Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 18:35:27 (6129)

     Eggert Haukdal (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér láðist að svara spurningu hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar og skal tjá honum það að þessi mál voru til umræðu í þingflokknum. Ég gerði þá grein fyrir afstöðu minni og meira er ekki um það að ræða.
    Ég vil undirstrika og endurtaka þau orð sem ég viðhafði áðan: Hvers vegna hefur hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, bæði sem þingmaður, formaður Alþýðubandalagsins og ráðherra, hvorki hreyft hönd né fót við ægivaldi lánskjaravísitölunnar? Hann vakti athygli á að það hefði staðið til í síðustu ríkisstjórn að fara að breyta og draga úr þessu. Nýverið var í Morgunblaðinu viðtal við viðskrh. þar sem hann segist ætla að fara að framkvæma hugmyndir sínar og hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar, þ.e. að draga úr vægi lánskjaravísitölunnar, draga úr vægi verðtryggingarinnar. Þó kom fram í þessu viðtali að þegar þessi nýi boðskapur er lesinn á það að vera á sameiginlegu valdi lántaka og þess sem lánar hversu mikið verður verðtryggt. Hver skyldi nú ráða þegar hæstv. viðskrh. fer að framfylgja þeim nýju hugmyndum hans og hv. þm. Ólafs Ragnars Grímssonar? Hver skyldi ráða meiru, sá sem ætlar að taka lánið eða sá sem lánar? Skyldi ekki sá ráða sem lánar, þ.e. með nýju hugmyndum er verið að koma öllum lánum, skammtíma- og langtímalánum, bókstaflega öllu í fullkomna verðtryggingu og lánskjaravísitalan á að halda áfram.