Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 17:36:14 (6120)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Mig langar til að byrja á því að spyrja hvort einhverjar fréttir er að hafa af hæstv. forsrh. Það væri mjög æskilegt ef hægt væri að upplýsa að hann kæmi a.m.k. hér til umræðunnar áður en henni lyki. Öllum var nú ljóst sem fylgdust með þessu máli í gær að það var hæstv. forsrh. sem tók forustu fyrir ríkisstjórninni á þessum einstæða degi og fór með bankamálin eða a.m.k. forsvar ríkisstjórnarinnar í þeim málum og var aðaltalsmaður ríkisstjórnarinnar í fjölmiðlum. Aðalástæðan fyrir því að ég tel nauðsynlegt að hæstv. forsrh. komi hér til umræðunnar þannig að hægt sé að leggja fyrir hann spurningar áður en henni lýkur, er málsmeðferðin í gær og hvernig að þessu máli var staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þar hefur væntanlega hæstv. forsrh. ráðið mestu um, svo sem varðandi ákvörðun um boðun hins einstæða ríkisstjórnarfundar á fundartíma Alþingis o.s.frv. Efnislega held ég að ég geti látið mér nægja viðveru hæstv. fjmrh. og hæstv. viðskrh. en varðandi þætti sem snerta málsmeðferðina, þá hefði verið mjög æskilegt að forsrh. hefði komið hér til umræðunnar þannig að það er spurning, hæstv. forseti, hvort af þessu er einhverjar fréttir að hafa. ( Forseti: Það er upplýst vegna fyrirspurnar hv. ræðumanns að forsrh. er upptekinn með forseta Litáens sem hér er í heimsókn og það var vitað áður en þessi umræða hófst. Mér er ekki kunnugt um það hvenær hæstv. forsrh. getur komið hingað til umræðunnar.) Hæstv. forseti. Það er e.t.v. hægt að kanna það þá á meðan ég flyt mína tölu hvað líður prógramminu hjá hæstv. forsrh.
    Ég ætlaði að fara hér yfir nokkra þætti þessa máls, byrja á því að ræða lítillega um stöðu Landsbankans, síðan aðferð, eða aðfarir er mér nú nær að segja, hæstv. ríkisstjórnar. Í þriðja lagi þá aðferð sem hér er lögð til eða áformuð varðandi það að styrkja eiginfjárstöðu Landsbankans. Í fjórða lagi afleiðingarnar af þessum atburði fyrir bankann og fyrir efnahagslíf landsmanna og lánstraust út á við sem inn á við og snerta lítillega nokkra fleiri þætti.
    Varðandi stöðu Landsbankans hefur það út af fyrir sig legið lengi fyrir að hún væri tæp bæði gagnvart þeim reglum sem áður giltu um nauðsynlegt eiginfjárhlutfall banka og ekki síður þó með tilkomu hinna nýju BIS-reglna um sl. áramót. Reyndar var það svo að efh.- og viðskn. eyddi miklum tíma í það á síðasta ári að skoða hvort bankinn mundi ráða við að uppfylla þessar reglur að óbreyttu um áramótin og hafði

um það efasemdir. Það var óskað eftir því reyndar í nefndinni að hún fengi að fylgjast með því hvernig þeim málum mundi miða og hvernig þau mundu standa um síðustu áramót. Af því varð nú reyndar ekki, því miður, og nefndin var ekki höfð með í ráðum, hvorki um ákvörðun rétt fyrir áramótin að veita bankanum víkjandi lán frá Seðlabanka né heldur um þessa atburði nú. Ég vil láta þetta koma fram hér í byrjun, hæstv. forseti. Ég tel það gagnrýnivert að sú nefnd þingsins sem og þingið sjálft skuli ekki hafa verið haft með í ráðum í þessum vandasömu og miklu málum.
    Um það er ekki að deila að það er æskilegt að styrkja eiginfjárstöðu bankans, þ.e. miðað við óbreytt hlutverk hans og óbreytt umsvif í íslenska bankakerfinu. Bankinn á að sjálfsögðu þá leið og á það hefur verið bent að draga einfaldlega saman efnahagsreikning sinn og gera þar af leiðandi það eigið fé sem hann á hærra hlutfall af veltunni eins og hún þá yrði. En það þarf væntanlega ekki að rekja fyrir hv. alþm. og öðrum hvaða afleiðingar það mundi hafa ef forráðamenn Landsbankans tækju um það ákvörðun og framfylgdu henni að draga svo stórlega saman efnahagsreikning bankans og hækka með þeim hætti hlutfall eigin fjár miðað við útlán. Þetta væri væntanlega einna einfaldast að gera fyrir bankann með því að minnka erlend endurlánaumsvif sín verulega. Staðan er sú að erlend endurlán Landsbankans til sjávarútvegsins krefjast þess að 8 kr. í eigin fé standi á móti hverjum 100 sem lánaðar eru út og það gefur auðvitað auga leið að banki með jafnumfangsmikið þjónustuhlutverk við atvinnuvegina og þá ekki síst sjávarútveginn er með þessu settur í mjög erfiða stöðu. Aðrir hafa hér farið yfir það hvernig BIS-reglurnar koma út gagnvart Landsbankanum eins og valið hefur verið að túlka þær hér eða framkvæma og hef ég engu við það að bæta, en tel eftir á að hyggja að menn hafi alls ekki ígrundað það mál nógu vel áður en ákveðið var að skella reglunum í gildi með þeim hætti sem gert var og viðhafa þar þá túlkun sem Seðlabankinn notar.
    Það merkilega er, hæstv. forseti, að í bráð og í núinu hefur staða Landsbanka Íslands sjaldan ef nokkurn tíma verið betri. Eiginfjárstaða hans er traust, hann á á sjöunda milljarð kr. samkvæmt síðustu ársskýrslu, þeirri fyrir árið 1991. Lausafjárstaða Landsbankans er sú besta um langt árabil eða 1,7 milljarðar kr. Á sl. ári borgaði Landsbankinn í fyrsta skipti um langt árabil ekki krónu í refsivexti Seðlabankans vegna þessarar góðu lausafjárstöðu. Þetta er þess vegna þeim mun merkilegra að sú staða skuli hafa komið upp í gær sem raun ber vitni þegar haft er í huga að rekstrarstaða bankans er í prýðilegu lagi um þessar mundir. Bankinn er ekki í vanskilum með sín mál nokkurs staðar svo að vitað sé, hefur nægt lausafé og er ekki í vandræðum af einu eða neinu tagi gagnvart viðskiptavinum sínum, hvorki út á við né inn á við. Og þeim mun merkilegra hlýtur auðvitað að vera að upp skuli koma óðagot af því tagi sem gerðist í gær.
    Varðandi langtímastöðu bankans, hlutfall hans í útlánum til sjávarútvegsins og stöðu hans gagnvart svonefndum BIS-reglum um eiginfjárhlutfall er ekkert nýtt á ferðinni, ekkert sem átti að koma mönnum á óvart, ekkert sem ekki hefur í raun og veru legið fyrir um mánaða og missira skeið. Það hefur engin breyting á orðið. Það hlýtur því að þurfa einhver fleiri rök, einhverjar nýjar upplýsingar til þess að útskýra hvers vegna málin tóku þá stefnu, sem þau gerðu í gær, en þau sem hafa komið fram efnislega. Það er það sem ég kalla aðfarir hæstv. ríkisstjórnar og ég tel að séu ákaflega ámælisverðar.
    Enginn vafi er á því að margs konar misskilningur hefur verið í gangi og rangfærslur hafðar uppi bæði um stöðu Landsbankans og eins þegar leitað er skýringa á því hvers vegna þörf er á því að styrkja eiginfjárstöðu hans eins og rætt er um. Ég tel að a.m.k. fjórar draugasögur hafi þar verið í gangi sem allar hafi afsannast í dag.
    Sú fyrsta og sú heimskulegasta er sú sem hæstv. forsrh. fullyrti í gær í viðtali við fjölmiðla að væri ein veigamikil skýring á vanda Landsbankans, sem sagt sú að kaupin á Samvinnubankanum hefðu reynst Landsbankanum dýr. Þetta er rangt. Þetta er akkúrat öfugt. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbankanum sjálfum, sem hafa ekki verið hraktar, styrktist staða Landsbankans við kaupin og sameiningu hans við Samvinnubankann. Heildarstaða samsteypunnar Landsbankans/Samvinnubankans var eftir kaupin og sameininguna betri en Landsbankans hafði verið fyrr. Svo kemur hæstv. forsrh., sá sem er málflytjandi ríkisstjórnarinnar í málinu, og heldur hinu gagnstæða fram, færir það fram sem skýringu á bráðaaðgerðum ríkisstjórnarinnar að kaupin á Samvinnubankanum hafi verið Landsbankanum dýr. Þetta er út í hött. Ef rökstuðningurinn í málinu er að öðru leyti á þessum nótum er ekki von á góðu.
    Hæstv. forseti. Viðskrh. er nú horfinn úr salnum. Hæstv. fjmrh. er í símanum í hliðarherbergi. Finnst hæstv. forseta þetta fullnægjandi frammistaða af hálfu hæstv. ráðherra ríkisstjórnarinnar sem bera ábyrgð á málinu?
    Í öðru lagi hefur því verið haldið fram og nefnt jafnvel af málsmetandi mönnum, sem væntanlega ætlast til þess að þeir séu teknir alvarlega, að Landsbankinn hafi orðið fyrir miklum áföllum vegna loðdýraræktarinnar í landinu. Það eru nú meiri ósköpin. Niðurstöðutala efnahagsreiknings Landsbankans er 100 milljarðar kr. Rekstrarreikningurinn er hátt á annan tug milljarða kr. Eigið fé Landsbankans er á sjöunda milljarð kr. Svo er upplýst að Landsbankinn hafi afskrifað um 100 millj. vegna loðdýraræktar. Er það þá merkileg ástæða fram að færa að loðdýraræktin eigi mikinn þátt í vanda Landsbankans? Ég segi ekki. Það eru auðvitað smámunir og sú atvinnugrein í heild sinni hefur kostað bankann minna en tugir ef ekki hundruð fyrirtækja í hinum ólíklegustu atvinnugreinum sem hafa farið á höfuðið undanfarin ár.
    Í þriðja lagi hefur gjarnan verið nefnt að vandi fiskeldisins sé gríðarlegur og það sé ekki síst þess vegna sem Landsbankinn eigi í erfiðleikum. Þetta er líka rangt. Þótt lagt sé saman og reiknað upp allt tap

Landsbankans bæði á þessu ári og það sem á undan er gengið vegna fiskeldis þá dugar sú upphæð hvergi nærri til að skýra þennan vanda og kallar ekki á ráðstafanir neitt í líkingu við þetta þó svo menn vildu bæta bankanum það sem hann hefur tapað vegna fiskeldis. Staðreyndin er sú að væntanlega eiga aðrir bankar, bæði sparisjóðir og gott ef ekki einkabankinn fíni, Íslandsbanki, ekkert síður um sárt að binda vegna fiskeldis ef það er skoðað hlutfallslega. Þannig var til að mynda Iðnaðarbankinn sálugi, sem rann inn í Íslandsbanka, þegar búinn að taka á sig eða átti fyrir dyrum stórfelld töp vegna fiskeldis þegar sameiningin stóð yfir.
    Fjórða draugasagan, sem hefur verið í gangi um erfiðleika Landsbankans og ég tel að hafi einnig afsannast í umræðunum á grundvelli upplýsinga sem fram hafa komið, er um Sambandið. Það er Sambandið sem er að setja Landsbankann á hausinn. Landsbankinn hafi lent í svo miklum erfiðleikum, tapað svo miklu vegna Sambandsins. Það er upplýst að heilar 5 millj. kr. hafi komið til gjaldfærslu hjá Landsbankanum af þessum sökum. Þau mál eru að sjálfsögðu ekki uppgerð en það er nú allt tapið allt sem komið er. Að flestra dómi hefur Landsbankinn staðið sig mjög vel í því að bjarga þeim hlutum með inngripi sínu í rekstur Sambandsins og yfirtöku á eignum og rekstri þeirra og síðan væntanlega afsetningu eftir því sem efni og aðstæður leyfa.
    Auðvitað er það þannig að þegar svona mál koma upp að menn þurfa að finna sér einhvern sökudólg. Ég tel að þessar fjórar draugasögur hafi nú allar afsannast. Ríkisstjórnin hefur reyndar reynt að finna nýja sökudólga fyrir óðagoti sínu í gær og jafnvel dregið þar fram hv. þm. Steingrím Hermannsson. Mér skildist á köflum í málflutningi hæstv. fjmrh. og gott ef ekki viðskrh. að í raun og veru hefði hv. þm. Steingrímur Hermannsson knúið ríkisstjórnina til að gera það sem hún gerði í gær. Ég beið nú bara eftir því að reynt væri að koma þessu á Færeyinga, að þetta væri í raun og veru þeim að kenna. Það var það eina sem vantaði að mínu mati til þess að fléttan væri fullkomin hjá hæstv. ríkisstjórn. Nei, staðreyndin er nefnilega sú og hana held ég að þurfi að draga fram í dagsljósið að ekkert af þessu kallar á þessar ráðstafanir. Staða Landsbankans í augnablikinu kallar ekki á þessar ráðstafanir. Það eru horfurnar. Það er útlitið í efnahags- og atvinnumálum Íslendinga sem kallar á þessar aðgerðir. Það er tapið í undirstöðuatvinnuvegum landsmanna og það eru erfiðleikarnir sem menn horfast þar í augu við og væntanleg áföll ef svo heldur sem horfir sem kalla á þessar ráðstafanir. Eins og málin standa í dag þarf ekki að gera neitt vegna banka sem á á sjöunda milljarð í eigin fé, sem stendur alls staðar í skilum, sem er með góða lausafjárstöðu og sem þrátt fyrir allt fær hátt í 2 milljarða kr. út úr rekstri sínum á sl. ári. Landsbankinn skilar út úr rekstri í skattgreiðslur, iðgjaldagreiðslur, inn á afskriftareikning útlána og til annarra þarfa á árinu 1992 hátt í 2 milljarða kr. Það er ekki lélegur rekstur.
    Landsbankinn borgaði á sjötta hundrað millj. í opinber gjöld, iðgjöld og ýmsar slíkar greiðslur á því ári. Landsbankinn áformaði að leggja 1.200 millj. á afskriftareikning útlána. Landsbankinn leggur til hliðar 150 millj. vegna lífeyrisskuldbindinga. Landsbankinn afskrifar 50 millj. vegna keyptrar viðskiptavildar Samvinnubankans. Þetta samtals eru tæpir tveir milljarðar kr. Það þarf því að leiða fram einhver önnur rök en þau að þessi staða í sjálfu sér kalli á neyðarfund í ríkisstjórn Íslands, kalli á það að dagskrá Alþingis sé rofin og að óðagot og uppnám verði eins og hér gerðist í gær.
    Enginn vafi er á því í mínum huga, og ætla ég þá að koma lítillega að afleiðingum þessa máls, að ríkisstjórnin valdi með framgöngu sinni í gær allra óheppilegustu leiðina sem hægt var að fara til þess að koma í kring annars æskilegri aðgerð til að styrkja eiginfjárstöðu Landsbankans. Einn af bankastjórum Landsbankans orðaði það svo á fundi efh.- og viðskn. í morgun að jafnvel þó svo aðgerðir af þessu tagi hefðu farið fram í kyrrþey, verið tilkynntar eftir á með rökstuðningi fyrir þeim þá hefði það getað bakað Landsbankanum erfiðleika. Einfaldlega sú staðreynd að tilkynnt hefði verið að eigendur Landsbankans hefðu gripið til þess ráðs að auka skyndilega eigið fé hans að miklum mun hefði kallað á spurningar erlendra viðskiptavina bankans svo ekki sé nú minnst á þegar það er gert með þessum hætti, bætti svo bankastjóri Landsbankans við og það held ég að sé sönnu nær. Auðvitað mundi það vekja spurningar erlendra banka og erlendra lánveitenda Landsbankans ef þeir fá skyndilega upplýsingar um það að af einhverjum ástæðum hafi eigandinn talið sig knúinn til að auka eigið fé hans um marga milljarða kr. eða koma honum til aðstoðar með einhverjum sambærilegum hætti. En það væri væntanlega öllu viðráðanlegra að róa þá menn, svara þeim, útskýra og rökstyðja aðgerðina ef hún hefði fengið að gerast í kyrrþey með rólegum og yfirveguðum hætti og menn hefðu samtímis getað komið rökstuðningi sínum á framfæri. Því er ekki að heilsa í þessu máli. Landsbankinn hefur ekki enn, eða hafi a.m.k. ekki eftir hádegið, getað sent frá sér eitt einasta orð til erlendra viðskiptavina sinna um aðgerðirnar. Hann taldi sig ekki hafa stöðu til þess. Er það mjög heppilegt að erlendir viðskiptavinir Landsbankans þurfi að fá í gegnum Reuter og aðrar erlendar fréttastofur upplýsingar um þessa atburði en geti ekki fengið þær frá fyrstu hendi, frá viðskiptabanka sínum? Ég held ekki.
    Í öðru lagi held ég að sú aðferð sem hér er lögð til sé afar hæpin. Sú aðferð að leggja Landsbankanum þetta til í einu eða öðru formi sem eigið fé, gera honum síðan að færa þá fjárhæð yfir í afskriftareikning útlána og sýna þá í rekstrarreikningi þess árs sambærilegt tap er að mínu mati mjög varhugaverð. Ég hef ekki heyrt neinn þann rökstuðning koma fram sem sannfærir mig um að hún sé heppilegri en aðrar sem koma til greina. Ef þetta verður niðurstaðan þá verður afleiðing af þeirri aðferð ósköp einfaldlega sú að í enskri útgáfu ársskýrslu Landsbankans fyrir árið 1992 kemur það til með að standa á

alþjóðatungumáli að rekstrartap Landsbankans hafi verið á þriðja milljarð kr. á árinu 1992. Það verður væntanlega að verða niðurstaðan. Og hvað þýðir það? Það er náttúrlega eins og allir menn sjá ekki mjög góð auglýsing fyrir eitt fyrirtæki að þurfa að senda það frá sér að hann hafi tapað þvílíkum fjárhæðum á árinu. En það hefur líka áhrif að öðru leyti í gegnum það að í lánsskilmálum bankans, sérstaklega varðandi ýmsar skammtímaskuldbindingar, eru uppsagnarákvæði sem eru beint tengd rekstrarafkomunni, þ.e. ef umtalsvert og óvænt tap verður á bankanum þá hafa hinir erlendu lánardrottnar heimild til þess að segja lánssamningunum upp. Ekki þarf að leiða að því neinum getum hvaða áhrif það hefði á lánskjörin þegar endursemja þyrfti um þau mál. Ekki þarf að fara í neinar grafgötur með það. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt að skoða aðrar aðferðir miklu betur til þess að styrkja eiginfjárstöðu Landsbankans með einhverjum sambærilegum hætti eða í þeim mæli sem nauðsynlegt verður talið. Þá hafa menn auðvitað fyrst og fremst bent á þá möguleika að eigandinn taki að sér einhverjar þær byrðar sem bankinn ber sem komi honum að sambærilegu gagni hvað eiginfjárstöðuna snertir.
    Þessi aðferð hefur þann kost í för með sér að bankinn þarf ekki að taka breytinguna í gegnum rekstrarreikning sinn og sýna hann sem tap eins og ella virðist blasa við. Ég held að það þurfi ekkert að fjölyrða um það hvers virði það væri fyrir bankann að losna við þá neikvæðu auglýsingu sem í því felst. Hvers vegna á að pína banka, sem er í raun og veru að fá hátt í 2 milljarða kr. út úr rekstrinum á árinu, til að færa það yfir í tap á þriðja milljarð kr.? Það er engin smásveifla þegar öllu er til haga haldið.
    Önnur aðferð hafði að því er ég best vissi a.m.k. verið til skoðunar á liðnu ári og hún var sú að til greina gæti komið að sameina fjársterkar stofnanir Landsbankanum og styrkja þannig eiginfjárstöðuna með því að leggja t.d. saman fjárhag fjárfestingarlánasjóða eða annarra slíkra aðila sem ríkið gæti lagt bankanum til. Ég hef til að mynda ekki heyrt minnst á slíkan möguleika í dag.
    Herra forseti. Ég held því miður að þessi aðgerð sé ákaflega illa undirbúin og vanhugsuð enda kemur það á daginn að þeir sem eðlilegast hefði verið að ráðið hefðu a.m.k. einhverju um útfærsluna og hraðann, þ.e. stjórnendur Landsbankans, voru gersamlega teknir í bólinu. Það er auðvitað það undarlegasta í þessu máli öllu að þeir skuli fara út frá hæstv. viðskrh. rétt fyrir hádegið í gær með þau orð hans síðast í farteskinu að það liggi ekki meira á þessu máli en svo að menn hafi a.m.k. nokkra daga til að ræða saman um það hvernig í þetta verði farið. Þetta upplýsti bankastjóri Landsbankans okkur um í efh.- og viðskn. í morgun og taldi sig muna óbreytt orð viðskrh. um þetta efni. Hann bætti svo við að hann hefði að sjálfsögðu orðið jafnundrandi og margir fleiri á þeim atburðum sem síðan sigldu í kjölfarið eftir hádegið. Mér finnst það allt bera að sama brunni sem og ummæli forstöðumanns bankaeftirlitsins sem lá ekki á þeirri skoðun sinni í viðtali við fjölmiðla að hann teldi að þarna hefði allt of mikið óðagot verið á ferðinni sem hefði verið með öllu ástæðulaust og auðvitað gæti haft í för með sér að tjón hlytist af þessum atburðum og aðgerðum langt umfram það sem efni stæðu til.
    Út af fyrir sig held ég að það sé nokkurn veginn samdóma álit manna að hér hafi ekki verið tilefni til neinnar taugaveiklunar af þessu tagi sem betur fer. Eitt af því fáa sem við Íslendingar höfum þó getað glaðst yfir í þrengingum okkar undanfarin missiri er það að öfugt við t.d. hinar Norðurlandaþjóðirnar hefur íslenska bankakerfið nokkurn veginn staðið á löppunum og gerir það enn. Taugaveiklunarviðbrögð af þessu tagi voru því ástæðulaus og skaðleg.
    Ég er þeirrar skoðunar að vegna þess að staða Landsbankans í bráð kallaði ekki á neinar sérstakar aðgerðir hefði það verið hyggilegra að fara sér rólega í þessi mál og gera það ekki fyrr en að vel yfirveguðu og yfirlögðu ráði, líka vegna þess að norræni bankaheimurinn að öðru leyti er að ganga í gegnum miklar sviptingar. Við Íslendingar höfum þurft á því að halda að reyna að losna við að vera dregnir með niður í almenningsáliti heimsins, ef svo má að orði komast, annars staðar á Norðurlöndum hvað þetta snertir. Staðan hér hefur þrátt fyrir allt verið önnur og betri þangað til núna. Ég tel að þetta sé eins og yfirlýsing út í umheiminn um það að ástandið í íslenska bankakerfinu sé komið á sambærilegt hættustig og það er annars staðar á Norðurlöndum. Það er vitlaust að gefa slíka yfirlýsingu út við þessar aðstæður. Það er ekki þörf á því. Íslensku bankarnir eru ekki í dag og hafa ekki verið þannig staddir að ástæða væri til þess með taugaveiklun af þessu tagi að gefa það til kynna að við værum komnir í sambærilega stöðu og Finnar, Norðmenn eða Danir eða aðrir þeir sem hafa þurft að dæla peningum inn í bankakerfi sitt. Sérstaklega auðvitað Finnar, en einnig í verulegum mæli annars staðar á Norðurlöndum.
    Ég tel að bankaeftirlit Seðlabankans, sem nokkuð hefur komið til umræðu í tengslum við þetta mál, sé að mörgu leyti haft fyrir rangri sök þegar verið er að reyna að gera þess hlut tortryggilegan í þessu efni. Ég bendi á það að líklega allt frá árinu 1988 hafa legið fyrir varnaðarorð bankaeftirlitsins í þessu efni og nú síðast í september er í skýrslu frá bankaeftirlitinu fjallað um stöðu Landsbankans og bent á nauðsyn þess að styrkja eiginfjárstöðu hans. Engin önnur lánastofnun hefur jafnmikið verið til skoðunar bankaeftirlitsins og Landsbankinn, eðlilega, mikilvægasti banki landsmanna sem er undirstöðubanki atvinnulífs í landinu. Ég tel þess vegna að allar þær upplýsingar hafi legið fyrir og ábendingar bankaeftirlitsins sem gerðu það að verkum að það var óþarfi að málin færu í þennan hnút og inn í þetta öngþveiti sem raun bar vitni í gær.
    Varðandi þau ummæli sem forstöðumaður bankaeftirlitsins hefur haft um atburði gærdagsins þá tel ég rétt að það komi fram að hann var auðvitað spurður álits á þeim og beðinn um rökstuðning fyrir býsna hörðum ummælum sem hann hafði uppi til að mynda í viðtali við dagblaðið Tímann í morgun og síðan

einnig í viðtali við Dagblaðið Vísi en við höfðum ekki séð það þegar hann var á okkar fundi um hádegið. Forstöðumaður bankaeftirlitsins rökstuddi þessi ummæli og dró þau ekki til baka. ( Forsrh.: Hann hefur borið þau öll til baka.) Þá er verið að bera inn nýjar upplýsingar, hæstv. forsrh., og það er auðvitað gagnlegt að fá þetta fram í umræðunni að forstöðumaður bankaeftirlitsins hafi dregið öll þessi ummæli til baka klukkan fjögur, því að það var ekki á honum að heyra um hádegisbilið í dag að hann teldi sig ekki geta staðið við orð sín. Þvert á móti rökstuddi hann það hvað hann ætti við þegar hann segði að þarna hefði verið með óþarflegum hætti sköpuð óró og uppnám og jafnvel valdið tjóni sem komast hefði mátt hjá með því að vinna þessi mál af meiri yfirvegun en gert var.
    Að vísu kom það einnig fram að bæði viðskrh. og forsrh. hefðu kallað forstöðumann bankaeftirlitsins á teppið eða a.m.k. haft samband við hann í framhaldi af þessum ummælum. Það kann að vera að einhvers staðar hafi síðan verið skrúfaðar þær þumalskrúfur að forstöðumaður bankaeftirlits hafi talið sig knúinn til að draga til baka ummæli sín. En það var ekki á honum að heyra á fundi efh.- og viðskn., um það eru fleiri til vitnis en ég að hann teldi sig ekki geta rökstutt ummæli sín og sjónarmið í þessum efnum. Það er fróðlegt að heyra hvaða atburðir hafa átt sér stað í samskiptum við forstöðumann bankaeftirlitsins, sem heyrir reyndar ekki undir forsrn., frá því að hann var á fundi efh.- og viðskn. í dag og þangað til þessi ummæli hafa komið fram í fréttum klukkan fjögur sem verið er að vitna til.
    Allt er þetta mál hið sérstæðasta, hæstv. forseti, hvað aðferðafræðina snertir og ætla ég ekki að hafa öllu fleiri orð um það. Þá eru það lítillega önnur ákvæði frv. sem ég vil aðeins koma að og þá sérstaklega það sem lýtur að tryggingarsjóðnum. Ég tel að verið sé að blanda saman í frv. með fremur óheppilegum hætti tveimur í raun aðskildum málum þar sem eru annars vegar aðgerðir eigenda Landsbankans til að styrkja eiginfjárstöðu hans og hins vegar breytingar á löggjöf um viðskiptabanka og sparisjóði eins og það heitir víst, sitt í hvorum lögunum, sem þurfa alls ekki að vera neinn fylgifiskur þessa máls og eiga ekki að vera það að mínu mati nema hér liggi fiskur undir steini eins og reyndar hefur verið spurt um og menn jafnvel leitt getum að í dag.
    Nú vill svo til að hv. efh.- og viðskn. er einmitt um þessar mundir að fjalla um frv. til laga um viðskiptabanka þar sem sameina á í eina löggjöf öll lagaákvæði um viðskiptabanka og sparisjóði og allar innlánsstofnanir. Ég tel miklu eðlilegra að þessi ákvæði um Tryggingarsjóð viðskiptabanka og Tryggingarsjóð sparisjóða verði þá tekin til skoðunar í tengslum við afgreiðslu þess frv. og hverfi út úr þessu frv. og hér verði ekkert annað afgreitt en það sem lýtur beint að aðgerðunum gagnvart Landsbanka Íslands þó ekki væri nema vega þess að það er alveg ljóst að eins og að þessu hefur verið staðið er það Landsbanki Íslands sem greiðir herkostnaðinn af vinnubrögðum hæstv. ríkisstjórnar. En ef meiningin er síðan að taka í gegn lagaheimildir sem eiga að nýtast öðrum stofnunum er það auðvitað mjög ósanngjarnt og bersýnilega í garð Landsbankans að standa þannig að málum. Látum hann þó ekki þurfa að greiða nema herkostnaðinn vegna sín og tökum hitt með sem almennar breytingar á lögum um viðskiptabanka og sparisjóði þegar það yrði afgreitt síðar á þessum vetri. Auk þess eru þar á ferðinni ákvæði sem ég tel að séu fráleitt nógu vel ígrunduð eins og hin opna heimild til viðskrh. --- að vísu í samráði við fjmrh. --- um allt að tveggja milljarða fyrirgreiðslu óskilgreint til einhverra þeirra innlánsstofnana sem eiga í vanda. Ég hélt að það þætti almennt séð ekki góð latína að afgreiða slíka óútfyllta víxla frá Alþingi og einhvern tímann hefði þótt muna um minna en tveggja milljarða sem þarna eru óeyrnamerktir að frádregnum þessum eina sem Landsbankinn á að fá samkvæmt grg. frv. af þriggja milljarða kr. heimild Tryggingarsjóðs viðskiptabanka.
    Ég held að það einfaldaði líka meðferð þessa máls og gerði það auðveldara sem út af fyrir sig er orðið óhjákvæmilegt eins og staða málsins er orðin að afgreiða þetta mál tiltölulega rösklega frá þinginu. Svo dapurlegt sem það er þá er þrátt fyrir allt og því miður enginn annar kostur eftir skárri en sá að ljúka þessum aðgerðum tiltölulega fljótt þannig að ekki bætist við ósköpin að málið standi opið og sé deiluefni mörgum sólarhringum saman á þinginu. Þó svo að margt sé óútkljáð og óútrætt í sambandi við þessa aðferð og þessar aðgerðir allar saman þá held ég að það væri ekki til bóta að láta það taka of langan tíma að ljúka umfjöllun um það á þinginu. Í öllu falli má a.m.k. ekki leika neinn vafi á því að af þessum aðgerðum verði úr því að búið er að boða til þeirra með þvílíkum endemum og raun ber vitni.
    Ég mundi mjög gjarnan vilja, og skal láta það verða næstum því að segja mín síðustu orð, að sérstaklega þetta tvennt yrði skoðað. --- Ég sé að hæstv. forsrh. brosir og hefur gaman af þessu og það er gott, hann hefur sennilega átt ánægjulegan dag með gestum sínum og ekki þurft að hafa miklar áhyggjur af þeim smámálum sem hér eru á ferðinni enda tók það ekki langan tíma fyrir ríkisstjórn Íslands að hrista þennan smáskít fram úr erminni sem eru aðgerðirnar í bankamálunum eins og kunnugt er.
    Ég mundi gjarnan vilja, ef menn á annað borð hafa einhvern áhuga á því, að vinna þetta mál að einhverju leyti efnislega í þinginu að tvennt yrði þá sérstaklega skoðað.
    Það er annars vegar aðferðin við það að koma þessu aukna eigin fé til Landsbankans. Ég tel að stórkostlega skorti á um rökstuðning fyrir því að fara þessa leið en ekki þá sem til að mynda mér skildist á bankastjóra Landsbankans í morgun að hefði verið sjónarmið Landsbankans. Þeir hefðu heldur kosið af skiljanlegum ástæðum, tel ég, að aðstoðin hefði verið á formi þess að létta skuldbindingum af bankanum með jafngildum hætti. Vísa ég til þess sem ég áður sagði um það að ella verður bankinn píndur til að sýna þetta mikla tap og auglýsa þannig út um allan heim vonda afkomu sína á árinu.

    Hitt eru svo þessi ákvæði um Tryggingarsjóð viðskiptabanka að einangruð yrði út heimild til handa tryggingarsjóðnum að veita Landsbankanum þennan einn milljarð kr. sem honum er sérstaklega merktur en afgangurinn yrði skilinn eftir og tekinn til umfjöllunar í tengslum við frv. til laga um viðskiptabanka sem liggur fyrir þinginu.
    Eins og ég sagði í upphafi, hæstv. forseti, þá er auðvitað verið að hengja bakara fyrir smið. Í raun og veru er verið að finna sökudólga og hafa menn þar seilst býsna langt um hurð til lokunnar eins og þegar kaupin á Samvinnubankanum eru jafnvel dregin fram, sem upplýst er svo að hafi styrkt stöðu Landsbankans. Verið er að finna blóraböggla til að skella skuldinni á í stað þess sem er auðvitað niðurstaðan að það er hið almenna efnahags- og atvinnuástand sem veldur vandanum. Landsbanki Íslands endurspeglar auðvitað í afkomu sinni stöðu atvinnuvega og heimila í landinu og ekkert annað. Langstærsti banki þjóðarinnar með 40% bankaviðskiptanna getur ekki annað en deilt kjörum með atvinnuvegunum og heimilunum og það endurspeglast í afkomu hans. Þar er auðvitað snarversnandi ástand á síðustu mánuðum sl. árs og þó fyrst og fremst horfurnar sem gera það að verkum að til þessara atburða hefur dregið. Það er mat endurskoðenda bankans og annarra sem að því hafa komið sem birt er í grg. með frv. að á nýbyrjuðu ári þurfi framlag bankans í afskriftareikning útlána að verða hátt í 6 milljarðar kr. Það er auðvitað þetta sem er á ferðinni en ekki loðdýraræktin, ekki Samvinnubankinn, ekki Sambandið, ekki fiskeldið. Það er hið almenna efnahags- og atvinnuástand og horfurnar í þeim efnum sem eru samkvæmt þessu enn verri á árinu 1993 en þær þó voru eða urðu í reynd á árinu 1992. Auðvitað er það þessi sannleikur sem ríkisstjórn Íslands og hæstv. forsrh., Davíð Oddsson, reynir fyrst og fremst að fela og fer í skógarferðir af því tagi sem hann gerði í viðtölum við fjölmiðla í gær þegar kaupin á Samvinnubankanum voru einn aðalrökstuðningur hans fyrir þessum aðgerðum sem, eins og upplýst er og margendurtekið, styrktu Landsbankann.
    Nei, það er þessi niðurstaða að í valdatíma ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er afkoman þannig í atvinnulífinu og hjá heimilunum að á tveimur árum á Landsbanki Íslands að afskrifa 10,3 milljarða kr. Það er vandinn. Það er framan í það sem menn eiga að horfa, út frá því eiga menn að ræða þetta en ekki öðru.
    Að lokum segi ég þetta, hæstv. forseti: Það allra dapurlegasta við þetta eru auðvitað þessi vinnubrögð. Þessi ófagmannlegu og óábyrgu, flausturslegu vinnubrögð sem við höfum orðið vitni að. Ég segi það hiklaust að ég hef aldrei haft það jafnsterkt á tilfinningunni og sl. sólarhring að ég byggi í bananalýðveldi. Þegar ég hef fylgst með þessum farsa sem þarna birtist, þegar ég fæ upplýsingar sannorðra manna um það að viðskrh. sagði þeim undir hádegið í gær að ekki lægi meira á en svo að menn hefðu a.m.k. nokkra daga til að ræða saman um útfærslu þessa máls og skoða síðan það sem gerðist þá fæ ég það dapurlega á tilfinninguna að maður búi í bananalýðveldi. Ég segi það að ríkisstjórn sem ræður ekki við svona verkefni reynist ekki vanda af þessu tagi vaxinn, ríkisstjórn sem fer á taugum gagnvart slíku máli á að segja af sér, hún dugar ekki. Taugar ríkisstjórnar brugðust í gær. Það er í öllu falli alveg tandurhrein niðurstaða í málinu. Ríkisstjórnin fór á taugum og við getum ekki við þær aðstæður sem við búum í þjóðmálum okkar, efnahags- og atvinnumálum, setið uppi til langframa með ríkisstjórn sem hefur ekki taugar í verkefni sitt.