Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 19:05:45 (6136)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessi síðasta ræða hv. 8. þm. Reykn. lýsir því hve langt hann er kominn frá efninu og hann hlýtur að viðurkenna það eins og flestallir aðrir sem hafa tekið til máls í dag hve mikilvægt það er að það sem við segjum í ræðustól sé ekki gert til þess að veikja stöðu íslenska bankakerfisins. Það er ljóst að 5. og 6. gr. í því frv., sem hér liggur fyrir, er m.a. ætlað að vekja almennt traust á íslenska bankakerfinu. Það er líka ljóst að hæstv. viðskrh. getur ekki veitt lánið einn. Hér er um að ræða ríkisábyrgð og hvert mál verður skoðað hverju sinni og það er engin hin minnsta ástæða til þess að halda að sparisjóðir eða aðrir viðskiptabankar en Landsbankinn þurfi á slíkri fyrirgreiðslu að halda. Jafnljóst var það að þessi aðgerð ætti að vera almennari en svo að eingöngu væri verið að hugsa um Landsbankann í því sambandi því hér er verið að byggja upp traust.
    Hv. þm. hefur bent á og sagt að ég hafi manna oftast rætt um málefni Íslandsbanka. Það kann vel að vera. En hafi ég gert það oftar en aðrir þá hefur það verið gert til þess að sýna fram á að sá banki stendur vel. Ég er með upplýsingar fyrir framan mig um afkomu bankans á síðasta ári og miðað við síðustu áramót þá er staða bankans þegar mælt er á mælikvarða BIS-reglnanna sú að svonefnt BIS-hlutfall er 10% eða fjórðungi hærra en þarf sem er 8%. Til þess að koma með samanburð við Landsbankann þá er hlutfallið þar 8,5--9% eftir þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hyggst gera samkvæmt þeim lögum sem hér eru til umræðu. Ég bið hv. þm., og ég ætlaði að fara að höfða til sómatilfinningar hans en ég skal ekki gera það, ég bið hann samt sem áður að athuga það vel að jafnvel gæti það farið svo að nokkrir menn sem

hlýða á mál okkar hér tækju mark á því sem hv. þm. segir í ræðustól og bið hann að haga orðum sínum með tilliti til þess.