Eiginfjárstaða innlánsstofnana

131. fundur
Miðvikudaginn 17. mars 1993, kl. 19:10:35 (6138)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að taka að mér að kenna hv. þm. neitt, ég veit að það tekst ekki á örfáum mínútum. Ég vil hins vegar minna á það að Íslandsbanki hefur í viðskiptum fjöldamörg sjávarútvegsfyrirtæki þannig að ef það er rétt sem hv. þm. er að segja um Landsbankann þá gildir það sama um Íslandsbanka að efnahagsstaða hans er sterkari heldur BIS-reglurnar gefa vísbendingu um af því Íslandsbanki er arftaki Útvegsbankans og fjöldamörg stór sjávarútvegsfyrirtæki eru í viðskiptum við hann.
    Það er athyglisvert, virðulegi forseti, hvernig hv. þm. hefur reynt að búa til leikrit í dag. Hann er að búa til það leikrit að ríkisstjórnin ætli að færa ,,kolkrabbanum`` í gegnum Íslandsbanka einhverja 2 milljarða kr. Þetta þjónar sögu og leikriti hv. þm. sem hann hefur haft hér uppi með hléum sl. 10 eða 12 ár á þinginu. Nú er kominn nýr kafli í þetta leikrit sem heitir að nú eigi að færa 2 milljarða til ,,kolkrabbans`` með þessum hætti, eins og hann kýs að kalla það.
    Ég vona að hv. þm. átti sig á því að hann sjálfur hefur kannski sagt þá hluti í dag sem við skulum gefa gaum, það voru upphafsorðin hans sem hann flutti í fyrstu ræðu sinni í dag, þegar hann sagði: Við skulum átta okkur á því að gæta orðstírs íslenska bankakerfisins erlendis. Hluti af því er að taka mark á BIS-reglunum því það eru BIS-reglurnar sem eru mælikvarði á getu íslenska bankakerfisins og stöðu þess. Þess vegna hangir það saman, virðulegi þingmaður, ef við viljum gæta að orðstír íslenska bankakerfisins tökum við mark á alþjóðlegum stöðlum og komum þannig í veg fyrir það að komið sé fram við íslenska banka og íslenskt bankakerfi með öðrum hætti en gert er gagnvart erlendum bankastofnunum. Þetta skulum við hafa í huga og ég skora á hv. þm. að standa með okkur í því að koma trausti á íslenskt bankakerfi á nýjan leik.