Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 18:23:31 (6125)

     Eggert Haukdal :
    Virðulegi forseti. Erfiðleikar Landsbankans sem eru hér til umræðu stafa aðallega af töpuðum lánum bankans til fyrirtækja og heimila. Landsbankinn er þar ekki einn á báti. Aðrir bankar og raunar sparisjóðirnir líka hafa sín töpuðu lán. Þetta er ekki ný bóla.
    Þegar í byrjun þessa áratugar stefndi í óefni eins og á var bent og varað við af nokkrum hagfræðingum. Landsbankinn sem er elstur banka og í eigu ríkis hefur sérstöðu því að stjórnvöld hafa ætlast til þess að hann kæmist til hjálpar þegar á móti blési í atvinnulífinu. Það hefur hann gert um langan tíma. Hann hefur t.d. á sinni könnu yfir 70% af sjávarútvegsfyrirtækjunum og m.a. vegna þeirra hluta stendur hann höllum fæti. Það er ekki sökum þess að hann sé verr rekinn en aðrir bankar. Má minna á það að eini bankinn sem við höfum í hlutafélagsformi kom út með verulegu tapi sl. ár. Búnaðarbankinn, sem er ríkisstofnun, stóð sig betur en hann. Einmitt vegna þessarar sérstöðu Landsbankans er hvorki sanngjarnt né heiðarlegt að meðhöndla hann eins og peningastofnun í greiðsluþrot. Það yrði í reynd gert með frv. sem fyrir liggur, en það felur í sér eins konar neyðarlán með skilyrðum. Hugmyndin um tilsjónarmenn með störfum bankans eftirleiðis er móðgun við hann. Mér er nær skapi að segja að Landsbankinn ætti fremur

að setja tilsjónarmenn með ríkisfjármálunum. Það hefði hann e.t.v. þurft að gera hjá mörgum fyrrv. ríkisstjórnum, þar á meðal hjá þeirri ríkisstjórn sem hv. 8. þm. Reykn., Ólafur Ragnar Grímsson, var fjmrh. í. Ég sé að hann brosir hér fyrir framan mig.
    Hér hafði e.t.v. átt í stað þess frv., sem fyrir liggur, að gera annað tveggja: Hið fyrra er að ríkisstjórn taki að sér hluta af skuldbindingum bankans, t.d. þeirra sem tengjast fiskeldi, loðdýrarækt og fleira, enda beint og óbeint orðnar til fyrir atbeina stjórnvalda. Auðvitað voru sumar þessar framkvæmdir mikil mistök. En það er hægt að vera vitur eftir á. Á hitt ber að líta að sú reynsla sem fengin var í þessum greinum kann að nýtast síðar.
    Hinn kosturinn er að Seðlabankinn veiti Landsbankanum tímabundna yfirdráttarheimild. Í þeirri haglægð, kreppu og atvinnuleysi, sem nú ríkir, er engin hætta á verðbólgu af þeim sökum. En sá vandi sem við stöndum frammi fyrir knýr okkur til að skoða orsakir hans. Ekki er með nokkrum rétti unnt að kenna aflaskerðingu um erfiðleikana því að hún hefur oft verið meiri og þó ekki valdið þvílíkum usla. Orsök vandans verður fyrst og fremst rakin til verðtryggingar fjárskuldbindinga samkvæmt lánskjaravísitölu. Hún hefur leitt til slíkrar uppsöfnunar skulda að útflutningurinn og einnig heimilin í landinu fá ekki lengur risið undir henni. Meðan við höfum þetta kerfi verður ekki hjá því komist að lækka gengið með reglulegu millibili og láta kaupgjaldsvísitölu gilda samhliða lánskjaravísitölunni eins og Ólafslög gerðu ráð fyrir.
    Hæstv. fyrrv. forsrh., Steingrímur Hermannsson, lét afnema kaupgjaldsvísitöluna án þess að afnema lánskjaravísitöluna og þess vegna vofa nú nauðungaruppboð íbúða yfir þúsundum heimila til viðbótar þeim sem þegar hafa átt sér stað og atvinnufyrirtækin eru í sömu nauðum. Því segi ég: Burt með lánskjaravísitöluna.
    Ég get ekki varist þeirri skoðun að viðskrh. sem vill breyta ríkisbönkum í hlutafélög hyggist með frv. veikja stöðu Landsbankans. Það er illt verk því að Landsbankinn er eini bankinn hérlendis sem nýtur trausts og virðingar á erlendum vettvangi. Með tilsjónarmönnum og skipun þess efnis að Landsbankinn dragi saman seglin er ráðherrann að veifa atvinnuleysisvofunni framan í launþega.
    Sökum þeirra atburða, sem nú hafa átt sér stað, er rétt að menn hætti endanlega við að selja eða breyta ríkisbönkunum í hlutafélög. Þess í stað má skoða þær hugmyndir að sameina Landsbankann og Búnaðarbankann í einn sterkan ríkisbanka.