að halda því fram að hæstv. viðskrh. hafi vísvitandi sagt bankastjórum Landsbankans ósatt í gærmorgun. Ég held að það sem raunverulega gerðist var það að í hádeginu og seinni partinn í gær þá tók hæstv. forsrh. völdin af viðskrh. í þessu veigamikla bankamáli.
    Þetta er sú eina skýring sem ég get fundið á atburðarásinni eftir að við í efh.- og viðskn. erum búnir að yfirheyra flesta þá aðila sem að málinu komu í morgun. Af þeim viðræðum var okkur ljóst að það hefðu um nokkurt skeið átt sér stað viðræður milli viðskrh., bankaeftirlits og bankastjórnar Landsbankans um aðgerðir sem byggðust á greinargerð Landsbankans frá því í janúar. Þessar viðræður snerust að mestu leyti um þá leið að ríkissjóður eða félag í eigu ríkissjóð yfirtæki skuldbindingar þannig að Landsbankinn þyrfti ekki að vera gerður upp með því reikningslega tapi sem fylgir þeirri leið sem hér hefur verið valin. Ég vil spyrja hæstv. viðskrh.: Hvað þýðir þessi leið mikið bókfært tap á Landsbankanum á síðasta ári þegar hann verður endanlega gerður upp með þeim afskriftum sem þarna eru lagðar til?
    Hæstv. ríkisstjórn hlýtur að hafa í sinni undirbúningsvinnu, ef hún var þá einhver að þessum skyndiaðgerðum í gær, lagt mat á þessa þætti og reynt að meta hvor aðferðin væri heppilegri upp á stöðu okkar út á við og út á lánstraust okkar.
    Það var upplýst í efh.- og viðskn. að ýmsir af erlendum lánasamningum Landsbankans væru þannig að ef bankinn væri gerður upp með verulegu tapi þá væri heimild til að segja þeim upp og það yrði að semja um þá upp á nýtt.
    Virðulegi forseti. Mér rennur til rifja að málsmeðferð skyldi þurfa að fara í þennan farveg því eins og ég benti á fyrr í ræðu minni, þá hefði verið afar nauðsynlegt í svona viðkvæmu máli að ríkisstjórnin hefði leitað samstöðu með stjórnarandstöðu og Alþingi í heild um það hvernig ætti að standa að lausn svo viðkvæms deilumáls í stað þess að efna til þess uppþots sem hér varð í gær. Ég vil ekki kalla þetta flugeldasýningu, ég held það sé miklu nær að líkja þessu við það að á langferð dytti mönnum það snjallræði í hug að bera eld að bensíntanki. Ég held að sé miklu nærtækari og gleggri lýsing á því sem þarna var á ferðinni.
    Ég vil hins vegar leggja mitt af mörkum til þess að Alþingi geti lágmarkað þann skaða sem af

þessu frumhlaupi hæstv. ríkisstjórnar kann að leiða og legg áherslu á það að þetta mál fái vandaða og málefnalega umræðu í nefnd.
    Að lokum varðandi þessa kostulegu umfjöllun alla saman í gær sem endaði með því að hæstv. forsrh. með framkvæmdastjóra síns flokks, starfandi formanni bankaráðs, sat nánast allan sjónvarpsfréttatímann í gærkvöldi fyrir svörum. Ef það var eitthvað til þess að undirstrika glæfraskapinn í málinu þá var það sú framganga. Áður um kvöldið í fréttum á Stöð 2 lýsti hæstv. forsrh. því yfir að ein af meginástæðunum fyrir því hvernig komið væri fyrir Landsbankanum væri annars vegar uppgjör við Samband ísl. samvinnufélaga og hins vegar erfiðleikar vegna kaupa á Samvinnubankanum. Hvað hæstv. forsrh. gekk til með þessari yfirlýsingu er mér hulin ráðgáta, ég leyfi öðrum að ráða í það, en sannleikur málsins er sá að endurskoðendur bankans upplýsa okkur um það í morgun að þeir telji að varðandi uppgjör skulda Sambandsins hafi verið staðið á afar farsælan og góðan hátt og á allan hátt til fyrirmyndar þó ekki væri enn útséð með hvort af því hlytust einhver skuldatöp. Það getur eingöngu framtíðin skorið úr um. Bankastjóri Landsbankans og endurskoðandi upplýstu okkur í nefndinni einnig um það að kaupin á Samvinnubankanum hefðu styrkt tryggingalega stöðu Landsbankans, þ.e. þær skuldbindingar sem Landsbankinn tók yfir með kaupum á Samvinnubankanum voru betur tryggðar að meðaltali heldur en það sem fyrir var. Þetta er nú sannleikurinn í þessu máli. Það er fróðlegt að bera þetta saman við yfirlýsingar hæstv. forsrh. í sjónvarpi í gærkvöldi og spyrja sig þeirrar spurningar hvað í ósköpunum kom hæstv. forsrh. til með þessum yfirlýsingum. Það væri fróðlegt að beina þeirri beinu spurningu til hæstv. fjmrh. sem, ef ég man rétt, sat í bankaráði Landsbankans þegar Samvinnubankinn var keyptur --- er það fyrir hans tíma? --- alla vega hefur setið í bankaráði Landsbankans, spyrja hann beint að því hvort hann telji að kaup Landsbankans á Samvinnubankanum hafi verið til þess að veikja stöðu bankans.
    Ég ætla að fara nokkrum orðum um frv. sem slíkt og hvaða breytingar ég tel að þar verði að gera ef um það eigi að geta náðst einhver sátt eða samstaða á Alþingi.
    Í fyrsta lagi, virðulegi forseti, um heimildir varðandi 3. og 4. gr., sem lúta að Tryggingarsjóð viðskiptabankanna, þá tel ég að það sé eðlilegt að þar komi heimild til þess að hann geti tekið lán sem hann endurláni sem víkjandi lán til viðskiptabankanna en ég tel það grundvallaratriði ef menn eru í alvöru í þessu frv. að fást við vanda Landsbankans að lántökuheimildin þar verði ekki upp á annað en þann milljarð sem á að fara í Landsbankann. Það verði að koma fyrir Alþingi aftur ef menn telja ástæðu til þess að auka þær heimildir. Þetta tel ég algjört grundvallaratriði.
    Í öðru lagi tel ég að 6. gr. eigi ekkert erindi inni í þessu frv. Eins og fram kemur í grg. þá snýst hún um það að setja nánast yfirfrakka yfir stjórn Landsbankans. Ég held að þetta sé afar óheppilegt. Landsbankinn starfar eftir ákveðnu lögformi, hann hefur bankaráð sem starfar í umboði Alþingis og bankaeftirlitið er síðan sá lögskipaði eftirlitsaðili sem á að hafa eftirlit með allri bankastarfsemi í landinu og þessari ekkert síður en annarri. Það hefur komið fram á fundi efh.- og viðskn. í morgun að bankastjórnin, bankaráðið, er að vinna að þeim hlutum sem í greinargerðinni er rætt um. Það kom einnig fram hjá formanni bankaeftirlitsins að það væri mjög óæskilegt og í raun ruglaði myndina um það hver bæri ábyrgð á viðkomandi stofnun að fara að setja einhvern viðbótareftirlitsaðila yfir bankann. Enda kemur það fram þegar við göngum á fulltrúa ráðuneytanna að það hefur ekkert verið skýrt út hvernig að þessu ætti að standa.
    Það er svo enn ein skrautfjöðurin í hlutskipti stjórnarliðsins í þessu máli, yfirlýsingar hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar, formanns þingflokks Alþfl., í dagblöðum í morgun um að þarna þurfi hugsanlega að setja inn tilsjónarmenn og e.t.v. sé staðan þannig að það sé best að stefna að samruna Landsbankans við Búnaðarbankann.
    Þetta tel ég vera algjör grundvallaratriði ef menn ætla að fara að ræða um einhverja samstöðu um afgreiðslu þessa máls og að heimildir tryggingarsjóðsins snúi eingöngu að því sem þarf vegna Landsbankans núna og 6. gr. fari út varðandi tilsjónaraðila yfir bankanum og sérstakan samning ríkisstjórnar og bankans.
    Til viðbótar við þetta vil ég nefna atriði sem ég tel að ætti að afgreiða samhliða þessu ef menn í alvöru eru að tala um aðgerðir sem bæti stöðu bankakerfisins.
    Í umfjöllun nefndarinnar í morgun kom það mjög skýrt fram, bæði hjá bankastjóra og endurskoðanda Landsbankans og forstöðumanni bankaeftirlitsins að það væri mjög brýnt að bankarnir fengju rýmri heimildir til þess að yfirtaka fyrirtæki í rekstri til þess að reyna að gera það úr því sem hægt væri og lágmarka tapið. Tillaga að heimild þessa efnis er í 45. gr. frv. að nýjum lögum um viðskiptabanka og sparisjóði sem nú er til umfjöllunar í efh.- og viðskn. og ég tel að það væri þá æskilegt að til þess að Alþingi sýndi vilja sinn í verki hvað þetta snertir, að taka þessa 45. gr. með í þá umfjöllun sem nú fer fram. Það kom fram í máli bankamannanna, eins og þeir sögðu, að þeir hefðu staðið í stríði við hið opinbera til þess að fá að vinna á þennan hátt, eins og gert var með Álafoss, eins og gert var og er í vinnslu með Sambandið og eins og verið er að gera norður á Akureyri núna með K. Jónsson. Það var ekki, eins og kom fram í viðtali við forstöðumann bankaeftirlitsins, vegna þess að bankaeftirlitið teldi það óæskilegt heldur vildu þeir tryggja að allt sem þar væri gert stæðist lög. Þetta tel ég á margan hátt miklu heilbrigðari leið heldur en það að keyra allt í gjaldþrot sem þýðir þá oft og tíðum að fyrirtækin eru komin fljótt í rekstur aftur, búið að afskrifa allar skuldbindingarnar, engin tilraun gerð til þess að ná því út sem hægt væri

og þar með fyrirtækin í raun komin í óeðlilega samkeppnisaðstöðu við önnur þau sem eru að reyna að standa við sínar skuldbindingar.
    Ég vil, með leyfi forseta, benda á það að í umræðu um atvinnumál og stöðu atvinnulífsins utan dagskrár, sem sá sem hér stendur hóf þann 7. sept., þá lagði ég áherslu á þetta atriði sem eitt af því sem yrði að grípa til þá þegar. Ég vil, með leyfi virðulegs forseta, lesa upp úr ræðu minni þá:
    ,,Varðandi skuldsetninguna ætla ég að lokum að nefna eitt atriði sem e.t.v. er öllu umdeildara. Ég sé ekki annað en að það verði að skoða þann möguleika mjög vandlega að bönkunum verði veitt víðtækari heimild en nú er til þess að eiga hlutafé í fyrirtækjum og því nefndi ég að bankarnir yrðu að koma inn í samráð núna.``
    Ég benti á það í máli mínu þarna að um þetta yrði að koma sérstök löggjöf.
    Það fór nú svo, virðulegi forseti, að í þessari umræðu gerði hæstv. forsrh. lítið úr þessu svo sem öðru sem sneri að erfiðleikum atvinnulífsins og sagði, með leyfi virðulegs forseta:
    ,,Þegar menn eru að tala um stöðu sjávarútvegsins eru menn að horfa á spár fyrir næsta ár. Afkoman er ekki slök eða mjög slæm á þessu ári vegna þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til.``
    Hvar var framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar og hæstv. forsrh. á þessum tíma þegar við nú, í þriðja mánuði næsta árs, erum að horfast í augu, með því frv. sem hér liggur fyrir, hríðversnandi afkomu grunnatvinnuveganna á seinni hluta síðasta árs. Það er það, hæstv. viðskrh., sem við erum að fást hér við. Það hefur komið fram í umfjöllun efh.- og viðskn. að í ágúst á síðasta ári þegar verið er að gera upp fyrri hluta uppgjör síðasta árs þá gera endurskoðendur bankans engar athugasemdir við það sem þá var búið að færa á afskriftareikning. Það sem við erum að horfast í augu við núna er það sem hefur snúist til verri vegar frá miðju síðasta ári og hæstv. ríkisstjórn neitaði að horfast í augu við á síðasta hausti. Hæstv. forsrh. sagði: Stjórnarstefnan er að skila sér, þetta mun allt koma af sjálfu sér á næstu mánuðum.
    Það var inntakið í ræðu hæstv. ráðherra á þeim tíma.
    Þetta leiðir síðan aftur, virðulegi forseti, til stöðunnar í peningamálum í þjóðfélaginu og til þeirra ummæla hæstv. ráðherra úr ræðustólum í dag að með þeim aðgerðum sem hér er verið að gera sé verið að treysta stöðu undirstöðuatvinnuveganna. --- Nú kinkar hæstv. forsrh. kolli --- nei, hæstv. fjmrh. og varaformaður Sjálfstfl. og tók réttilega fram að hann væri ekki orðinn forsrh. enn þá þannig að greinilegt er að hann ber þar nokkrar væntingar í brjósti.
    Þá verð ég að segja það að mér sýnist að hæstv. forsrh. eins og ýmsir aðrir í fjármálamusterum okkar sé komninn á þá skoðun að það sé peningakerfið sem sé undirstaða atvinnuveganna en ekki öfugt. Ég hef litið þannig á að peningakerfið sé veikt vegna þess að atvinnulífið er veikt. Peningakerfið verður ekki öflugt fyrr en við erum búin að búa þannig um hnútana að grunnatvinnuvegirnir hafi úr einhverju að spila, það skapist fjármagn í þjóðfélaginu til ávöxtunar. Það var nöturlegt að hlusta á það sem eina af helstu skýringum fulltrúa ráðuneytanna í morgun á fundi efh.- og viðskn. að aðalástæðan fyrir því hversu illa væri komið fyrir Landsbankanum væri að þeir væru með svo mikil viðskipti við grunnatvinnuvegina, sjávarútveginn. Þetta segir meira um efnahags- og atvinnustefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar en nokkuð annað því það hefur verið rakið hér að í því dæmi sem hér er verið að tala um, eru afskriftir frá tíð fyrri valdhafa einungis lítið brot.
    Því miður hafa verið gerð allt of mörg mistök í stjórn peningamála á síðustu árum. Það stóð til hér í gær að fjalla um ný lög um Seðlabanka Íslands. Því var frestað vegna skyndifundar ríkisstjórnar og ég hef þá trú að í orðabókum framtíðarinnar verði skyndifundur ríkisstjórnar túlkaður einhvern veginn á þann hátt að það sé þegar í flýti sé boðað til fundar og þurfi meira að segja að fresta fundum Alþingis til þess að rýma til fyrir ríkisstjórninni. Ef það er ekki skyndifundur, þá veit ég ekki hvað skyndifundur er. En það var ekki hægt að ræða um ný lög um Seðlabankann þar sem m.a. er fjallað um þau stjórntæki sem þurfi að vera til staðar þar sem frjáls peningamarkaður ríki. Og það læðist að manni sá grunur að á síðustu árum hafi því miður verið farið akkúrat aftan að hlutunum og menn séu nú að enda á því sem hafi þurft að byrja á, að setja sér markmiðin og koma upp stjórntækjunum sem þyrfti á að halda til þess að geta stýrt frjálsum peninga- og gjaldeyrismarkaði. Í upphafi skal endinn skoða.
    Menn hafa sagt það og m.a. fyrrv. formaður Vinnuveitendasambandsins, núv. formaður samstarfsaðila í sjávarútvegi, Einar Oddur Kristjánsson, sagði það fyrir nokkru að vextir á Íslandi væru fjórðungi of háir, þeir þyrftu að vera 2--3 prósentustigum lægri en þeir eru í dag ef það væri einhver von til þess fyrir grunnatvinnuvegina að standa undir þeim. Ég gerði það því að gamni mínu í gær að reikna lauslega út hvað það þýðir fyrir viðskiptaráðherraferil núv. hæstv. viðskrh. að vextir hafi að jafnaði verið 3 prósentustigum hærri en væri eðlilegt og atvinnuvegirnir gætu staðið undir. Innlendur peningalegur sparnaður samkvæmt úttekt Seðlabankans 8. sept. sl. var ef ég man rétt 447 milljarðar. 3% af því á ári eru rúmir 13 milljarðar. Í vor þegar hæstv. núv. ríkisstjórn verður tveggja ára, þá hefur hæstv. viðskrh. setið 6 ár sem slíkur. Ég vona að ég fari rétt með þar. Það þýðir að á þessum 6 ára tíma með 3% of háum vöxtum hafa 80 milljarðar verið fluttir frá skuldurum, frá atvinnulífinu og frá heimilunum til þeirra sem eiga fjármagnið.
    Nú getur einhver sagt að hér sé eingöngu um að ræða leik með tölur sem séu ekki mjög marktækar. En ef við skoðun þróun eiginfjárstöðu atvinnuveganna á þessu árabili og ef við skoðum skuldsetningu heimilanna, þá sjáum við að fyrir þessum 80 milljörðum í 3% hærri vöxtum en raunhæft var, var engin innistæða. Menn eru nefnilega að átta sig á því að til lengri tíma litið stendur fjármagnið ekki undir hærri vöxtum en atvinnulífið í viðkomandi landi getur greitt og eins og ég sagði, eiginfjárstaða sjávarútvegsins segir allt sem segja þarf um þessa þróun síðustu ára.