Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 18:37:32 (6130)

     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Hæstv. viðskrh. sagði fyrr í dag þegar hann mælti fyrir þessu frv. að efni þess væri tvíþætt, þ.e. sú hliðin sem vissi að Landsbankanum öðrum megin og hin sem vissi að tryggingarsjóðnum. Þetta er að minni hyggju meira en tvíþætt mál, þetta er margþætt mál og flutt í margvíslegum tilgangi. Að vísu er rétt að Landsbankinn á í dálitlum vanda, ekki miklum vanda samt, og ég held að ríkisstjórnin hafi búið til storm í vatnsglasi. En um það er ekki að deila að Landsbankinn átti við ofurlítinn vanda að etja. Hvers vegna er þessi vandi til kominn? Í fyrsta lagi höfum við tekið upp þessar svokölluðu BIS-reglur og bundið okkur við túlkun á þeim sem gera lán til atvinnulífsins að 100% áhættulánum. Þetta er náttúrlega fjarstæða miðað við íslenskar aðstæður vegna þess að lán til sjávarútvegs eru ekki 100% áhætta. Það sökkva ekki öll skipin og það fara ekki allar fiskvinnslustöðvarnar á hausinn.
    Auðvitað er okkur mikilvægt að viðhalda lánstrausti okkar erlendis og haga útlánum með skikkanlegum hætti, en það hefði allt eins verið ástæða til að eyða kröftunum í að vekja athygli á og kynna hinar séríslensku aðstæður þar sem sjávarútvegur er svo mikill þáttur í efnahagslífi okkar.
    Í öðru lagi er Landsbankinn í vandræðum vegna þess að hæstv. ríkisstjórn, ríkisstjórn Davíðs Oddssonar, er bráðum búin að þjarma að þessu þjóðfélagi í tvö ár. Hún hefur staðið fyrir stórfelldum tilflutningi fjármuna frá hinum efnaminni til hinna efnameiri. Atvinnulífið er komið í mikinn vanda og heimili fjölda Íslendinga komin í þrot. Bara á þessu eina ári, 1993, er búist við að skuldir heimilanna aukist um allt að 50 milljarða. Bara á þessu eina ári spáir Þjóðhagsstofnun því að skuldir heimilanna aukist um nærri 50 milljarða. Þetta eru ógnvænlegar tölur. Eigið fé Landsbankans er of lítið samkvæmt þessum fjarstæðukenndu BIS-reglum og verkefnið var að setja undir þann leka og bæta þar úr skorti á eigin fé. Eigendum ber náttúrlega að gera það með einhverju móti, þ.e. ríkinu. Hægt er að hugsa sér margar aðferðir til þess, sumar hljóðlegar eins og þá að auka eignir bankans, létta af honum skuldbindingum o.s.frv. en ríkisstjórnin hefur kosið hávaðasama aðferð sem er ekki æskileg. Af hverju kaus ríkisstjórnin þessa hávaðasömu aðferð? Ég held að það hafi verið vegna þess að hún ætlaði að gera fleira í leiðinni. Ég held að fyrir ríkisstjórninni hafi vakað að ná fleiri markmiðum en að laga til fyrir Landsbankann og leysa vanda hans.

    Efnt var til mikillar flugeldasýningar eða bensínsprengju. Þingfundur í gær var rofinn kl. 3, neyðarfundur boðaður í ríkisstjórn og þingflokkar stjórnarliðsins boðaðir til fundar á óvenjulegum tíma. Forsrh. hélt blaðamannafund og æddi á milli fjölmiðlanna. Ég tel að forsrh. hafi í gærkvöld yfirdrifið mjög þann vanda sem við er að etja og viðskrh. reyndar einnig að sumu leyti. Í umræðunum hefur verið upplýst skilmerkilega að komið hefur verið harkalega aftan að stjórnendum Landsbankans. Það hefur ekki verið borið til baka að í samtölum sem bankastjórn Landsbankans átti við hæstv. viðskrh. rétt fyrir hádegið í gær var bankastjórninni ekki greint frá því hvað til stæði.
    Nú kann að vera að hæstv. viðskrh. hafi ekki vitað betur og í fullum heiðarleik talið bankastjórninni trú um að nokkrir dagar væru til stefnu. Vel getur verið að hæstv. viðskrh. hafi ætlað um hádegi að gera allt annað en hann gerði eftir hádegi eða tók þátt í að gera.
    Hvað kann að hafa hangið fleira á þessari spýtu heldur en að hjálpa Landsbankanum? Ég tel að með þessari aðgerð hafi líka verið stílað upp á að slá á fingur launþeganna í landinu, fá þá til þess að stöðva kröfur um launahækkanir. Tækifærið var notað til þess að hnýta í fyrrv. ríkisstjórn. Fyrrv. forsrh. hefur áður í umræðunum borið það rækilega til baka og ég ætla ekki að endurtaka það. Hann benti á að vandinn er fyrst og fremst núv. ríkisstjórn að kenna. Skuldasöfnun einstaklinga og fyrirtækja er fyrst og fremst til komin á síðustu tveimur árum og það hefur verið rakið rækilega í umræðunum hvaða mislukkaðar aðgerðir hæstv. ríkisstjórnar hafa fyrst og fremst orðið til þess að kippa fótunum undan atvinnulífinu í landinu og fjárhag fjölskyldnanna. Reynt að gera dauðastríð Sambands ísl. samvinnufélaga tortryggilegt og kasta sök á það. Síðan er á lofti sú kenning sem mér finnst ekki ótrúleg að verið sé að reyna að bjarga Íslandsbanka hljóðlega út úr vandræðum hans en nota Landsbankann sem blóraböggul. Íslandsbanki var einkavæddur illu heilli fyrir nokkrum árum. Ríkið tók á sig gífurlegan fórnarkostnað til þess að koma þessu hugsjónamáli hæstv. viðskrh. í kring og Íslandsbanki byrjaði með svo til hvítskúrað gólf. Í umræðunum hefur verið að gera samanburð á stöðu Búnaðarbankans og Íslandsbanka og stöðu Landsbankans og Íslandsbanka. Þar er sá munur á að fyrir örfáum árum byrjaði Íslandsbanki með hreint gólf vegna þess að verstu skuldbreytingar Útvegsbankans fóru ekki með inn í Íslandsbankabúið og ríkið tók á sig þar að auki stórfelldar byrðar út af lífeyrisgreiðslu. Samt sem áður þarf Íslandsbanki samkvæmt upplýsingum fjmrh. og upplýsingum frá bankanum sjálfum sem lögð hafa verið í hólf þingmanna í dag að leggja 1.500 millj. í afskriftasjóð á árinu. Komið hefur fram að 7 af hverjum 10 kr. af hlutafé bankans eru glataðar og þessi fyrirmyndarbanki er rekinn með 200 millj. halla. Ekki eru þó vextirnir þar lægri en annars staðar. Ég held sem sagt að ríkisstjórnin hafi ekki bara verið að huga sér að bjarga Landsbankanum eða laga til fyrir Landsbankanum því björgun þurfti hann enga. Hann var sjálfbjarga og ágætlega rekinn þrátt fyrir það að hann ætti í nokkrum erfiðleikum út af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar og hinum harðleiknu BIS-reglum. Ég vonast eftir því að ríkisstjórninni verði nú ekki úr því að ná þessum hliðartilgangi sínum sem hún sýnilega hefur ætlast til. Afleiðingarnar af þessu írafári ríkisstjórnarinnar eru ákaflega kostnaðarsamar og það er mjög bagalegt. Þetta skapar óróa um Landsbankann. Þessar aðgerðir koma til með að hækka vexti að einhverjum mun svo framarlega sem lögmál markaðarins eru látin danka áfram og stjórna eins og hæstv. ríkisstjórn hefur að leiðarljósi. Ég held þó að það tjón sem er unnið Landsbankanum innan lands sé bætanlegt. Ég held að fólkið í landinu viti að Landsbankinn er traustur banki og ekki nálægt neinu gjaldþroti og ég tel að viðskiptamenn hans innan lands geti verið rólegir. Þeir þekkja bankann. Þeir vita að þetta er traustur ríkisbanki. Það er ekki eins og þetta sé einhver einkabanki sem stendur á völtum fótum. Hins vegar er það tjón, sem unnið er út á við, miklu verra fyrir þjóðfélagið því að slíkar uppákomur hljóta óhjákvæmilega að rýra lánstraust þjóðarinnar erlendis, hækka vexti og þrengja lánskjör.
    Hæstv. forsrh. hefur manna mest varað við erlendum lántökum og hættulegri skuldasöfnun erlendis. Hann hefur reyndar gert það á sama tíma og hann hefur staðið að því í borgarstjórn Reykjavíkur að taka stórlán fyrir borgarsjóð í útlöndum en það kann að vera að hér eftir verði Íslendingum ekki eins greiður aðgangur á erlenda lánamarkaði og verið hefur hingað til. Ég tel að þetta skapi ónauðsynlega tortryggni útlendinga í garð Íslendinga. Verið er að skipa okkur óbeint á bekk með Færeyingum með þessum aðförum og ég tel að ríkisstjórnin hafi í þessu máli hagað sér af miklu ábyrgðarleysi, skaðað hagsmuni Íslendinga og skaðað hagsmuni Landsbankans þegar upp er staðið, hagsmuni íslenskra fyrirtækja og hagsmuni heimilanna í landinu. En skaðinn er skeður og við framsóknarmenn viljum taka á þessu máli af ábyrgð. Héðan af tel ég að verkefnið sé það að reyna að gera það skásta úr málinu sem mögulegt er.
    Ég tel sjálfsagt að greiða fyrir eðlilegri afgreiðslu frv. á þskj. 740, sem er til umræðu, og ljúka 1. umr. um málið í dag og senda það til nefndar og ég vona að nefndin gefi sér tíma til þess að kanna málið rækilega. Ég tel að nefndin eigi að hugleiða það mjög vandlega að breyta frv., þ.e. að taka annan þáttinn út úr og heimila ríkisstjórninni að bæta eiginfjárstöðu Landsbankans með heimildinni til lántöku Tryggingarsjóðs viðskiptabanka, ekki um 3 milljarða heldur um 1 milljarð. Landsbankinn þarf ekki nema 1 milljarð og ástæðulaust er að gefa heimild fyrir þeim 2 milljörðum sem væntanlega er hugsað að renni til Íslandsbanka. Ef svo illa fer að Íslandsbanki þurfi á fyrirgreiðslu að halda þá er það sérstakt mál. Þar að auki er til meðferðar í þinginu frv. um viðskiptabanka og þetta á heima þar en ekki í frv. á þskj. 740.
    Ég vil því styðja 1., 2. og 8. gr. frv., breyta 5. gr. þannig að 1 milljarður standi í staðinn fyrir 3 milljarða. Ég sé enga ástæðu til óðagots í málinu og við getum gefið okkur eðlilegan tíma til að afgreiða málið vandlega. Efh.- og viðskn., sem fær málið í kvöld, hlýtur að verða að fá tíma til þess að hugsa sinn

gang og ræða við þá sem hún þarf að fá til viðtals. Tryggingarsjóðsmálið á heima í öðru frv. sem líka er hjá efh.- og viðskn. og er eðlilegt að það mál verði athugað við meðferð þess máls. Ég held að það sé því ástæðulaust að afgreiða annað en það sem að Landsbankanum snýr í þessari lagasetningu.
    Að lokum, frú forseti, guði sé lof fyrir að Landsbankinn er ríkisbanki en ekki einkabanki og viðskiptamenn hans geta verið rólegir.