Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 19:01:13 (6133)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Því ber að sýna skilning að hæstv. forsrh. er dálítið strekktur yfir þessu öllu saman og ég ætla mér þess vegna að bera það með umburðarlyndi að hann er að fara upp með þjósti og ávíta mig á þann veg sem hann gerði. Hæstv. forsrh. hefur ekkert fylgst með umræðum í dag nema lítillega síðasta klukkutímann eða svo þannig að hann veit ekki hvað hefur verið rætt hér í dag. Væri skynsamlegra fyrir hæstv. forsrh. að kynna sér það áður en hann kemur upp með þessum þjósti og hortugheitum. Ætli það sé ekki hæstv. fjmrh. sem oftar en ég hefur rætt stöðu Íslandsbanka í dag? Ég hugsa að það sé þannig að hæstv. fjmrh. sé sá ræðumaður í dag sem oftast hefur rætt um Íslandsbanka.
    Ég vil einnig benda hæstv. forsrh. á að það var einmitt einn af hans helstu trúnaðarmönnum, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., formaður bankaráðs Landsbankans sem tilkynnti þjóðinni það í gærkvöldi í sjónvarpi að menn yrðu að átta sig á því að þetta frv. væri ekki bara fyrir Landsbankann. Alls ekki. Kjartan Gunnarsson, framkvæmdastjóri Sjálfstfl., benti sérstaklega á það í sjónvarpi í gær að þessu frv. væri ætlað að greiða úr vanda annarra. Þannig að sá sem fyrstur var til þess að draga aðra viðskiptabanka inn í þessa umræðu opinberlega var framkvæmdastjóri Sjálfstfl., Kjartan Gunnarsson, sérstakur trúnaðarvinur forsrh.