Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 19:03:40 (6135)

     Ólafur Ragnar Grímsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. Steingrímur Hermannsson er alveg fær um að svara fyrir sig en það hefur auðvitað vakið athygli að bæði í andsvörum við minni ræðu og andsvörum við ræðu Steingríms J. Sigfússonar hefur hæstv. forsrh. séð sérstaka ástæðu til þess að koma upp nokkrum sinnum og ráðast á hv. þm. Steingrím Hermannsson þar sem hann hefur samkvæmt þingsköpum enga möguleika til að svara fyrir sig í þeirri lotu.
    Ég vil benda hæstv. forsrh. á það að sá þingmaður sem fyrstur kveikti á öryggisbjöllunni í málinu og tilkynnti allri þjóðinni að eitthvað mikið hlyti að vera á seyði var hæstv. forseti sameinaðs þings sem stóð upp af stóli sínum um klukkan tvö og tilkynnti þingheimi og þjóð það að fella yrði niður fundi á Alþingi vegna sérstaks ríkisstjórnarfundar og þess vegna væri ekki hægt að taka fyrir frv. um Seðlabanka. ( Forseti: Forseti sameinaðs þings er ekki til lengur.) Það er að vísu alveg rétt, ég bið forláts á því, það var forseti Alþingis, sá sem situr hér fyrir aftan mig sem gerði þetta. Eftir þá tilkynningu var því öllum ljóst að eitthvað mikið hlaut að vera á seyði.
    Hæstv. forsrh. segir að ég eigi að gæta að orðum mínum. Hæstv. forsrh. er alveg frjálst að mælast til þess en það hefur verið rakið hvað eftir annað í ræðum í dag, sem hæstv. forsrh. hefur ekki getað hlustað á, hvernig hæstv. forsrh. fór með fleipur í sjónvarpinu í gær í máli eftir máli eftir máli. Ef einhver ætti að líta yfir málflutning síðustu 20 klukkustunda eða svo og hugleiða svo hver eigi að gæta að orðum sínum, sýna hugarró og stillingu, vanda málfar sitt, sýna ábyrgð og gæta að peningastofnunum og orðstír þeirra þá er það hæstv. forsrh. Íslands, Davíð Oddsson.